29.01.1930
Neðri deild: 8. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 588 í C-deild Alþingistíðinda. (1029)

28. mál, raforkuveitur utan kaupstaða

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Það eru aðeins fá orð. Ég get lýst ánægju minni yfir ræðu hv. þm. Borgf. Hann brá ljósi yfir ýms atriði þessa máls, svo að það er nokkru skýrara eftir en áður. Hv þm. sagði, að allir væru sammála um þá nauðsyn, að lýsa og hita heimilin. Og það vil ég láta vera heildarsvipinn yfir þessum umr., þd að við köstumst á nokkrum hnútum. Hv. þm. sagði, að það hefði ekkert verið talað um aðalatriði þessa máls — þátttöku ríkissjóðs í hinum fyrirhuguðu rafveituframkvæmdum. — En þetta er alls ekki rétt. Það hefir komið fram í ræðum hv. l. flm. og í mínum ræðum, hvernig þátttöku og fjárframlögum ríkissjóðs yrði háttað. Hv. 1. flm. og þm. Borgf. hafa mest talað um að verja tekjuafgangi í fjárl. til framkvæmda þessum rafveitufyrirtækjum. En ég hefi bent á, að hér væri um svo þýðingarmikið mál að ræða, að það yrði að sjá ríkissjóði fyrir sérstökum tekjum til að tryggja framkvæmd þess sem bezt. Hv. þm. Borgf. sagði, að það væri „slagorð“ mitt, að nota ætti tekjuafganga í þessu augnamiði. Nei, þetta er „slagorð“ hv. flm. frv. og þeirra flokks, að það eigi að lýsa og hita upp íslenzka sveitabæi fyrir tekjuafganga í fjárl. (PO: Ég hefi aldrei sagt það). Hv. 2. þm. Skagf. sagði þetta fyrstur.

Hv. þm. Borgf. sagði, að það væri tekið með léttúð á þessu máli. Það gera engir aðrir en hv. flm. sjálfir. Það lýsir ótrúlegri smámunasemi, og er meira að segja móðgun við þingið, að koma fram með slíkt stórmál eins og þetta og tala um, að það verði framkvæmt fyrir afganga í fjárlögum. Þetta ber ekki vott um mikinn stórhug hjá hv. flm. frv.

Ég gat ekki betur skilið en að hv. þm. Borgf. líkaði þetta vel. Enda fór hann að rökstyðja þessi áform með því að nefna ýms dæmi þess, hvað gert hefði verið fyrir tekjuafganga í fjárlögum. Þó að nú séu að vísu góð tekjuár, þá er engin trygging fyrir, að það haldist framvegis. Þetta ber einmitt ljósastan vott um hug minn og hv. flm. til þessa máls, að ég vil auka tekjurnar því til stuðnings, en þeir ætlast til, að það sé komið undir atvikum og árferði og tekjuafgangi í fjárl., hvernig um það fer.

Einn mikilsmetinn þm. í Íhaldsfl., sem á sæti í þessari hv. deild, lét þau orð falla um þetta mái á landsmálafundi síðastl. sumar, að það mundi skipta öldum að hrinda því í framkvæmd. Svona er þá háttað hugsjónamálum Íhaldsflokksins og framkvæmd þeirra. Þeir segja: það á að gerast á öldum og fyrir afganga í fjárlögum! — En við framsóknarmenn viljum byrja á því að tryggja ríkissjóði fastar tekjur, til þess að hægt sé að framfylgja þessu máli, þegar Alþingi ákveður það. Þetta ber ljósastan vott um vinnubrögð flokkanna.