30.01.1930
Neðri deild: 9. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 591 í C-deild Alþingistíðinda. (1044)

29. mál, rekstarlánafélög fyrir bátaútveg og smáiðju

Flm. (Jóhann Jósefsson):

Þetta frv. á þskj. 29 stendur í nánu sambandi við frv. á þskj. 30, um Fiskiveiðasjóð, sem næst er á dagskrá. Þó getur þetta frv. um rekstrarlánin staðið sjálfstætt út af fyrir sig, án þess að sú leið sé farin, sem frv. á þskj. 30 gerir ráð fyrir. — Eins og hv. þdm. mun vera kunnugt, var frv. um þetta efni flutt hér áður í þinginu, nefnilega 1928, er sjálfstæðismenn í Ed. báru það fram. Málið náði ekki fram að ganga að því sinni, en hugmyndin, sem í því fólst, var tekin upp af landsstj. í fyrra, er hún bar fram frv. um Búnaðarbanka. Urðu þá töluverðar deilur um það, hvort veita ætti sjávarútvegs- og sveitabændum aðgang að lánum úr bankanum að því er útveg þeirra snertir. Við sjálfstæðismenn héldum því fram, að bændur, sem við sjó búa og bátaútveg hafa jafnframt búskapnum, hefðu eðlilega brýna þörf og sjálfsagðan rétt til lána úr bankanum. En rök okkar voru að engu höfð í þessu máli. Hin stefnan varð ofan á, að útiloka þá frá lánum úr bankanum hvað þann hluta atvinnu þeirra snertir, er að sjónum lýtur. Þó er það margviðurkennt af öllum, er til þekkja, að rekstrarlánaþörf bátaútvegsins er miklu meiri en núverandi lánsstofnanir geta sinnt. Hafa komið fram ýmsar till. til þess að bæta úr lánaþörfinni, en engar þeirra hafa fengið framgang. Á þskj. því, sem hér er um að ræða, er gerð veruleg tilraun til þess að koma á fót rekstrarlánafélögum til þess að sinna lánsþörf bátaútvegsmanna og hinna smærri iðjurekenda, sem standa í nánu sambandi við útgerð. Fyrirkomulag þessara félaga er sniðið að mestu eftir því, sem frv. 1928 gerði ráð fyrir. Með því nú, að menn eru á einu máli um nauðsyn málsins, þá má vænta þess, að Alþingi láti nú ekki hátíðarárið líða svo, að það sýni ekki fullan skilning og samúð með bátaútveginum og þeim iðnrekstri, sem í sambandi við hann stendur, og reyni að hjálpa þessum atvinnugreinum með hagkvæmum lánum. Ég ætla ekki að fara út í neinn meting við hina stærri útgerð í landinu, enda á það ekki við, en ég vil aðeins benda hv. þm. á það, að fjöldi landsmanna lifir á smábátaútvegi, og því getur það tæplega talizt vansalaust af löggjafarvaldinu að hafa till. til meðferðar um að styrkja þennan atvinnuveg, en sinna þeim þó ekki. Vænti ég þess, að svo fari ekki í þetta sinn.

Ég skal svo ekki fjölyrða frekar um þetta að sinni. Eins og ég gat um í upphafi, stendur þetta mál í nánu sambandi við næsta málið á dagskránni, en getur þó staðið út af fyrir sig, þó að það mál nái ekki fram að ganga. En umr. um þessi tvö mál hljóta þó að ganga að miklu leyti í sömu átt, og get ég því sparað mér lengra mál við þessa umr. Vil ég enda mál mitt með því að biðja hv. þdm. að sýna frv. þá velvild að láta það ganga til sjútvn.