31.01.1930
Neðri deild: 10. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 598 í C-deild Alþingistíðinda. (1134)

33. mál, verðfesting pappírsgjaldeyris

Flm. (Ólafur Thors):

Ég geri ráð fyrir, að flestir hv. þdm. séu mér sammála um það, að efnishlið gengismálsins sé þegar útrædd hér á Alþingi. Gengismálið hefir verið hér til meðferðar þing eftir þing, en þrátt fyrir ítarlegar umr. og upplýsingar fagmanna, er það enn óútkljáð.

Þetta mál var fyrst borið fram af núv. hæstv. forsrh., sem þá, eins og raunar einnig nú, var þm. Str. Síðan var málið flutt af hv. þm. V.-Ísf. Þó að ég sé gamall samherji þessara tveggja hv. þm. í þessu máli, hefi ég þó helzt úr lestinni, þannig að skilja, að ég er orðinn vonlaus um, að gengismálið nái fram að ganga í því formi, sem þessir hv. þm. hafa viljað búa málinu. Hinsvegar tel ég mjög óheppilegt, að svo miklu máli sem gengismálinu sé ekki ráðið til lykta, heldur lendi allt í þófi og málalengingum um það ár eftir ár.

Það var fyrst og fremst af þessari ástæðu, að við hv. þm. N.-Ísf. leyfðum okkur í fyrra að bera fram till. um nýja lausn á þessu mikilvæga máli. Það vannst ekki tími til að ræða till. okkar í fyrra, og því berum við þær nú fram að nýju.

Sú leið, sem við bendum á til lausnar á gengismálinu, er verðfesting engu síður en leiðin, sem hv. þm. V.-Ísf. vill fara í málinu. Það, sem skilur, er hreint formsatriði. Í stað þess að festa íslenzku krónuna í núverandi gildi, þ. e. 82 gullaurum, viljum við hækka hann upp í 100 gullaura, samtímis því að umreikna allar kröfur og skuldbindingar, sem stofnaðar eru eða stofnaðar verða á tímabilinu frá 7. ágúst 1914 til 1. jan. 1933. Auk þess leggjum við til, til hægðarauka, að í umferð verði seðlar með tvennskonar gildi, og vakir það fyrir okkur, að alþjóð manna muni eiga betra með að venjast breytingunni með slíku fyrirkomulagi.

Báðar þessar leiðir, sem ég nú hefi nefnt, leiða að sama marki, og má færa þeim hvorri um sig ýmislegt til síns ágætis. Ég ætla þó ekki að svo komnu að færa önnur rök fyrir þeirri leið, sem við hv. þm. N.-Ísf. viljum fara, en þau, að eins og Alþingi er nú skipað fæst ekki lausn á gengismálinu eftir till. framsóknarmanna. Hækkunarmenn eru það margir í þinginu, að till. þeirra ná aldrei fram að ganga. Hinsvegar skal ég taka ábyrgð á því, að nægilega margir þm. í hv. Ed. ljái till. okkar hv. þm. N.-Ísf. lið, ef það er yfirlýst, að festingarmenn muni fylgja þeim.

Þessi er aðalröksemd mín fyrir þessu frv. Og ég vil lýsa yfir því, að ég vil ekki hefja umr. nú um það, hver böggull fylgi, hvor leiðin sem farin kann að verða í þessu máli, heldur óska ég eftir samkomulagi um þetta frv. Þó að farin verði önnur leið til festingar en framsóknarmenn óska, mega þeir því vel una, ef festingin fæst á annað borð.

Ég sé ekki ástæðu til að láta frv. fylgja fleiri orð, en vil leggja það til, að því verði vísað til fjhn., að lokinni þessari umr.