08.03.1930
Neðri deild: 48. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1212 í B-deild Alþingistíðinda. (1020)

5. mál, sveitabankar

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Vegna orða hv. þm. Borgf. vil ég taka það fram, að það voru ekki mín orð, að nafnbreyting á frv. þessu í þá átt, sem hv. þm. gerir till. um, mundi valda þessum stofnunum þrenginga. Að nafninu var breytt í hv. Nd. í fyrra, var afleiðing af því, að þá var verksvið þessara stofnana þrengt allmikið frá því, sem lagt var til í stjórnarfrv. Nú hefir frv. aftur verið breytt í líkt horf og hið upprunalega var. Nafn það, sem hv. þm. Borgf. vill velja þessum stofnunum, er því orðið í ósamræmi við frv. eins og það er nú. Auk þess tel ég það verra. Það setur daufari og ófullkomnari svip á frv. og þær stofnanir, sem ætlazt er til, að rísi upp samkv. því. Og ef þessar stofnanir eiga fyrir sér að eflast, sem ég vil fastlega vona, þá verður það enn síður sannnefni.

Út af því, sem hv. þm. Borgf. sagði um laun bankastjóra hér, þá vil ég geta þess, að enginn þeirra bankastjóra, sem starfa við Búnaðarbankann, hefir slík laun sem hv. þm. nefndi. Og vegna þess að sama vitleysan hefir verið margendurtekin í blöðum, þá er rétt að geta þess, að þessir bankastjórar hafa að launum: Aðalbankastjórinn 12 þús. og hinir 4 þús. kr. hvor. Auk þess fá þeir dýrtíðaruppbót, sem enn er eigi ákveðin, en kemur aldrei til að nema neinu nálægt því, sem hv. þm. og blöðin hafa nefnt.