18.03.1930
Neðri deild: 56. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1220 í B-deild Alþingistíðinda. (1046)

5. mál, sveitabankar

Halldór Stefánsson:

Ég er hv. landbn. þakklátur fyrir undirtektir hennar á tillögum mínum við 2. umr. Mér dettur ekki í hug að gera það að neinu aðalatriði eða kappsmáli, í hvaða formi tillögurnar eru settar fram í frv., þótt ég hugsaði þær í nokkuð öðru formi en þær eru nú bornar fram, en það var fyrst og fremst vegna þess, að ég hugsaði þær við það form, sem á frv. var, og setti þær því ekki fram í sérstakri deild eða sérstökum kafla.

Hinsvegar vil ég leiðrétta það, sem hv. frsm. sagði, að með till. mínum hefðu bústofnslánin verið tvinnuð saman við rekstrarlánin, eins og hann orðaði það. Þær voru alls ekki þannig hugsaðar eða fram settar, heldur sem tvennskonar stofnanir, er þó mættu hvorartveggja heita sveitabankar, en hefðu aðgreind verkefni.

Ég fellst einnig mjög vel á það hjá hv. n., að hún leyfir bústofnslánafélögum að skipta alveg milliliðalaust við Landbúnaðarbankann, því að satt að segja hefir mér alltaf þótt það dálítið undarlegt, að þyrfti þessar mörgu milliliðastofnanir, sem frv. hugsar sér um rekstrarlánin, og ég vona, þegar reynsla kemur um þetta, að lánafélög eins og þessi geti skipt milliliðalaust við Búnaðarbankann, að það geti orðið samkomulag um það að fella niður þessa milliliði um rekstrarlán. — En þótt ég mæli þetta, er það ekki af því, að ég hugsi til að gera nokkrar till. til breyt. að þessu sinni, en vildi aðeins vekja athygli á þessu.

Þá vil ég einnig vekja athygli á því, að mér finnst hv. n. krefjast óþarflega mikilla trygginga fyrir bústofnslánum, þar sem fyrst og fremst er ætlazt til að félagsmenn séu allir í sameiginlegri ábyrgð og lánin þá til stutts tíma. Það virðist vera nokkuð mikil trygging, ef tryggt er með lausafé, og að þá þurfi það að vera helmingi hærra að verði, eftir verðlagsskrárverði, heldur en lánið er, og svo þurfi að hafa baktryggingu þar að auki. Slík trygging myndi í flestum tilfelllum verða sveitarábyrgð, því að búast má við, að allur fjöldinn af þeim, sem þurfa þessara lána, hafi ekki fasteignir til tryggingar, og þá kæmist það upp í venju, að sveitarfélögin þyrftu alltaf að ábyrgjast bústofnslán.

Ef í upphafi væri sett lausafjárveð, helmingi hærri að virðing en lánið er, og lánið afborgast svo á tíu árum, þá er þetta mjög mikið veð, þegar búið væri t. d. að afborga í 3–4 ár.

Ég segi þetta ekki af því, að ég vilji ganga nokkuð ótryggilega frá þessum lánum fyrir fram, en ég tel þetta aðeins vera óskynsamlega mikið og gæti vel orðið til þess; að menn fengju ekki þau lán, sem þeir þyrftu og væri óhætt að lána þeim.