28.03.1930
Efri deild: 63. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1227 í B-deild Alþingistíðinda. (1065)

5. mál, sveitabankar

Jónas Kristjánsson:

Ég var ekki fyllilega sammála meðnm. mínum um brtt. á þskj. 358. Ég álít, að með þeim sé fyrst og fremst opnuð leið til að framlengja lán lengur en meiningin ætti að vera með þessu frv., og í öðru lagi séu þær til að draga úr því veði, sem sett er fyrir lánum. Í fyrri brtt. er sagt, að lán skuli venjulega ekki framlengd lengur en svo, að lánstíminn verði eitt ár, en í frv. er ákveðið, að þau skuli venjulega ekki framlengd lengur en svo, að þau séu að fullu greidd á gjalddaga þeim, sem ákveðinn er í samþykktum félagsins. Með þessari undanþágu, sem þarna er gerð, er að mínu áliti að óþörfu opnuð leið til dráttar á greiðslu og byrjandi vanskilum, sem mér finnst ætti að forðast.

Ég hygg, að er þessar brtt. verða samþ. sé stigið óheppilegt spor, sem getur orðið til þess, að menn standa ekki í skilum, sem verður að telja nauðsynlegt. Menn eiga að taka lánin með þeirri forsjálni, að þeir verði að standa skil á þeim á réttum gjalddaga. Það þarf oft lítið til að opna leið til skuldasöfnunar.

Það var ekki heldur ætlazt til þess, að menn kæmist í skuldir við kaupfélögin, en samt hefir sú raun orðið á, og það miklu meira en þörf er á. Skuldirnar, þegar þær eru orðnar miklar, valda ekki einungis erfiðleikum á greiðslu, heldur gera þær menn einnig kærulausa um eiginn hag og afkomu. Ég hefi átt tal um þetta við einn af bankastjórum Búnaðarbankans, og hann taldi þessa breytingu, sem hv. meiri hl. vill gera á 7. gr., mjög óheppilega.

Hv. meiri hl. vill fella það úr frv., að félagsstjórn hafi leyfi til að víkja manni úr félaginu fyrir vanskil. Ég er ekki hræddur um, að þessu yrði beitt við aðra en þá, sem gert hafa sig bera að vanskilum um þörf fram og kæra sig ekki um að standa í skilum. Ef sérstaklega stendur á, má gera undantekningu frá brottrekstri. Menn verða ekki reknir úr félaginu nema fyrir ber vanskil. Það er því bæði ástæðulaust og óheppilegt að fara að breyta 7. gr. frv. Ég legg því til, að fyrri brtt. á þskj. 358 verði ekki samþ.