28.03.1930
Efri deild: 63. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1225 í B-deild Alþingistíðinda. (1063)

5. mál, sveitabankar

Frsm. (Jón Jónsson):

Þetta frv. er aftur hingað komið frá Nd. og hefir tekið þar allmiklum breyt. Aðalkaflinn, kaflinn um sveitabankana, hefir ekki tekið miklum breyt., en þó nokkrum. En svo hefir verið bætt inn í frv. nýjum kafla, 2. kafla, um bústofnslánafélög. Hann gerir ráð fyrir, að menn geti stofnað og starfrækt bústofnslánafélög í sambandi við sveitabankana. Tilgangurinn er sá, að menn geti notað betur en annars væri hægt bústofnslánadeild Búnaðarbankans. Landbn. þessarar d. telur þetta út af fyrir sig ekki nema æskilegt, en hefir samt leyft sér að koma með tvær brtt. við frv., á þskj. 358. Fyrri brtt. er við 7. gr. frv., sem var breytt allmikið í Nd. Breyt. þær, sem Nd. gerði við þá gr., voru aðallega í því fólgnar, að meðlimir sveitibankafélaganna skyldu vera skuldlausir á ákveðnum gjalddaga einu sinni á ári, eða m. ö. o., að þann dag skyldi sveitabankinn ekkert eiga útistandandi, en ef menn sýndu vanskil, þá skyldi þeim vikið úr félaginu, en þó mætti félagsstjórnin veita undanþágu frá þessu ákvæði, ef sérstaklega stæði á.

Meiri hl. n. í þessari deild þótti óheppilegt að hafa gjalddaga þannig á einhverjum ákveðnum degi. Það getur staðið misjafnt á fyrir mönnum, hvenær þeir þurfa helzt að fá lán og hvenær þeir eiga hægast með að greiða skuldir sínar. Þess vegna er óheppilegt, að öll lán skuli eiga að greiða á einum og sama degi. Þessu vill n. breyta. Það er engin ástæða að víkja frá venjum samvinnufélaga um, að aðalfundur félaganna úrskurði brottrekstur. N. álítur, að þessu ákvæði, eins og það er í frv. nú, megi mjög misbeita. Eftir till. Nd. átti brottrekstur að vera aðalreglan, aðeins undanþágur í einstöku tilfelli. Meiri hl. vill ekki hætta á að hafa þetta ákvæði í lögunum, vegna þess, hve mikið hægt væri að misnota það. Þess vegna flytur hann brtt., sem miðar að því að færa gr. í sama horf og áður var. Það er ekki svo að skilja, að við viljum ekki fallast á, að lána megi til lengri tíma en eins árs, en eins og gr. er orðuð, getur það falizt í henni.

Þá er 2. brtt., við 20. gr. í II, kafla frv., sem er um bústofnslánafélögin. Í 2. málsgr. stendur svo, með leyfi hæstv. forseta: „Lán félagsmanna skulu jafnan tryggð með 1. veðrétti í búfé lántakenda og mega ekki hærri vera, en helmingur hins veðsetta búfjár eftir verðlagsskrá. Sé veðið í öðru búfé en kúm, setji félagsmaður auk þess hreppsábyrgð, handveð eða fasteignaveð sem viðbótartryggingu“.

Þetta álítur meiri hl. of hörð skilyrði fyrir því, að félagsmaður geti fengið lán. Þessi ákvæði eru harðari en hliðstæð ákvæði í búnaðarbankalögunum. Þar er það ekki heimtað, að setja skuli fasteignatryggingu auk búfjárveðs, heldur aðeins einhverja þá tryggingu, sem stj. Búnaðarbankans tekur gilda. Meiri hl. vill breyta 20. gr. í svipað horf og þetta ákvæði er. Hann sá, að fátækir bændur mundu oft enga tryggingu hafa að bjóða nema lausafé og ekki víst, að þeir gætu fengið ábyrgð hreppsfélagsins og þar að auki óheppilegt, að sveitafélögin væru að vasast í slíku. Félagsstj. verður að meta í hverju einstöku tilfelli, hvort óhætt sé að veita þeim lán, sem um það biður. Fátækir bændur hafa sjaldan fasteignaveð eða handveð; því vill meiri hl., að stj. bústofnslánafélagsins ráði slíkum lánum og meti, hvort trygging sú, sem lántakandi hefir að bjóða, skuli tekin gild. Það þýðir ekkert að setja svona lánsstofnanir á fót, ef á að ganga svo frá þeim, að þeir, sem helzt þyrftu að fá þar lán, gætu ekki fengið þau, en það eru einmitt fátækari bændurnir, en eins og gr. er í frv. nú, er það ekki hægt fyrir þá.

Ég vona, að deildin geti fallizt á þessar brtt. Ég sé ekki ástæðu til að minnast á brtt. þá, sem einn hv. þdm. hefir borið hér fram, fyrr en hann hefir sjálfur gert grein fyrir henni.