04.04.1930
Neðri deild: 71. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1233 í B-deild Alþingistíðinda. (1079)

5. mál, sveitabankar

Frsm. (Þorleifur Jónsson):

Þetta frv. hefir tekið dálitlum. breyt. frá því það fór héðan. Hefir hv. Ed. breytt því í tveimur atriðum. Aðalbreyt. er við 7. gr., að felldar hafa verið burt tvær síðustu málsgr., sem hér voru samþ. í þessari hv. d. Þær greinar kváðu svo á, að hver félagsmaður skyldi vera skuldlaus við félagið a. m. k. einu sinni á ári, en vera rækur að öðrum kosti, og að svipta mætti það félag rekstrarláni, sem ekki stæði í skilum. Þessi ákvæði voru til öryggis og sett inn í frv. samkv. till. landbn. hér í Nd. N. álítur það mjög óviturlegt af hv. Ed. að fella þessi ákvæði burt úr frv., því að með þeim er numin burt úr því aðaltryggingin til að varna skuldasöfnun frá ári til árs. En á hinn bóginn ber að athuga það, að nú er orðið svo áliðið þings, að málinu er hætta búin, ef farið verður að breyta frv. enn. Treystir n. sér því ekki til þess að leggja það til.

Önnur breytingin, sem hv. Ed. hefir gert á frv., er við 20. gr., og er að mínu áliti ekki eins þýðingarmikil og hin fyrri. Er það lagt á vald hlutaðeigandi stjórnar bústofnslánafélags, hverjar tryggingar aðrar en fasteignir hún tekur gildar fyrir lánum.

Að lokum hefir hv. Ed. breytt nafni frv. og fært það í upprunalegt horf, og mun mega telja þá breytingu litlu máli skipta.

Þótt n. virðist breyt. hv. Ed. á 7. gr. vera fremur til spillis, þá vill hún þó ekki stofna málinu í voða með því að bera fram brtt. við frv. Leggur n. því til, að frv. verði samþ. óbreytt, svo að þetta mál megi nú ná afgreiðslu á þessu þingi.

Vil ég svo ekki fara fleirum orðum um þetta að sinni, en vænti þess, að deildin samþ. frv., eftir atvikum, eins og það er komið frá hv. Ed.