20.02.1930
Efri deild: 30. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1239 í B-deild Alþingistíðinda. (1088)

14. mál, Menntaskólinn á Akureyri

Jón Þorláksson:

Ég bjóst ekki við að þurfa að taka til máls um þennan skóla, því að það var alveg fullt samkomulag í n. um breytingar við frv., og það ekki aðeins milli nm. sjálfra, heldur líka hæstv. kennslumálaráðh., sem mætti á nefndarfundum og tók þar þátt í umr. um höfuðbrtt, og taldi sig þeim samþykkan, þar á meðal tveim brtt., sem standa í sambandi hvor við aðra. Það er 1. brtt., við 2. gr., að taka það upp, sem ekki stóð í stjfrv., að tilgangur skólans sé m. a. að gera nemendur sína hæfa til að stunda nám við háskóla og aðrar æðri menntastofnanir. Í frv. stj. stóð einungis: að búa nemendur undir athafnalíf bæði í andlegum og verklegum efnum. Í sambandi við þetta var latínan ekki tekin upp sem skyldunámsgrein í stjfrv., en ráðh. lét svo um mælt, að hann hefði eiginlega frekar sleppt að setja þetta í frv. til þess að fá það undir umr., heldur en að hann óskaði því haldið fram, að kennslu í þessari námsgrein væri sleppt við skólann á Akureyri, og hann féllst á það að bæta þessu hvorutveggja inn í frv., í 2. gr., orðunum um að gera nemendur hæfa til að stunda nám við háskóla og aðrar æðri menntastofnanir, og þar af leiðandi latínunámi við skólann, því að ráðh. bjóst við, að það mundi gera stúdentum frá Akureyri erfiðara um inngöngu í margar háskóladeildir, ef þeir hefðu ekki notið kennslu í latínu, og er þetta alveg rétt. En svo er nú ástatt við þann skóla, að þeir eiga í hálfgerðu basli með kennslukrafta, og svo hringdi skólameistari upp til mín og fór að biðja um ýmsar breyt., og þar þykir mér hv. frsm. n. hafa verið helzti fljótur á sér að bera fram brtt. um að fella niður latínukennsluna, eftir að hafa skrifað undir nál., án þess að bera sig saman við meðnm., sína. Það getur vel verið, að burtfelling latínunáms verði stúdentum ekki eins mikil hindrun og nú lítur út fyrir, en það er þó svo, að í fjölda háskólanámsgreina er heimtað í öllum háskólum, sem ég þekki til, að stúdentar hafi undirbúningsþekkingu í latínu, og það hefir jafnvel verið farið svo langt, að þeir, sem ekki hafa meiri latínukennslu heldur en nú er í stærðfræðideild lærðu skólanna í Danmörku, verða að bæta við sig til þess að geta fengið upptöku í sumar deildir háskólans í Kaupmannahöfn. Ég held, að það sé bezt að hafa þetta hreint, annaðhvort eins og var í stjfrv., þar sem skólanum er ekki ætlað að búa nemendur sína undir háskólanám, og þá að hafa ekki latínu, eða þá að hafa þetta eins og n. leggur til. En þó má náttúrlega gera miðlun, sem ekki bindur hendur manna í framtíðinni of mikið, t. d. með því að taka upp aftan við þessa 4. gr., sem telur upp kennslugreinar við .Akureyrarskólann, samhljóða ákvæði og eru í lögunum um Reykjavíkurskólann.

Ég hygg, að þetta mál sé ekki nægilega athugað og vil skora á hv. flm. brtt. á þskj. 149 að taka þær aftur til 3. umr., svo að hægt sé að athuga þær betur, því að ég er alls ekki viss um, að það gefi stúdentum frá Akureyri nægilegan stimpil, þótt þeir stundi þar nám, og að þeir nemendur, sem þess hafa óskað, geti fengið kennslu í latínu, og hinsvegar er ég sannfærður um, að það er mjög óheppilegt að einskorða latínukennsluna við það, að frönskukennslan verði minnkuð, því að þeir, sem sérstaklega óska að læra latínu, gera það máske flestir vegna þess, að þeir vilja njóta latínukunnáttu við nám í öðrum tungumálum, og þá er franska næst, og því vafasamt, hvort rétt er að draga af þeim frönskukennslu í staðinn fyrir latínuna.

Ég læt þetta nægja. Fyrri brtt. skal ég ekki hafa neitt á móti; hún er engin efnisbreyt., ekki annað en það, að heimila að skipta einum bekk í tvær deildir, og ef húsrúm leyfir, er sjálfsagt að samþykkja það. En ég vil endurtaka það, sem ég fór fram á við hv. flm. áður, að þeir taki aftur brtt. sínar til 3. umr., svo að hægt sé að athuga þær.