20.03.1930
Neðri deild: 58. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 298 í B-deild Alþingistíðinda. (115)

1. mál, fjárlög 1931

Bernharð Stefánsson:

Ég hefi ekki margt að segja. Till. mínar hafa ekki mætt miklum mótmælum og heldur ekki miklum stuðningi. Vil ég byrja með því að þakka hv. 4. þm. Reykv. fyrir þann stuðning, sem hann veitti till. minni viðvíkjandi Sauðanesvitanum. Það, sem hann tók fram viðvíkjandi þessari till., var rétt. Mér skildist, að hv. frsm. fyrri kafla fjárl. drægi það fram sem ástæðu fyrir því, að n. mælti ekki með till. minni, að málið væri illa undirbúið. Þó virtist mér, sem hv. frsm. rengdi ekki þá áætlun um kostnað við að reisa þetta mannvirki, sem vitamálastjóri hefir gert, heldur skildist mér hann byggja mótmæli sín á því, að engin áætlun um rekstrarkostnað þessa vita lægi fyrir. Þori ég ekki að segja um það fyrir víst, en ég held þú, að svo sé um alla vita, sem Alþingi hefir veitt fé til þess að reisa, að engin slík áætlun hafi verið til um þá. Skildist mér því, að þessi röksemd n. líkist mest því, sem almennt er kallað viðbára.

Hv. frsm. síðari kaflans drap á till. mína viðvíkjandi endurbyggingu sjóvarnargarðsins á Siglufirði. Ég sé, að fram hefir komið brtt. frá hv. 1. þm. Árn., þess efnis, að styrkur ríkisins til þess verks verði færður niður til jafns við framlag Siglufjarðarkaupstaðar. Hefir ekki önnur röksemd verið færð fyrir þessari brtt. en sú, að þegar umræddur garður var byggður, hafi hlutfallið verið þetta. Veit ég, að þetta er rétt, að ríkið lagði fram helming kostnaðarins við byggingu garðsins í upphafi, gegn helmings framlagi frá kaupstaðnum. En ég fæ ekki séð, að þótt svo hafi verið í upphafi, þá þurfi svo að vera áfram, þegar um endurbyggingu garðsins er að ræða. Ég vil minna á það í þessu sambandi, að t. d. var veitt hlutfallslega meira til sjóvarnargarðsins á Sauðárkróki, þar sem ríkisframlagið var 2/3 eða ¾, eða a. m. k. meira en helmingur af kostnaðinum. En þótt till. hv. 1. þm. Árn. yrði samþ., tel ég þó nokkuð fengið, því að lítið er betra en ekki neitt.

Það, sem hv. frsm. síðari kaflans sagði um þessa till., skildi ég hvorki upp né niður í. Hann sagði eitthvað á þá leið, að hv. l. þm. Árn. hefði í hyggju að bera fram brtt. við áðurnefnda brtt. sína, þess efnis, að endurbygging nefnds sjóvarnargarðs færi fram þegar fé hefði verið veitt til þess í fjárl. Mér skilst að þegar þingið hefir samþ. fjárveitingu til einhvers, verði ekki hægt að hringla með það fram og aftur, en hvað það snertir, að framin verði rannsókn í þessum efnum, þá er það svo lítið atriði, að mér skilst, að stj. geti látið slíka rannsókn fram fara án þess, að þessi till. væri samþ. Ef þessi till., sem hv. frsm. er að boða, um að nýja samþykkt þurfi í fjárl., nær fram að ganga, þá sé ég ekki, að neitt verði samþ. í málinu, því að vitanlega er það ekki nema fjarstæða ein, að þetta þing geti farið að banna komandi þingum að veita fé til einnar eða annarar framkvæmdar. Ég hefi ekki séð þessa brtt. og trúi því ekki, að hv. l. þm. Árn. eigi eftir að flytja hana, fyrr en ég tek á því, því að það nær engri átt að ætla að fara að leyfa komandi þingum að setja eina eða aðra fjárveitingu í fjárl. Það er miklu hreinlegra að greiða atkv. á móti till. minni. Ég kæri mig ekkert um það, að verið sé að veita till. minni látalætisfylgi: með því að koma fram með brtt. við hana, þannig lagaðar, að hún yrði þýðingarlaus, enda þótt hún næði fram að ganga. Hefi ég aldrei vitað eins afkáralega lagt til mála, skora ég því á tillögumann, ekki vegna mín, heldur vegna sjálfs hans, að falla frá slíkri fjarstæðu.

Frsm. síðari kaflans gat þess, að n. legði á móti till. minni um ábyrgðarheimild fyrir Siglufjörð til raforkuveitu, eins og öðrum slíkum till. Við þá aðstöðu n. hefi ég ekkert að athuga, þar sem ég get ekki búizt við, að mínum till. sé gert hærra undir höfði en till. annara þm., sem í svipaða átt ganga. Hver svo sem niðurstaðan verður um þessa till. mína, er þessi afstaða n. byggð á fullum rökum, og er það meira en sagt verður um röksemdir hv. þm. Mýr., eins og ég hefi áður tekið fram.

Hvað snertir brtt. hv. þm. Skagf. á þskj. 324, III, þess efnis, að aftan við þessa till. mína bætist sem skilyrði, að Fljótamenn fái rafmagn hjá þessu væntanlega orkuveri með kostnaðarverði, svo mikið, sem raforkuráðunautur ríkisins telur hæfilegt eftir mannfjölda, vil ég segja það, að mér fyndist eðlilegast, að um þetta atriði færu fram frjálsir samningar milli hlutaðeigandi aðilja, en samt vil ég ekki mótmæla því sérstaklega. Ef Alþingi sýnist að setja Siglfirðingum þetta sem skilyrði fyrir ábyrgðarheimildinni, býst ég við, að þeir muni sætta sig við það, að Fljótamenn njóti góðs af þessu.

Ég drap í fyrri ræðu minni á brtt. hv. l. þm. S.-M. um að færa framlagið til byggingarinnar í Bakkaseli úr 35 þús. kr. niður í 10 þús. kr., og sýndi þá fram á, hvílík fjarstæða þessi till. væri, þó að ég verði að játa, að þessi till., sem boðuð er frá 1. þm. Árn., sé enn fjarstæðukenndari. Ég hélt, sannast að segja, þegar ég sá þessa till. hv. 1. þm. S.-M., að ekki væri hægt að komast lengra í vitleysunni, en ég sé, að mér hefir skjátlast. Nú hefir komið fram brtt. við þessa till. hv. 1. þm. S.-M. frá hv. l. þm. Árn., þess efnis, að í stað 10 þús. kr. verði veittar 25 þús. kr. til byggingarinnar í Bakkaseli. Gleður það mig, að fram hefir komið, að bæði hæstv. fjmrh. og n. líta svo á, að ekki megi veita minna framlag í þessu skyni en 25 þús. kr. Mun ég, greiða atkv. með þessari till. 1. þm. Árn., en þar á eftir á móti till. hv. l. þm. S.-M., þar sem ég lít svo á, að liðurinn eigi helzt að standa óbreyttur. Ég skal svo ekki orðlengja um þetta frekar, en verð að lokum að endurtaka það, sem ég áður sagði, að ég kysi heldur, að hv. 1. þm. Árn. léti ekki ginna sig til að flytja þá till., sem hv. þm. Mýr. hefir boðað frá honum, og að hann greiði fremur atkv. á móti minni till. en að hann geri sig að athlægi með því að bera fram eins fjarstæða till.