24.02.1930
Efri deild: 33. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1247 í B-deild Alþingistíðinda. (1098)

14. mál, Menntaskólinn á Akureyri

Jón Jónason:

Ég hefi ekki séð mér fært að halda til streitu till., sem ég flutti ásamt hv. þm. Ak. við 2. umr. málsins, um að latína væri ekki skyldunámsgrein í Akureyrarskólanum, af því að mér virtist hún hafa of lítið fylgi í deildinni. En það var alls ekki af því, að ég hafi breytt skoðun um, að það sé mjög óheppilegt, að þess sé hvergi kostur hér á landi að fá fullan undirbúning undir háskólanám án þess að hafa lært latínu. Ég tel þeim tíma illa varið, sem til hennar fer, hjá flestum nemendum a. m. k. Ég sé ekki, að okkar háskóla sé vandara um en öðrum að taka við mönnum til háskólanáms ólatínulærðum. Því tel ég það miður farið, að hún verði skyldunámsgrein. En eina brtt. hefir hv. menntmn. flutt, þar sem lagt er til að heimila kennslumálaráðuneytinu að fjölga eða fækka námsgreinum. Þá er ekki ómögulegt, að þetta mundi verða tekið upp, og latínan yrði að víkja.

Ég hefi aftur leyft mér að flytja eina örlitla brtt. við frv. Það er svo ákveðið í 9. gr., að það skuli alltaf vera inntökuskilyrði í skólann, að unglingar verði a. m. k. 16 ára það ár, sem þeir ganga inn í 1. bekk. Þetta tel ég fullhart að orði kveðið. Í raun og veru er heppilegt, að þetta sé aðalreglan, en í einstökum tilfellum finnst mér réttmætt að veita undanþágu, ef menn eru sérstaklega þroskaðir. Í Reykjavík á aðalreglan að gilda um 15 ár, en þó má kennslumálaráðuneytið veita undanþágu, ef þroski er nægur, allt niður að 14 ára aldri. Ég vil, að þetta sé fært til samræmis um Akureyrarskólann.