31.03.1930
Neðri deild: 67. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1255 í B-deild Alþingistíðinda. (1109)

14. mál, Menntaskólinn á Akureyri

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Þetta mál, sem hér hefir verið til umr., hefir nú verið tvisvar hér á þingi, aðallega í hv. Ed. Það var samþ. þar í fyrra í mjög líkri mynd og það nú er í. Og þegar það nú hefir verið athugað í n., ættu að vera litlar umr. um það. En það, sem er mergurinn málsins, er það, að í Ed. voru allir 3 flokkar þingsins sammála um þetta frv. í aðalatriðunum, að varla eru dæmi til þess, að svo þýðingarmikið mál hafi verið afgr. jafneinróma sem þetta mál í fyrra og nú í vetur.

Það er þessi aðferð, sem hv. 1. þm. Reykv. var að mæla með, sem svo gott samkomulag var um í hv. Ed. að vera á móti. Hún þarf þó vitanlega ekki að vera rétt, þótt hv. Ed. sé með henni. En ég ætla að útskýra hér, hvað vakti fyrir hv. Ed., þegar hún gerði þessa breyt.

Fyrsta breyt. er sú, að það skuli vera lögbundið menntaskólanám á Akureyri. Ég vil ekki segja, að það hafi verið neinn eldmóður fyrir þessu í hv. Ed. frá hálfu íhaldsmanna, en það var látið hlutlaust eins og komið var, og ég vona, að hv. 1. þm. Reykv. geti sætt sig við þetta mál.

En það, sem bezt var samkomulag um í hv. Ed., var það, að aðskilja gagnfræðaskólanám og menntaskólanám, og að því leyti er ég í raun og veru samþykkur hv. 1. þm. Reykv., eins og hann getur séð af afskiptum mínum af máli þessu, þó nokkur kunni að vera skoðanamunur. Hv. 1. þm. Reykv. og nokkrir aðrir hv. þm. í þessari deild líta svo á, að það sé bezt að hafa 2 menntaskóla, sem væru í raun og veru óskiptir 6 ára menntaskólar. Og skoðanamunurinn er um þessa skiptingu.

Það, sem skiptir máli fyrir till. hv. 1. þm. Reykv., er það, hvort Nd. vill hallast að því, að menntaskólinn skuli vera 4 vetur og mönnum sé gert mögulegt að komast inn í 1. bekk frá öllum stöðum landsins, eða hvort það eigi að vera 2 menntaskólar og menn séu 12—13 ára þegar þeir fara í 1. bekk á Akureyri.

Ég skal útskýra mína skoðun. Ég álít það, eins og hv. 1. þm. Reykv., óheppilegt fyrirkomulag, sem tekið var upp 1903, þegar tekinn var upp gagnfræðaskóli, sem átti að vera almennur skóli og byggja ofan á hann þriggja ára menntaskóla. Þetta var ekki aðeins óheppilegt fyrir Menntaskólann, heldur var það óheppilegt fyrir Norðlendinga, því þessi tegund náms er ekki heppileg fyrir þá, sem verða að hætta við gagnfræðapróf. Það er of mikið bóknám, en of lítið praktískt nám fyrir daglega lífið.

Ég veit um eina konu, sem var í Akureyrarskóla. Hún var mest gefin fyrir bókmenntir. Hún fékk lítið í stærðfræði, því hún var óhneigð fyrir þá námsgrein, en í henni virðast vera gerðar töluvert miklar kröfur á Akureyri, a. m. k. meiri en gerðar eru við alþýðuskóla. Hún gat því ekki lokið námi í skólanum þar. Hún passaði ekki í umgerðina.

Hér í Reykjavík var þetta framkvæmt þannig, að efri hluti skólans, 3 síðustu bekkirnir, voru hlaðnir ofan á gagnfræðadeildina. Þeir, sem byrjuðu ungir nám hér í Reykjavík, héldu svo áfram til stúdentsprófs og dálítil viðbót, sem kom norðan af Akureyri.

Við þetta fékk viss hluti af Reykvíkingum óeðlilega mikinn aðgang að háskólanum. Af hverjum 100 nemendum í Reykjavíkurskóla voru 10 úr sveitum, 11 úr kaupstöðum og kauptúnum utan Rvíkur, og 79% úr Reykjavíkurbæ. Tiltölulega lítill hluti af þessum 79% var frá hinum fátækari stéttum höfuðstaðarins, en langmestur hluti frá hinum helmingi bæjarbúa, sem eru efnaðir. Og þó hefir þeim fátækari alls ekki verið meinaður aðgangur að skólanum. En nemendur frá efnaða fólkinu komast alstaðar inn í skólana á undan hinum. Þetta er því samt sem áður ekki réttlátt, og þó að ekki sé hægt að búast við, að það verði algerlega réttlátt, þannig að af 100 nemendum í menntaskólanum verði jafnmargir t. d. úr Norður-Þingeyjarsýslu, miðað við fólksfjölda þar, eins og frá sömu íbúatölu í Reykjavík, þá verður að reyna að koma jafnvægi á sóknina að skólanum. Reykjavíkurbúar hafa alltaf meiri not af skólanum en aðrir landshlutar, en það er ekki unandi við, að þeir sitji nær því eingöngu fyrir öðrum. Á þessum forsendum er þetta frv. byggt, að gagnfræðadeildin í Reykjavík sé skilin frá Menntaskólanum, og aðalástæðan fyrir því er sú, að hér í bænum er svo mikil þörf fyrir alþýðufræðslu og engin tök á að láta hana fara fram í Menntaskólanum sökum rúmleysis. Hér í bænum eru fermd ca. 400 börn á hverju ári. Þess vegna er æskilegt að hafa hér almennan gagnfræðaskóla, sem miðaður er við þarfir fjöldans, og sérstaklega sniðinn handa þeim nemendum, sem ekki hugsa sér lengra skólanám. — Í alþýðuskóla, sem tæki á móti 150 nýjum nemendum árlega í Reykjavík, kynnu sumir að vilja halda áfram, og mundu þeir, sem færari eru, þá geta fengið sér aukakennslu til þess að geta keppt um upptöku í 1. bekk Menntaskólans. Ég hugsa mér, að þetta verði eins úti um land við héraðsskólana og kaupstaðaskólana. Nú eru héraðsskólarnir 5—6 og bráðlega bætist einn nýr skóli við þá tölu. Ennfremur hefir nú verið samþ. frv. í Ed., sem gerir ráð fyrir 6—7 alþýðuskólum í kaupstöðunum, og má vænta, að það verði einnig samþ. hér í Nd. Ef þetta verður að lögum, þá er búið að gerbreyta því skipulagi, sem hingað til hefir verið á gagnfræðamenntuninni í landinu. Áður áttu menn kost á gagnfræðanámi aðeins í þremur fyrstu bekkjum Menntaskólans í Rvík og í gagnfræðaskólanum á Akureyri, og í Flensborgarskóla eftir að honum var breytt úr 2 deildum í þriggja ára skóla. Ég er sammála hv. 1. þm. Reykv. og fræðslumálastjóranum, að óheppilegt sé að byggja alþýðuskólana til þess að vera fyrst og fremst undirbúningströppur undir menntaskólana. En verði ég einhvers ráðandi um þetta eftir nokkur ár, þegar reynslan er búin að sýna, hvernig þetta gefst, og ef það kynni að reynast illa, þá mundi ég verða því samþykkur að stofna 6 ára óskiptan menntaskóla. — Á hinn bóginn er það að líkindum hverjum manni ljóst, að það er ekki æskilegt, að þeir, sem stunda háskólanám, væru aðallega úr 2 kaupstöðum, Reykjavík og Akureyri. Ég álít, að það eigi að búa þannig um hnútana, að greindir menn, hvaðan sem þeir eru af landinu, geti komizt í menntaskóla og til háskólanáms. En það er sú nýja brú, sem hv. 1. þm. Reykv. er mótfallinn, að nemendur, sem byrja í einhverjum kaupstaðaskóla, í Hafnarfirði, Ísafirði, Norðfirði, Vestmannaeyjum o. fl., eða í hinum 5 nýlegu héraðsskólum í sveitunum, geti, ef þeir eru greindir, prófað sig og notað þau ár með viðbótarnámi til þess að búa sig undir að stökkva inn í menntaskóla í Reykjavík eða á Akureyri. Þetta er mín stefna í málinu og ég held, að hún sé rétt.

Verði brtt. hv. 1. þm. Reykv. samþ. og lögð til grundvallar, að gera menntaskólana í Reykjavík og á Akureyri að óskiptum 6 ára skólum, þannig að nemendur verði aðeins teknir inn í 1. bekk þeirra, þá yrðu þeir aðeins sniðnir fyrir hlutaðeigandi kaupstaði. Og það er auðvitað ómögulegt fyrir mig að fylgja því, sem hefi trú á, að rétt sé að gefa greindum alþýðumönnum alstaðar af landinu tækifæri til þess að komast í menntaskóla. Það er að vísu ómögulegt fyrir mig að afsanna það, að hv. 1. þm. Reykv. hafi rétt fyrir sér. Það er reynslan ein, sem úr því getur skorið.

Ég hefi nú sýnt fram á, að það er ekki rétt að hafa nema 4 bekki í menntaskólahúsinu í Reykjavík. Samkv. till. frá hv. 3. landsk. var rýmkað til um upptöku nemenda í 4. bekk Menntaskólans, og var það gert til samkomulags við hann í Ed. Hann hélt því fram, sem líklega er rétt, að það mundu aldrei verða eins margir nemendur í stærðfræðideild eins og í máladeild, þannig, að þó að 25 nemendur kæmu árlega í máladeildina, eins og nú er heimilað, þá mundu til jafnaðar ekki koma nema 12 í stærðfræðideildina, og þá mætti bæta 13 nemendum við í máladeildina, og yrði hún þá að vera tvískipt. Þá gæti svo farið, að þessum 4 bekkjum Menntaskólans yrði skipt í 12 deildir til kennslu. Með þessu móti verður fullerfitt að koma þessum fjórum bekkjum fyrir í húsinu, þó að sumar deildirnar verði litlar, hvað þá ef bæta ætti þar fyrir neðan tveimur bekkjum tvískiptum. Það mesta rúm, sem skólahúsið leyfir, er fyrir 10—12 deildir, og verði þetta frv. að lögum, þá er ekki viðlit að koma meiru fyrir í húsinu. Þess vegna eru þeir 2 undirbúningsbekkir, sem hv. 1. þm. Reykv. vill koma þar fyrir, alveg útilokaðir.

Ég kem þá að því, hvers vegna er gert ráð fyrir öðru fyrirkomulagi við skólann á Akureyri. Að vísu hefði mér þótt það langtum betra, ef hægt hefði verið að leysa skólamálið á Akureyri á sama hátt og hér í Reykjavík, að aðgreina alþýðufræðsludeildina frá menntaskólanum og hafa hana á öðrum stað. En þessi alþýðuskóli er nú búinn að starfa á Möðruvöllum og Akureyri í 50 ár, fyrst og fremst fyrir Norður- og Austurland, og nú síðari árin aðallega fyrir Eyjafjarðarsýslu og Akureyrarkaupstað. Af því að Alþingi hefir gengið inn á það, að láta Austfirðingafjórðung fá Eiðaskólann, sem ríkið kostar að öllu leyti, þá fannst mér ekki sanngjarnt að svipta Eyfirðinga og Akureyrarkaupstað þessum gamla og merka alþýðuskóla, fyrri en aðstaðan breytist frá því, sem nú er, og þeir hafa komið skólamálum sínum í annað horf. Nú mun vera talsverð hreyfing fyrir því í Eyjafirði, að flytja alþýðuskólann frá Akureyri upp í sveit. Ég álít, að Eyfirðingar eigi að hafa sinn alþýðuskóla eins og önnur héruð, og í bili má ganga út frá því, að hann verði í sama húsinu og Menntaskólinn á Akureyri, en að öðru leyti aðskilinn frá honum. En síðar, þegar búið verður að breyta skipun þessara skóla, eiga Eyfirðingar og Akureyrarbúar ekki að hafa nein sérréttindi til undirbúningsnáms undir menntaskóla, fremur en Reykvíkingar og aðrir landsbúar, eins og hv. 1. þm. Reykv. tók réttilega fram. Það, sem kom mér til að bera þetta fram um skólann á Akureyri, var annarsvegar sú „tradition“, sem bundin er við gagnfræðaskólann nú á 50 ára afmæli hans, og hinsvegar vöntun Eyfirðing á alþýðuskóla. Auk þess er skólinn fyrir fleiri en þá á Norður- og Austurlandi.

Ég hefi þá skýrt í stuttu máli, hvað fyrir mér vakir með því að gera ráð fyrir glöggum aðskilnaði á milli alþýðuskólanna og menntaskólanna, og að þeir hvorir fyrir sig byggju nemendur undir sín ákveðnu verkefni. En hinsvegar hefi ég haft það á bak við eyrað, að á milli þeirra gæti verið sú brú, að greindir nemendur frá alþýðuskólunum þurfi ekki miklu við sig að bæta til þess að komast inn í menntaskólana. Þá myndu dugandi námsmenn, eins og t. d. hv. 1. þm. Reykv. var á sínum skólaárum, geta leikið sér að því að undirbúa sig í öðrum skólum og ná svo prófi upp í menntaskóla. Ég nefni hv. þm. sem dæmi, af því að ég á nú orðastað við hann.

Ég skal geta þess, að flestir nemendur frá alþýðuskólanum á Laugum hafa notað nám sitt til þess að búa sig undir lífið og ýmsa sérfræðiskóla, en sárfáir hafa reynt að keppa inn í Akureyrarskólann. En það er heldur ekki hægt að neita því, að eins og formi Akureyrarskóla er nú háttað, þá er talsvert erfiðara að ná prófi inn í hann heldur en það yrði eftir að þetta frv. er orðið að lögum.

Hv. 1. þm. Reykv. spurði, hvort stj. mundi leggja kapp á að koma fram á þessu þingi frv. því, sem nú liggur fyrir hv. Ed, um Menntaskólann í Reykjavík. Ég sé ekki ástæðu til að lýsa neinu yfir um það að svo stöddu, en henni er það meira áhugamál, að þetta frv. verði að lögum, vegna þess að gagnfræðaskólinn á Akureyri á nú 50 ára afmæli í vor, og á vel við, að honum sé ákveðið með lögum framtíðarskipulag:

Hinsvegar lít ég einnig svo á, að opnun Menntaskólans í Reykjavík fyrir nemendur úr alþýðuskólum af Suður- og Vesturlandi, Vestmannaeyjum, Hafnarfirði, Laugarvatni, Borgarfirði og Ísafirði verði til ánægju fyrir skólann, þar sem nemendur úr fjarlægari héruðum hefðu miklu betri aðstöðu til þess að sækja hann og nota en nú á sér stað. En ég skal hreinskilnislega játa, að mér er það meira áhugamál, að frv. um Akureyrarskólann verði að lögum á þessu þingi. Þess vegna bar ég fram sérstakt frv. um hvorn menntaskólann fyrir sig, til þess að tryggja það betur, að annaðhvort þeirra gengi fram á þinginu.

Ég álít, að þeir hv. þdm., sem vilja, að alþýðuskólarnir og menntaskólarnir séu aðgreindir, eins og ákveðið er í þeim frv. um þá, sem liggja fyrir Ed., en þó tengdir saman með þeirri hjálparbrú, sem ég hefi lýst, eigi að ganga á móti brtt. hv. 1. þm. Reykv. Þær eru byggðar á allt öðrum grundvelli og yrðu til þess að einangra menntaskólana aðallega fyrir Reykjavík og Akureyri. Ég mun fylgja till. hv. meiri hl. n., enda þótt ég bindi mig ekki við það, að Akureyrarbúum sé tryggð sérstaða til þess í framtíðinni að hafa beina brú fyrir nemendur þaðan inn í menntaskólann.