18.03.1930
Neðri deild: 56. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1219 í B-deild Alþingistíðinda. (1045)

5. mál, sveitabankar

Magnús Torfason:

Hv. þdm. munu kannast við það, að fyrir nokkrum árum flutti ég frv. þess efnis, að lausafé og þá sérstaklega bústofn, sem fylgdi jörðum, gæti haft sama rétt og fasteignaveð. Þetta frv. fann nú ekki náð fyrir hv. d., og taldi ég það miður fara. Það frv. fór þó ekki líkt því eins langt eins og þetta frv. fer nú; mér hefði aldrei komið til hugar, að með því frv. mætti skerða rétt ómyndugra og mér hefði heldur aldrei komið til hugar, að með því mætti skerða rétt hins opinbera til gjalda. Það frv. var almennt, átti að gilda gagnvart öllum stofnunum og öllum einstökum mönnum, en þessi till., sem hér er um að ræða, hún á aðeins að gilda fyrir sérstaka stofnun. Nú má segja, að þessi till. sé ekki eins skaðvænleg fyrir það, að hér er um sérstaka stofnun að ræða, sem á að njóta þessara réttinda, en annars verð ég að líta svo á, að það hæfi alls ekki að fara að breyta löggjöf á öðrum merkum sviðum fyrir einstakar stofnanir. Það er með þessu móti verið að rýra þau réttindi, sem hið opinbera hefir, og það er með þessu móti verið að gera þessi lán rétthærri heldur en fasteignalán. Ég held, að það geti ekki komið til neinna mála, að slík lán séu þó gerð rétthærri en fasteignalán.

Nú hygg ég það, að þeir, sem standa að Búnaðarbankanum, leggi afarmikla áherzlu á þetta, en af hvaða ástæðu það er, get ég ekki hugsað mér. Fyrir mitt leyti finnst mér, að það væri alveg nóg, að þessi lán hefðu rétt fram yfir venjuleg lausafjárlán og að þeim reglum væri fylgt sem þyrfti til að gera slík lán lögleg, svo og að þau væru voðfelld og engum sérlegum annmörkum bundin, eins og lausafjárlánin almennt eru. Ég hefi a. m. k. ekki af n. hálfu heyrt, hver nauðsyn það er að brjóta svo í bág við allar almennar lagareglur, sem hingað til hefir verið litið svo á, að ekki næði nokkurri átt að breyta. Líka vil ég geta þess, að ég er sannfærður um það, að nái þessi brtt. okkar ekki fram að ganga, þá verður frv. breytt í hv. Ed., og þess vegna yrði það aðeins til að tefja fyrir málinu að neita nú hér að samþykkja þessa brtt., sem við höfum borið fram.