31.03.1930
Neðri deild: 67. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1251 í B-deild Alþingistíðinda. (1108)

14. mál, Menntaskólinn á Akureyri

Frsm. minni hl. (Magnús Jónsson):

* Það er nú öllum hv. þm. kunnugt, að ég hefi verið andvígur þessu menntaskólamáli á Akureyri, og ég verð að segja, að mín skoðun á því er almennt óbreytt ennþá. Mér hefir alltaf fundizt, að eins og okkar skólamálum er nú komið, sé það æðihart að vanrækja að setja upp og fjölga skólum, sem aðkallandi nauðsyn er að fá, en vera jafnframt að seilast eftir því að setja upp skóla, sem engin þörf er á og er jafnvel verra en ekkert að fá. Það vantar gagnfræðaskóla fyrir Reykjavík, þarf að fjölga héraðsskólum, háskólann vantar hús. Í skólamálunum eru ótæmandi verkefni. Það er aðeins eitt, sem er of mikið af, það er stúdentaframleiðsla.

Menn hafa ekki efni á því að leggja á sig langt nám til stúdentsprófs nema þeir ætli sér að stunda háskólanám á eftir. Hví er þá verið að ganga framhjá gagnfræðaskólunum, en stofna menntaskóla norður á Akureyri eftir kröfum manna þar?

Það hefir reyndar verið settur upp menntaskóli á Akureyri í laga- og heimildarleysi. En á hinn bóginn stendur nú svo á, að þessi skóli, sem talinn er sami skóli og Möðruvallaskólinn gamli, á nú 50 ára afmæli. Það væri því ekki nema fallega gert að leyfa honum hér eftir að starfa á lagalegum grundvelli fyrst hann hingað til hefir starfað í heimildarleysi. Þess vegna hefi ég ekki viljað setja mig á móti því, að þetta frv. verði samþ. Hinsvegar finnst mér langt gengið, að um leið og Akureyri fær 6 ára skóla, sé gamli menntaskólinn styttur í 4 ára skóla. Þótt menn vilji gera allt fyrir Norðlendinga — og ég sem gamall Norðlendingur geti verið því hlynntur —, finnst mér þeir vel geti fengið 6 ára skóla, þótt skólinn hér í Reykjavík sé ekki styttur um leið. Ég þykist reyndar vita, að meðmælendur þessa frv., og þá sérstaklega hæstv. kennslumálaráðh., muni svara því, að á báðum stöðunum séu 4 ára menntaskólar. Og þótt í þessu frv., um Menntaskóla á Akureyri, sé gert ráð fyrir gagnfræðadeild, eigi hún í raun og veru að vera óháð menntaskólanum. Þetta sé aðeins gert til að nota húsrúmið fyrir alþýðuskóla Eyjafjarðar meðan það er nóg.

Við þetta er ekkert að athuga. Hefir svipuð tilraun verið gerð við Menntaskólann hér í Reykjavík, þar sem honum hefir verið skipt í gagnfræðadeild og menntadeild. En svo fór um það, að þeir, sem höfðu lokið námi í gagnfræðadeildinni, gátu haldið áfram námi í menntadeildinni til stúdentsprófs. Úr þessu varð því óskiptur skóli, og hefir það nú á síðustu árum færzt fullkomlega í það horf og má telja, að úr því hafi verið skorið, að það væri 6 ára óskiptur skóli, þegar hæstv. ráðh. lét loka 1. bekk skólans, svo sem kunnugt er. Það verður til þess, að ekki ganga aðrir í 1. bekk skólans en þeir, sem ætla sér að halda áfram til stúdentsprófs.

Hvað sem menn annars segja um menntaskóla á Akureyri, finnst mér það ekki þolandi, að Menntaskólinn í Reykjavík sé gerður réttminni en sá skóli. Ég hefi því borið fram nokkrar brtt., sem eru afleiðing af þessari hugsun. Ég vil láta Reykjavíkurskólann ganga undir sömu lög og skólann fyrir norðan, og ég er sannfærður um, að skólinn fyrir norðan verður 6 ára óskiptur skóli. Námið í undirbúningsdeildinni verður þá sniðið eftir því, hvað þarf til þess að ganga inn í 3. bekk skólans, og mér virðist brtt. meiri hl. gera ráð fyrir þessu. Þetta skildist mér einnig af þeim orðum, sem hv. frsm. meiri hl. mælti fyrir henni. Annars skal ég geta þess um þessa brtt., að hún mun vera fram komin eftir að ég vék úr n., og vissi ég því ekki um hana. Ef um þessa undirbúningsdeild giltu sömu lög og um gagnfræðaskóla almennt, þá væri hæpið, að hægt væri að ná þeim undirbúningi, sem þarf undir menntaskóla, en ef náminu er stjórnað af reglugerð, sem kennslumálaráðuneytið setur, þá hefir það það í hendi sér að sníða námið í l. og 2. bekk eftir náminu í menntaskólanum, og er hann þá þar með orðinn 6 ára skóli. Þess vegna fannst mér rétt að setja samskonar löggjöf um báða þessa skóla og kem þess vegna fram með þessar brtt. mínar, að í sambandi við þá séu starfræktar undirbúningsdeildir, og fari kennslan þar eftir því, sem ákveðið sé í reglugerð. Það má því bera fram frv. um báða skólana í einu, þar sem dregin eru fram sameiginleg ákvæði þeirra og síðan settur stuttur kafli um hvorn skóla fyrir sig. Þetta sýnist mér langeðlilegast.

Ég verð að segja það, að ég legg enga áherzlu á það, að þessar brtt. mínar verði samþ., en það er þó með því móti, að frv. það, sem hér liggur fyrir um Menntaskólann í Reykjavík, verði ekki tekið til meðferðar, heldur verði skólinn látinn eiga sig eins og hann er nú, 6 ára óskiptur skóli. En hefi aðeins borið þetta frv. fram til að sýna, að ég vildi annaðhvort afgreiða þessi frv. saman eða afgreiða ekki frv. um skólann í Reykjavík. Mér hefir líka heyrzt á hæstv. kennslumálaráðh., að þetta frv. um Menntaskólann í Reykjavík muni enga afgreiðslu fá.

Ég veit ekki, hvort ég á að fara að ræða almennt um málið við 2. umr., en ég vil þó minnast á það, að mér hefir alltaf virzt vaka fyrir hæstv. dómsmrh. að hafa hér engan lærðan skóla, menntaskóla. Það hefir verið gagnfræðaskóli, sem hefir orðið ofan á.

Ég hefi á hverju þingi reynt að standa á móti þessu, því mér finnst þessar 2 tegundir, menntaskóli og gagnfræðaskóli, vera svo gerólíkar, að þeir bíði — og þá sérstaklega gagnfræðaskólinn — mikið tjón af því, að samband er í milli.

Mín hugmynd um gagnfræðaskóla og slíka skóla er sú, að þeir eigi að vera með samskólasniði. Þeir verði álíka byrjendaskólar, sem gefa mönnum fagrar endurminningar og þá þekkingu, sem kemur þeim að gagni í lífinu. Ég álít, að það sé gott, að þeir læri þar fyrstu árin, sem ætla að vera lengi við nám. Fyrir þá, sem halda áfram, byrjar strangur agi og þungt nám, en þeir geta þó snúið aftur í tæka tíð, ef þeir reynast ekki færir til þess að halda áfram. Það geta þeir, ef gagnfræðadeildin er ekki í sambandi við lærdómsdeild.

Ef á að sameina gagnfræðaskóla og menntaskóla, þá yrðu 2 fyrstu bekkirnir allþungir og miðaðir við framhaldsnám. Svo tæki við 3. bekkur, sem útskrifaði gagnfræðinga. En þeir, sem ætluðu að halda áfram, yrðu að ganga undir erfitt próf, sem þeir einir gætu staðizt, sem svo þroskaðir væru, að þeir geti haldið áfram til háskólanáms. Þá mundu flestir snúa aftur, en færri halda áfram.

Ég skal svo ekki vera að ræða frekar um þetta. Ég þarf ekki að ræða um aðrar brtt. mínar. Þær eru allar afleiðing af því að ég geri ráð fyrir, að báðir skólarnir verði settir saman í eitt frv., og það, sem nú stendur aðeins um annan skólann, verði látið gilda um þá báða. Og ef 1. brtt. verður felld, mun ég taka hinar aftur.

Þá ætlast ég til þess, að það komi 2 greinar fyrir hvorn skóla, á Akureyri og í Reykjavík. Þar er skólatíminn ákveðinn nokkuð styttri á Akureyri en í Reykjavík og kennarar færri. Annars mun ég koma með brtt. við 3. umr., ef þessar brtt. mínar verða nú samþ.

Mér hefði þótt gott að fá upplýsingar um það, hvort hæstv. stj. hugsar sér að halda áfram frv. um Menntaskólann í Reykjavík. Annars treysti ég því, ef þetta frv. verður afgr.