31.03.1930
Neðri deild: 67. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1261 í B-deild Alþingistíðinda. (1110)

14. mál, Menntaskólinn á Akureyri

Frsm. minni hl. (Magnús Jónsson):

* Ég get játað, að það er falleg hugsun í þessu hjá hæstv. dómsmrh., að vilja gera öllum, fátækum sem ríkum, og hvaðan sem þeir eru af landinu, mögulegt að ganga inn í menntaskólana og stunda þar nám. En ég er bara hræddur um, að forsendur hans fyrir þessum áformum séu skakkar. Ég held, að hann leggi of einstrengingslega áherzlu á það og geri of mikið úr því, að börn efnamannanna í Reykjavík noti sérstaklega Menntaskólann, öðrum fremur. Að vísu hefi ég ekki við hendina skýrslur, sem gætu upplýst þetta. En viðvíkjandi efnahag þeirra manna, sem skólann nota, má benda á þá reynslu, að í síðastl. 13 ár hefi ég verið viðriðinn úthlutun á stúdentastyrk í einum af deildum háskólans, og ennfremur hefi ég spurzt fyrir um úthlutun á samskonar styrk í hinum háskóladeildunum, og alstaðar hefir það komið í ljós, að stúdentar eru yfirleitt svo fátækir, að það er aðeins undantekning, ef hægt hefir verið að draga af nemanda fyrir það, að hann ætti við efni að styðjast. Það sýnast því ekki vera efnamennirnir í Reykjavík, sem halda börnum sínum til framhaldsnáms í Menntaskólanum.

Gagnvart öðru atriðinu, sem hæstv. dómsmrh. notaði máli sínu til stuðnings, má benda á það, að unglingar, sem nú stunda nám hjá einstökum kennurum eða við alþýðuskóla, geta með nokkurri áreynslu og ástundun komizt inn í ýmsa bekki Menntaskólans við ársprófin, svo að þetta myndi ekki breytast mikið frá því, sem nú er.

Mér finnst hæstv. dómsmrh. vera að halda áfram á sömu braut með þessum frv. sínum hér. Hafi afleiðingar sameiningarinnar verið skaðlegar, þá geta menn séð, hvert stefnir, því að hér er verið að fullkomna hana með þessu frv. hæstv. ráðh.

Það þarf ekki að bíða eftir að reyna þetta; það þarf ekki annað en almenna reynslu og heilbrigða hugsun til að sjá, að þessir gagnfræðaskólar yrðu alstaðar einskonar undirbúningsbekkir fyrir menntaskólanám. Sú krafa kemur von bráðar fram, að menn geti án frekara náms gengið inn í menntaskóla. Dæmið frá Akureyri er ákaflega sláandi. Um leið og gagnfræðaskólanum þar er gefin von um samband við efri bekki Menntaskólans í Reykjavík, þá rís krafan um þrjá efri bekki þar fyrir norðan líka. Eins mundi fara með skólana í Vestmannaeyjum, á Ísafirði og fleiri, sem hæstv. dómsmrh. talaði um. Það mundu koma kröfur um að gera þá alla að menntaskólum. Og er ég ekki viss um, að þægilegra yrði að standa á móti heldur en raun varð á um Akureyrarskólann. Þess vegna er það alveg auðsætt, að þessi fallega hugsun, að gera mönnum alstaðar fært að ná til stúdentsprófs, mundi leiða til þess, að þeir, sem vildu menntast í gagnfræðaskólum tvö eða þrjú ár, yrðu að fylgjast með hinum, sem vildu byrja menntaskólanám.

Það getur þótt hart, að þeir, sem næstir búa og bezta eiga aðstöðu, njóti hennar svo, að börn þeirra verði meiri hluti nemenda í menntaskólanum. En hjá því er ekki gott að komast alveg. Ég veit ekki einu sinni, hvort það er rétt að laða fátækt fólk til þess að reyna að koma börnum sínum til stúdentsprófs og láta þau síðan stunda embættisnám í háskóla. Eftir tveggja ára nám í gagnfræðaskóla koma fjórir vetur í menntaskóla og 4–5, kannske 6, ár í háskóla, áður en von er um, að börn þessara manna komizt að sældarbrauði ríkissjóðs. Ég er ekki viss um, að það sé rétt að stuðla svo mikið að því.

Hæstv. dómsmrh. vildi ekki láta sömu reglur gilda um skólana í Reykjavík og á Akureyri og bar fyrir húsnæðisleysi. Ef menn komast að raun um, að réttara sé að hafa 6 ára skóla í Reykjavík, en ekki 4 ára, þá verður að auka við húsnæðið. Hitt, að sníða stærð skólans eftir húsinu, nær ekki nokkurri átt. Það minnir á það, sem sagt er, að kristindómsfræðslan sé nú afnumin af því, að ekki sé til nógu stór tafla í skólanum. Ég er hræddur um, að hæstv. dómsmrh. muni reka sig á það, að skóla, sem búið er að breyta úr gagnfræðaskóla í menntaskóla, muni ekki ganga illa að fá að verða samfelldur 6 ára skóli. Einkum þó ef brtt. meiri. hl. nú verða samþ., því að þá má alltaf breyta þessu með nýrri reglugerð og færa í það horf, sem Akureyringar vilja. Hæstv. dómsmrh. var að tala um „opnun skólans“ hér fyrir mönnum annarsstaðar frá. Ég sé ekki betur en að þessar þekkingarkröfur til inntöku í 1. bekk Menntaskólans séu svipaðar og nú til inntöku í fjórða bekk. Ég held þá, að menn úr Vestmannaeyjum og frá Ísafirði gætu eins vel tekið próf upp í 4. bekk. Hér er því ekki um neina opnun að ræða.

Ef ég fengi yfirlýsingu frá hæstv. dómsmrh. um það, að honum væri það ekki kappsmál, að frv. gengi fram á þessu þingi, þá tæki ég brtt. mínar aftur. Það er bæði skoðun mín og fræðslumálastjórans, hv. þm. V.-Ísf., sem er sú rétta í þessu máli. Hann sagði, að ákaflega fáir úr alþýðuskólunum hefðu leitað upptöku í Menntaskólann. Þessu líkt ætti að verða um gagnfræðaskólana. Þeir eiga ekki að vera undirbúningsdeildir menntaskóla fremur en t. d. Flensborgarskóli hefir verið það. Það er náttúrlega mjög gott, að hæstv. dómsmrh. skuli lofa að vera með til að breyta þessu, ef það reynist ekki vel.