20.03.1930
Neðri deild: 58. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 274 í B-deild Alþingistíðinda. (110)

1. mál, fjárlög 1931

Pétur Ottesen:

Ég á eina brtt. á þskj. 319, um fjárveitingu til útvarpsins, sem er nýr liður. Brtt. mín fer hvorki fram á hækkun né lækkun, heldur að skipta einum lið í tvo liði, þannig að laun útvarpsstjóra séu sérstakur liður, en eigi undir sama lið og útvarpsráð og útvarpsefni. Verða þá launin sérstakur liður, alveg á sama hátt og hjá vitamálastjóra og vegamálastjóra.

Eftir upplýsingum, sem landssímastjóri hefir gefið, og hæstv. atvmrh. hefir síðar staðfest, eiga laun útvarpsstjóra að vera 9.300 kr. á ári. Þetta eru mikil laun Þau eru 1.500 kr. hærri en laun vitamála- og vegamálastjóra. Þessi háu laun hafa orðið til þess, að ýmsir aðrir starfsmenn hins opinbera hafa orðið óánægðir, og má búast við, að þetta dragi þann dilk á eftir sér, að hækka verði laun þeirra. Við höfum þó ekki borið fram neina till. um að lækka laun útvarpsstjórans, af því að við töldum það þýðingarlaust. Till. hljóðar aðeins um það, að taka launin út úr og lækka hinn liðinn að sama skapi.