28.03.1930
Efri deild: 63. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1231 í B-deild Alþingistíðinda. (1068)

5. mál, sveitabankar

Jón Þorláksson:

Mér finnst leiðinlegt, að upp hefir komið ósamkomulag um brtt. á þskj. 358, því sumt, sem menn greinir á um þar, er þess eðlis, að enginn ágreiningur ætti að þurfa að vera um það. Ég hefi það sérstaklega á móti fyrri brtt. n., að það er ótækt ákvæði að ekki megi veita lán til lengri tíma en 6 mánaða. Það ákvæði á aðeins við um víxillán og er alveg eðlilegt hvað þau snertir. En í síðari málsgr. brtt. er gert ráð fyrir því líka, að lánin skuli veitt gegn skuldabréfum og í reikningslánsviðskiptum. En það er alveg óvenjulegt um slík lán, að þau séu veitt með sama gjaldfresti og víxillán. Ég veit ekki, hvort heldur hugsað er, að þessi lán séu greidd upp að fullu eftir 6 mánuði, eða að þau séu endurnýjuð tvisvar á ári. Ég held, að þetta stafi af ónógri athugun á hreinum bankatekniskum atriðum. Í frvgr. er þetta hugsað á alveg eðlilegan og venjulegan hátt, þannig, að víxillánin veitist til 6 mánaða, en reikningslánin til eins árs. En það er hætt við því, að ákvæði eins og í brtt. leiði til þess, að trassað verði formið á þessum lánum. Endurnýjun slíkra lána á miðju starfsári leiðir af sér óþægindi og kostnað, þar sem stimpla verður þau skjöl að nýju, sem stimpilgjaldslögin komast að. Ég get hugsað mér, að starfsemin lendi fremur í klúðri, ef þetta verður samþ. Og ég finn enga skynsamlega ástæðu til að koma fram með þetta.

Hitt atriðið, hvernig koma á fram gagnvart vanskilamönnum, er frekar tilfinningamál. Ég fyrir mitt leyti legg nú ekki svo sérstaklega mikla áherzlu á það, að ákvæði laganna verði ströng um þetta. Ég hygg, að vel verði upp á það passað í félögunum og að vanskilamenn fái varla að vera áfram í félagsskapnum. Þótt ekkert væri um þetta í lögunum, verður þó alltaf álitin heimild til að víkja þeim úr félagsskap, sem ekki standa við skuldbindingar sínar. Mér finnst því ómögulegt annað en greiða atkv. móti fyrri brtt. á þskj. 358 og ráða hv. d. til að vera á móti henni af þessum ástæðum.

Brtt. við 20. gr. skiptir ekki miklu máli. En mér hefði fundizt eðlilegast og réttast að taka upp í hana orðrétt ákvæði búnaðarbankalaganna. En ég get gengið inn á það, að eftir 20. gr. frv. er þetta orðað fullstrangt.

Um fyrirsögn frv. skiptir ekki miklu máli. En mér finnst þó, þar sem það hefir tvo alveg hliðstæða kafla í lögunum, dálítið hjákátlegt að láta heiti laganna aðeins minna á annan kaflann.