30.01.1930
Neðri deild: 9. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 597 í C-deild Alþingistíðinda. (1071)

30. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Flm. (Jóhann Jósefsson):

Hv. 4. þm. Reykv. gaf mér heilræði, sem náttúrlega er ekki nema rétt að taka vel upp fyrir honum, en það reyndist nú svo hjá honum sjálfum, er hann fór að tala um málið, að hægara er að gefa heilræðin en halda þau, og ég hefði sízt búizt við því af þeim hv. þm., að hann ásakaði mig fyrir að segja það, sem áður kann að hafa verið sagt hér á þingi.

Hv. þm. áfelldist mig fyrir það, að í frv. er ætlazt til, að veðréttur Fiskiveiðasjóðs gangi fyrir öðrum veðréttum, og vitnaði í því sambandi til fundasamþykkta, sem gerðar hafa verið í Vestmannaeyjum. Ég vil því segja hv. þm. það, að í hverju máli álít ég sjálfsagt að fylgja því, sem mér virðist sannast og réttast, og ég get því aðeins tekið tillit til vilja kjósenda minna, að það brjóti ekki í bága við heill alþjóðar. Sannleikurinn er nú raunar sá, að hér er alls ekki um afnám sjóveðs að ræða á þann hátt, sem hann leggur það út. Það er vitanlegt, að hér er enganveginn verið að ganga á rétt sjómanna, heldur er verið að létta undir með smábátaútveginum, og það af brýnni nauðsyn, sem allir hafa rekið sig á.

Fiskiveiðasjóður lánar ekki nokkrum manni út á veð í sjálfum bátnum, heldur er farið eftir þeim fasteignum, sem menn geta boðið að veði fyrir láninu. Þetta ástand er svo alvarlegt, að því verður ekki unað, og því dirfist ég að leggja það til, að veðréttur Fiskiveiðasjóðs verði látinn ganga fyrir öðrum veðréttum, þótt það kunni að afla mér óvildar hjá þeim mönnum, sem hafa ekki gert sér ljóst, hve ástandið er alvarlegt.

Hv. 1. þm. S.-M. vildi ég þakka fyrir þann áhuga, sem ég veit, að er nú eins og áður hjá honum í þessu máli. Hann vildi, að við hefðum dregið að koma fram með þetta frv. þangað til stj. hefði lagt sinn skerf til málanna. Ég vissi um fyrirheit hæstv. stj., en það er eins með mig og hv. 4. þm. Reykv., að mér var ókunnugt um frv. stj. og yfirleitt fyrirætlanir hennar í þessu máli. Því einkennilegra þótti mér þetta, sem stj. hefir lagt fram allmörg frv. um áhugamál sín, en ekkert hefir hún látið frá sér fara um þetta efni. Þess vegna virðist mér, að við flm. þessa frv. séum ekki ámælisverðir fyrir það, að við höldum fast við áhugamál okkar og viljum láta það komast í höfn sem fyrst. Hitt er auðvitað sjálfsagt, að sameina krafta sína í þessu máli, ef viðunanleg leið fyrir stj. og einstaklinga finnst í því.

Hv. 1. þm. S.-M. sagðist hafa átt kost á að kynna sér þetta frv., en ég verð að segja, að það er hart fyrir þm., sem kemur frá sjávarútvegshéraði, að hafa ekki einu sinni fengið bendingar um, hvað hæstv. stj. hyggðist fyrir í þessu þýðingarmikla máli fyrir þessa atvinnugrein. Fari till. hæstv. stj. í svipaða átt og við flm. leggjum til í þessu frv., séu lánskjörin lík og engin ný kvöð lögð á þennan margíþyngda atvinnuveg, get ég lofað samvinnu frá minni hendi, en öðru get ég ekki lýst yfir að svo komnu máli.

Ef frv. stj. fullnægir ekki þessum skilyrðum, er ósennilegt, að samvinna takist, því að hún getur tæplega orðið á öðrum grundvelli en þeim, sem ég hefi nefnt.