02.04.1930
Neðri deild: 69. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1268 í B-deild Alþingistíðinda. (1123)

14. mál, Menntaskólinn á Akureyri

Haraldur Guðmundsson:

* Ég skal ekki fara mörgum orðum um þessar brtt. mínar, sem í raun og veru eru ekki nema tvær.

Fyrri brtt. fer fram á það að fella niður undirbúningsdeild þá við skólann, sem gert er ráð fyrir í 1. gr. frv. eins og það er nú. Í 1. gr. frv. segir, að starfrækja skuli gagnfræðadeild með 3 bekkjum fyrir neðan fjóra bekki menntaskólans, sem á að vera óskiptur. Þessi undirbúningsdeild er í raun og veru gagnfræðaskóli, því að hún kemur að sömu notum.

Mér finnst því eðlilegt, að þessi deild verði felld niður og legg því til, að þetta ákvæði sé fellt aftan af 1. gr. og frv. síðan breytt eftir því.

Ég álít heppilegasta fyrirkomulagið, að sambandsleysi milli menntaskóla og alþýðuskóla sé það sama um allt land. Frá hvaða skóla sem er þarf þá að ganga undir sama inntökuprófið í menntaskólann. En eftir því frv., sem hér liggur fyrir, er gert ráð fyrir, að hægt sé að komast próflaust inn í menntaskólann. (BSt: Þetta er ekki rétt). Ég skil þá ekki mælt mál. Vil ég því, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp 8. gr. frv.:

„Heimilt er utanskólamönnum að taka próf úr öllum bekkjum Menntaskólans. Þeir, sem standast prófin í fyrstu þrem bekkjum skólans, hafa leyfi til að setjast í skólann, eftir því sem húsrúm og kennaratala leyfir. Ef fleiri ná prófi inn í bekk en hægt er að veita inntöku, ræður prófeinkunn úrslitum. Skólameistari má þó bregða út af þessari reglu, ef úrlausn nemenda í einhverri grein sannar, að hann sé gæddur frábærlega góðum gáfum“. (Dómsmrh.: Það er átt við menntaskólann, en ekki gagnfræðaskólann). Það er þá einkennilega orðað. Þarf ekki að taka það fram með gagnfræðadeild. Þetta liggur í hlutarins eðli.

Meginatriði málsins er, að ríkissjóður kostar gagnfræðaskóla, sem vinnur sömu störf og aðrir gagnfræðaskólar, eftir því frv., sem rætt var hér næst á undan.

Ég legg því til, að ákvæði 1. gr. um undirbúningsdeild verði felld niður og frv. síðan breytt eftir því. Ég skal taka það fram um 8. gr., að ef það er upplýst og prentað í Alþingistíðindunum, að frsm. og flm. lýsa því yfir, að hér sé átt við menntaskólann, þá get ég tekið þessa brtt. aftur.

Þá hefi ég þá brtt. við 19. gr., að hún skuli falla niður. Ég er á móti öllum skólagjöldum, og vona ég, að hv. þdm. sé það atriði ljóst.