08.03.1930
Neðri deild: 48. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1214 í B-deild Alþingistíðinda. (1026)

5. mál, sveitabankar

Frsm. (Þorleifur Jónsson):

Ég get gengið inn á það með hv. þm. N.-Ísf., að varlega beri að lána gegn lausafjárveði. En með aðhaldi því, sem er í frv., býst ég við, að svo muni verða gert. En viðvíkjandi ummælum hv. þm. um, að það sé hart, að kröfur þær, sem taldar eru í 83. gr. skiptalaganna, víki fyrir kröfum sveitabankanna, vil ég benda honum á það, að frv. þetta er upphaflega samið af góðum lögfræðingi, Böðvari Bjarkan, og að í frv. eins og stj. lagði það fram var ekkert undan skilið. En við viljum þó nú setja takmarkið við 82. gr. Það er því linun frá upphaflega frv. Að áliti Böðvars Bjarkan hefir þetta því verið vel tiltækilegt, þar sem hann lagði til, að lengra væri gengið. — Annars vona ég, að þótt brtt. verði samþ., þá muni það litlum skakkaföllum valda. Í sveitum er lítið af því fé, er um getur í 83. gr., í höndum einstakra manna.