08.03.1930
Neðri deild: 48. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1213 í B-deild Alþingistíðinda. (1024)

5. mál, sveitabankar

Jón Auðunn Jónsson*:

Ég verð að lýsa því yfir, að ég er hissa á því, ef svo á til að ganga, að sveitabönkum sé gefinn réttur, er gangi fyrir rétti ómyndugra. Þær einu kröfur, sem samkv. brtt. eiga að ganga fyrir. kröfum sveitabankanna, eru þær, sem taldar eru í 82. gr. skiptalaganna, en þær eru: útfararkostnaður, skiptakostnaður og skiptalaun. En allar þær kröfur, sem nefndar eru í 83. gr. sömu 1., eiga að víkja fyrir rétti sveitabankanna. En í þeirri grein er, meðal annars, fé landsins, sveita, kirkna, ómyndugra o. m. fl. Ég skil varla í því, að neinn vilji ganga svo langt að láta fé ómyndugra víkja fyrir almennum veðum. Sé þetta sett í frv., hlýtur það að leiða til þess, að strangar gætur verður að hafa á þeim, sem eitthvert slíkt fé hefir undir höndum, sem um getur í 83. gr. skiptalaganna. Hjá slíkum mönnum þyrfti næstum að endurskoða mánaðarlega. Þetta kemur vitanlega til framkvæmda aðeins þar, sem um þrotabú er að ræða. Og því eru ákvæði 83. gr. sett, að fé þess opinbera og ómyndugra sé tryggt, þótt aðrar skuldir tapist. Ég veit naumast, hvar muni lenda, ef sá síður er upp tekinn að láta slíkar kröfur víkja. Ég vil því fastlega mælast til þess, að brtt. sé felld.

Viðvíkjandi lánastarfsemi sveitabankanna, þá tel ég, að engin meining sé í því að veita svo há lán gegn lausafé, að nemi verði þess að fullu eða meira. Ef það er gert, þá er ég hræddur um, að sveitabankarnir tapi fé sínu, og vanséð má telja, til hve mikils hagnaðar slík útlánsstarfsemi væri fyrir bændur.