30.01.1930
Neðri deild: 9. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 595 í C-deild Alþingistíðinda. (1062)

30. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Sveinn Ólafsson:

Á undanförnum tveimur þingum hefir þetta mál legið fyrir í frumvarpsformi, og þar áður í tillöguformi um, að það yrði undirbúið og rannsakað.

Þennan undirbúning fékk það hjá stjórnskipaðri nefnd árið 1927, en þó er það ekki komið í það horf, sem ætla mætti og æskilegt hefði verið; má því segja, að langur sé orðinn á því ómagahálsinn.

Á síðasta þingi, þegar það var fyrirsjáanlegt orðið, að málið myndi ekki komast í gegn, gaf hæstv. forsrh. fyrirheit um, að það skyldi borið fram á þessu þingi. Ég hefi séð frv. það í handriti, sem stj. hyggst að leggja fram, og það er að nokkru leyti samstætt þessu frv., en er þó í nokkrum verulegum atriðum frábrugðið.

Ég verð að segja það, að mér þótti að mörgu leyti lakara, að þetta frv. skyldi vera borið fram áður en stjfrv. birtist, en með því að ég veit um einlægan áhuga margra hv. þm. á því að bjarga þessu máli, vil ég vonast til, að samkomulag náist um aðalefnið, hvort sem stj. ber fram sitt sérstaka frv. eða efni þess kemur fram í brtt.

Ég þykist einnig vita, að hv. flm. þessa frv. muni eigi ófúsir til samvinnu um líka meðferð málsins og meiri hl. sjútvn. fylgdi á síðasta þingi, og þótt ég kysi heldur, að þessu frv. hefði eigi verið hleypt af stokkum jafnhliða stjfrv., þá vonast ég þó eftir, að náð verði góðum árangri.