31.01.1930
Neðri deild: 10. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 601 í C-deild Alþingistíðinda. (1140)

33. mál, verðfesting pappírsgjaldeyris

Flm. (Ólafur Thors):

Ég vil leyfa mér að þakka hæstv. fjmrh. fyrir undirtektir hans, og vonast fastlega eftir samvinnu við hann um lausn þessa máls.

Sumir menn eru svo bjartsýnir, að þeir bera engan ugg í brjósti, þó að það sé dregið á langinn ár eftir ár að ráða þessu mikilvæga máli til lykta. Ég er ekki svo bjartsýnn. Ég óttast óvissuna. Og reynsla annara þjóða sýnir það, að ótti minn er ekki ástæðulaus. Á Spáni varð t. d. 50% gjaldeyrisverðfall á einum mánuði, sem ekki hefði orðið, ef því hefði ekki verið frestað að festa gjaldeyrinn.

Ég skal ekki taka of fast á móti því, sem flokksbróðir minn, hv. 1. þm. Reykv., sagði. Hann vildi mótmæla því, er ég sagði, að efnishlið gengismálsins væri útrædd hér á Alþingi, og færði það til, að hann sjálfur héldi enn sinni gömlu skoðun.

Hér í fyrra fóru fram miklar og langar umr. um aðallínur gengismálsins og menn mynduðu sér um það fastar skoðanir. Þeir, sem ekki muna þær umr., geta lesið þær í Þingtíðindunum. Ég geri ekki ráð fyrir, að fram komi nýjar upplýsingar í málinu, og því tel ég það útrætt að efninu til, hvort svo sem menn hafa skipt um skoðanir í því eða ekki.

Ég vil svo að síðustu endurtaka það, að ég vænti eftir stuðningi hæstv. fjmrh. við þetta frv.