31.03.1930
Neðri deild: 67. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1265 í B-deild Alþingistíðinda. (1113)

14. mál, Menntaskólinn á Akureyri

Frsm. minni hl. (Magnús Jónsson):

* Hv. frsm. meiri hl. sagði, að ég hefði talað nokkuð öðruvísi en í nál. En þó kemst hann loksins að þeirri niðurstöðu, að ég hefði haldið fram hinu sama og ég hélt fram í nefndinni og í nál. minni hl. Ég er ekki mótmæltur því, að lögleitt sé það fyrirkomulag, sem á er komið. Ég beygi mig fyrir kringumstæðunum eins og þær eru nú. Vitanlega var Menntaskólinn á Akureyri stofnaður þvert ofan í gildandi lög, sem ákváðu, að þar skyldi vera gagnfræðaskóli, án þess að nokkur lagastafur væri fyrir því að stuðla að stúdentsprófi þar. (BSt: Eru ekki fjárlögin lög?). Það var allt annað en stjórnin sagði. Hún skipar: Hér skal vera menntaskóli. Í nál. sagði ég ekkert um það, að ég væri á móti málinu, einungis að ég teldi eðlilegra að hafa ein lög um báða skólana.

Þá vildi hv. frsm. ekki kannast við, að neðri bekkirnir tveir yrðu undirbúningsbekkir fyrir menntaskólann sérstaklega. Það er rétt, að skólinn er ekki óskiptur 6 ára skóli, meðan inntökupróf þarf upp í efri bekkina, þó að menn séu búnir að ljúka prófi upp úr neðri bekkjunum. En þetta er í rauninni ekki annað en lævísi. Þegar sömu kennarar eiga að prófa í sömu námsgreinum og lærðar hafa verið í gagnfræðadeildinni, þá verður þetta bara endurtekið próf.

Hv. frsm. talaði um sérstöðu Akureyrar áðan. Þá er þó meira samræmi í skoðunum hæstv. dómsmrh. Hann vill hafa 4 ára menntaskóla alveg eins og í Reykjavík. Því er ég með. En ég vil þá benda hæstv. ráðh. á, að í þessum brtt. gægist fram fyrsta krafan um, að farið verði að sníða gagnfræðaskólana eftir því, sem þarf til þess, að nemendur hans komist upp í menntaskólann. Ef menntaskólinn er byggður ofan á gagnfræðaskólann, þá koma frá skólum alstaðar á landinu kröfur um, að nemendur þeirra fái að komast inn í menntaskólann.

Hv. frsm. sagði, að hér væru tveir gagnfræðaskólar. Annar hefir verið stofnaður með lögum frá Alþingi, en hann er húsnæðislaus, og kennaralaus má víst segja. Hinn skólinn er í raun og eru húsnæðislaus líka og er haldið uppi af einstökum mönnum. Það er víst ætlazt til, að hér í Reykjavík verði bara gagnfræðaskólar. Og ég ætla að vinna móti því, að þeir verði seldir undir sömu lög og aðrir gagnfræðaskólar, því að hér í bænum er svo margt ólíkt því, sem annarsstaðar er á landinu.