18.03.1930
Neðri deild: 56. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1221 í B-deild Alþingistíðinda. (1047)

5. mál, sveitabankar

Frsm. (Þorleifur Jónsson):

Hv. 2. þm. Árn. talaði nokkuð um brtt. þá, sem fyrir liggur, um það, að undanskilja ákvæði 83. gr. skiptalaganna, þegar rætt væri um veðhæfi þessara stofnana.

Ég hefi eiginlega ekki öðru til að svara en því, sem áður hefir verið svarað fyrir n. hönd, að þetta er sett með tilliti til þess, að stj. Búnaðarbankans myndi verða mjög treg að lána gegn lausafjárveði, ef þessi ákvæði verða felld niður, og svo má geta þess, að n. vonar, að þetta muni ekki þurfa að verða neinni stofnun til skaða, því að viðvíkjandi fé ómyndugra er það að segja, að ekki er almennt, að menn í sveitum hafi mikið af því, nema þá þeir, sem geta sett eitthvert veð fyrir því. Ég held, að það hafi sjaldan komið fyrir, að slíkt hafi tapazt til sveita. En ég sé ekki ástæðu til að vera að þrátta um þetta; ég álít rétt, að hv. d. skeri úr um það, og mun þá verða að sæta því, sem henni þykir rétt vera í þessu máli.

En út af því, sem hv. 1. þm. N.-M. sagði, er það, að ég vildi gera örlitla aths. Það getur vel verið að ég hafi komizt eitthvað klaufalega að orði, ef hv. þm. hefir fundið einhverja áreitni viðvíkjandi brtt. hans. En það var alls ekki. Hv. þm. sagði, að ég hefði sagt, að þetta væri tvinnað saman við sveitabankana. Ég held, að ekki sé hægt að neita því, að það hafi samkv. till. hans átt að vera sama stofnun, sem annaðist bæði lánin. (HStef: Nei, nei). Ef það er ekki, þá skal ég falla frá því, enda er það heldur ekki það atriði, sem um þarf að þrátta.

Þá sagði hv. þm., að n. ætlaðist til nokkuð mikilla trygginga, og því er ekki að neita, að n. sjálfri virðist þetta nokkuð hörð ákvæði, en hún sá sér ekki annað fært en að fylgja þeim ákvæðum, sem eru í lögum bankans um bústofnslánadeildir, og þessi ákvæði okkar eru alveg sniðin eftir 45. gr. laga um Búnaðarbanka Íslands; þar stendur einmitt — með leyfi hæstv. forseta:

„Lán deildarinnar skulu jafnan tryggð með 1. veðrétti í búfé lántakanda og mega ekki hærri vera en helmingur verðs hins veðsetta búfjár eftir verðlagskrá“.

Þessi ákvæði og önnur, um að ekki megi veita lán nema með þeim skilyrðum, sem þar segir, eru alveg tekin upp úr fyrirmælum í lögum um bústofnslánadeildir, og á meðan þetta er í lögum, getur hver deild heimtað þetta af þeim, sem við hana skipta. Ég held, að það verði ekki komizt hjá því að setja þessi ákvæði inn, úr því að þau standa í l. um Búnaðarbankann. Ég skal játa, að þetta geta verið nokkuð hörð ákvæði, einkum þegar búið er að borga nokkuð mikið af láninu, þá er þetta gríðarmikil trygging fyrir því, sem eftir stendur. En n. þótti ekki fært að breyta þessu, og við hugðum, að stj. Búnaðarbankans myndi ekki hafa gengið inn á annað.