07.02.1930
Neðri deild: 17. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 611 í C-deild Alþingistíðinda. (1151)

36. mál, járnbraut frá Reykjavík til Ölfusár

Magnús Guðmundsson:

Ég held, að eigi sé hægt að bera hv. þm. Suðurlandsundirlendisins á brýn, að þeir séu bráðlátir í þessu máli. Þeir bera nú fram mál, sem verið hefir á döfinni í tvo áratugi og búið er að verja 100 þús. kr. til að rannsaka, og einu sinni hefir verið samþ. hér í þinginu, og nú fara þeir fram á, að stj. sé veitt heimild til fjárveitingar 1932. Mér gæti dottið í hug, að þessi fjörkippur væri eitthvað miðaður við kosningarnar 1931. Mér kemur það líka undarlega fyrir sjónir, að hv. flm. skuli tjá hæstv. atvmrh. þakkir sínar fyrir undirtektir hans, þar sem hann þóttist ekki enn vita, hvort járnbraut væri rétta lausnin á málinu. (EJ: Ég þakkaði honum góð orð). Hinsvegar kvaðst hann mundu fylgja járnbraut þegar væri búið að sannfæra sig um, að hún væri bezta lausnin, og get ég ómögulega þakkað honum þau ummæli. Ég álít, að hann ætti að vera búinn að mynda sér skoðun um málið. Hann nefndi nýtt álit frá Sverre Möller, þeim er áður hefir komizt að þeirri niðurstöðu, að rétt væri að leggja hér járnbraut. En hefir þetta álit verið birt? (Forsrh.: Ekki á prenti. — JS: Það hefir verið sent út til einstakra manna). Ég hefi a. m. k. aldrei séð það, og sennilega ekki aðrir en framsóknargæðingar.

Ég er jafnsannfærður og þeir, sem hér hafa mælt með frv., um það, að samgöngurnar hér austur yfir fjall verða aldrei bættar svo, að fullnægjandi sé, nema með járnbraut. Ég veit satt að segja ekki, hve lengi á að vera að rannsaka þetta mál. Er það ef til vill meiningin, að stj. eigi að vera að hugsa sig um til 1932? Mér finnst, að ef svo ólíklega færi, að stj. kæmist að niðurstöðu fyrr, að þá ætti ekki endilega að vera skylt að bíða lengur, og finnst mér því syndlaust, þótt frv. væri a. m. k. breytt í þessu atriði.

Hæstv. forsrh. kvaðst eigi hafa veitt „Títan“ sérleyfið, af því að ósannað hefði verið, að fé væri fyrir hendi. Ég vildi gjarnan fá upplýsingar um, hve strangar kröfur hæstv. ráðh. hefir gert í þessu efni. Sá maður, sem er aðalmaðurinn í „Títan“, hefir tjáð, að hann hafi ekki getað fengið sérleyfið, nema með því að leggja peningana á borðið eða geta vísað á þá í banka. Ef þetta er rétt, þá er þar með brotinn þingviljinn 1927, því að tekið var fram, að þá fyrst væri hægt að fá fé, er sérleyfið væri fengið. En sannleikurinn er sá um afstöðu hæstv. ráðh. í þessu máli, að hann hefir aldrei járnbrautarmaður verið, og er það ekki ennþá. En honum tjáir ekki að bera því við, að „Títan“ hafi engan skilding haft til framkvæmda. Í fyrra kom einn af aðalmönnunum í þessu félagi hingað og bauð Reykjavíkurbæ rafmagn úr Urriðafossi, ef hann gæti fengið sérleyfi. Hann hafði meðferðis plögg frá norskum banka, þar sem sagt var, að nægilegt fé væri fyrir hendi. En hafi verið til fé til að virkja Urriðafoss, þá hefir verið fé fyrir hendi til járnbrautar, því að hún kostar ekki meira en sú virkjun. Ég held því, að hæstv. forsrh. hafi stöðvað járnbrautarlagningu austur viljandi, enda þótt hann léti ávallt svo, að hann væri hlynntur járnbrautinni, en andvígur virkjuninni. En hann hefir sýnt það í dag, að hann er á móti járnbraut, eins og hann hefir alltaf verið. En bágt á ég með að skilja það, að þjóðarógæfa hefði hlotizt af því, þó að virkjaður hefði verið foss, sem hefði getað veitt Suðurlandsundirlendinu ljós og hita. Ég álít því, að með neitun sinni um sérleyfið hafi hæstv. forsrh. slegið tvær flugur í einu höggi, hindrað tvennskonar mikilsverðar framkvæmdir, járnbraut og raforkuveitu um allt Suðurlandsundirlendið. Ég tók það fram áðan, að ég væri ekki að lá honum hans persónulegu skoðun á járnbrautarmálinu, en heilindi hans hefðu getið verið meiri.

Hæstv. ráðh. var eitthvað að tala um snjóbíl, sem á víst að annast samgöngur austur, líklega með því að ryðja öðrum bílum braut. (Forsrh.: Nei, hann á að fara yfir snjóinn). Þá er einn bíll nokkuð lítið. (Forsrh.: Vitanlega). Þetta sannar, að hæstv. ráðh. stendur enn á rannsóknarstigi í málinu og veit ekki, á hvern hátt hann telur heppilegast að bæta samgöngurnar. Auk þess er ómögulegt, að þessi snjóbíll verði búinn að sýna ágæti sitt við 2. umr. þessa máls.