07.02.1930
Neðri deild: 17. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 618 í C-deild Alþingistíðinda. (1156)

36. mál, járnbraut frá Reykjavík til Ölfusár

Jón Ólafsson:

* Það er aðeins til að láta í ljós ánægju yfir því, hvað vel menn taka í þetta mál. Jafnvel hæstv. forsrh. tók það vel í málið, að ég er miklu vonbetri en ég var um það, að hann framfylgi því með kappi. Ég marka þetta á þeim ummælum hans, það þegar niðurstaða sé fundin um þetta mál, þá sé hann öruggur í því að hefjast handa um málið.

Hv. 1. þm. Skagf. og ég þykjum vera of þolinmóðir, að við viljum bíða, en ekki ákveða að hefjast handa fyrr en 1932. Ég vil minna á það, að þetta mál er búið að vera á döfinni frá því 1894, að það kemur fyrst á dagskrá. Ég verð að segja, að það skilur mikið á milli um bjartsýni á málið hjá þeim mönnum, sem börðust fyrir því þá, og hjá þeim, sem á síðari árum hafa borið það fram. Það má nú samt segja, að síðan farið var að rannsaka málið og ræða fyrir alvöru, sem mun hafa verið um 1913, þá hafi skoðanir orðið nokkuð skiptar, og það af alvel óskiljanlegum ástæðum, að því er mér virðist. En ég er sannfærður um, að nánari rækileg rannsókn mundi leiða fram meira fylgi við málið, og þegar litið er á það tímabil, sem það hefir verið á dagskrá þjóðarinnar, þá finnst mér ekki ægilegt að bíða þangað til 1932. Það er sannarlega ekki langur tími, ef von er um heilsteypta og góða lausn á þessu mikilsverða máli.

Það má minna á það, að því meira fé sem safnað er á vissa staði, t. d. eins og í Reykjavík annarsvegar og í Árnessýslu og Rangárvallasýslu hinsvegar, sérstaklega Árnessýslu, og ríkið hefir lagt stórfé til umbóta, þá er sjálfsögð afleiðing af því, að ef við eigum að fá fullar nytjar þess fjár, þá verður að bæta samgöngurnar. Tugum og jafnvel hundruðum milljóna er búið að hrúga á þessa staði. Og þegar maður lítur á þessar fjárhæðir í heild og hvað þarf að gera til þess að þær gefi verulega vexti, þá eru þetta smámunir í raun og veru, sem hér er farið fram á, í samanburði við heildarupphæðina. Það er þetta atriði, sem hlýtur. að vaka fyrir hverjum manni, sem um þetta mál hugsar, að það er ekki orðið eins ægilegt eins og þegar bjartsýnustu mennirnir voru að ræða það á þingi 1894.

Ég hefi ekki ástæðu til að tala langt mál að þessu sinni, en vil aðeins beina nokkrum orðum til n., sem fær frv. til athugunar. Við flm. álítum þetta hátíðarár ákaflega vel fallið til þess að gera eindregna samþykkt um þetta stórmál. Og eftir þeim orðum, sem fallið hafa hér um þá rannsókn, sem verið er að framkvæma, þá er ekkert líklegra en nefndin geti fengið árangur þeirrar rannsóknar það tímanlega í hendur, að hún afgr. málið til fullnaðarafgreiðslu á þessu þingi.

Kostnaðarhlið málsins og annað þess háttar tók hv. 1. flm. svo vel fram, að ég þarf ekki neinu við að bæta. Ég held hann hafi ekki gert neitt of mikið úr þeim kostnaði, sem hvílir á hverju einasta tonni, sem flutt er yfir fjallið. Viðhald og slit þeirra samgöngutækja, sem við notum, er gífurlegt. Þar með fylgir, að það mun kosta dagsverk duglegs manns að flytja hvert einasta tonn austur yfir fjall. Oftast getur bílstjórinn ekki farið með neitt til baka. Og flytji hann meira en eitt tonn, mun það oftast taka meira en einn dag. Það sjá allir, að þegar bifreiðum er ekki ætlaður hærri aldur en sex ár og viðhaldskostnaður gerður eitthvað um 1500 krónur árlega, þá er ekki hægt að skapa landsmönnum dýrari flutning og í alla staði fráleitari fyrir afkomu þjóðarinnar.

Mér skildist hæstv. forsrh. vera í raun og veru mjög hræddur um mistök og áhættu, því að áætlanir hafi svo oft orðið fjarri sanni. En því má hæstv. ráðh. slá föstu, að svo lengi sem gera á áætlun um vandaverk, þá eru tölurnar ekki alveg tryggar. Við þessu er ekkert hægt að segja. Hér eru mannlegir kraftar að verki, og þeir eru ekki alveg óskeikulir. Og það koma engir aðrir kraftar til greina, þótt við bíðum lengi enn; það má hæstv. ráðh. reiða sig á.

Ég er ekki fyllilega sammála hv. þm. Rang., að það þurfi að ræða málið mjög ítarlega. Það er kominn fram svo mikill fróðleikur í ræðum fyrri þinga frá upphafi þessa máls, að óþarfi er að þrautræða það nú. En vera má, að gott og nauðsynlegt sé að ná í gögn um það, hvað þessar samgöngur kosta okkur nú, sem ætti að vera hægt bráðlega. Geri ég ráð fyrir, að sá fróðleikur geti orðið fyrir hendi við 2. umr. Af þessum ástæðum sé ég ekki neina þörf að tala meira um málið að svo stöddu.