02.04.1930
Neðri deild: 69. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1271 í B-deild Alþingistíðinda. (1126)

14. mál, Menntaskólinn á Akureyri

Haraldur Guðmundsson:

* Hv 1. þm. Skagf. hefir sýnt fram á það, sem ég vildi segja, að ákvæðin um skólagjöld í 19. gr. eru ríkissjóði óviðkomandi, þar sem kennslugjöld við Menntaskólann á Akureyri eiga að renna í skólasjóð. Ég er þessu sérstaklega mótfallinn, því að með þessu eru skólagjöld lögfest í fyrsta sinn. Áður hefir þeim verið laumað inn í fjárlögin, en engin sérstök lög verið samþ. um þau. Ég játa það, að brtt. mín við 8. gr. hafi verið byggð á misskilningi, og tek hana því hér með aftur.

Hæstv. dómsmrh. sagði, að undirbúningsdeildinni yrði haldið af því, að ella væru Eyfirðingar sviptir héraðsskóla sínum, er þeir hefðu haft í 50 ár. Mér finnst nú undarlegt, af undirbúningsdeildin á að vera héraðsskóli. Og sé ekki, að erfiðara sé fyrir Eyfirðinga en önnur héruð að sækja gagnfræðaskóla til kaupstaðanna. Hér hefir ekki annað gerzt en að Eyfirðingar hafa fengið menntaskóla, í viðbót við gagnfræðaskólann, sem fyrir var, og svo fær Akureyri gagnfræðaskóla, eins og aðrir kaupstaðir, samkv. l. um gagnfræðaskóla. Ég sé enga ástæðu til þess að hafa tvo gagnfræðaskóla í Eyjafirði, sízt þar sem einn héraðsskóli er austan Vaðlaheiðar, á Laugum.