07.02.1930
Neðri deild: 17. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 627 í C-deild Alþingistíðinda. (1159)

36. mál, járnbraut frá Reykjavík til Ölfusár

Magnús Guðmundsson:

Ég þarf engum að svara nema hæstv. forsrh., og get ég lokið því á 5 mínútum.

Hæstv. ráðh. hefir ekki beinlínis neitað því, að hann hafi vitað um bréfið í fyrra, sem sannaði, að Títanfél. hafði yfir nógu fé að ráða. Að vísu kom það bréf ekki beinlínis járnbrautarmálinu við, að öðru leyti en því, að það var sönnun þess, að Títan hafði peningana til, þegar átti að byrja á járnbrautinni.

Það gleður mig að heyra það á hæstv. ráðh., að hann neitaði ekki um sérleyfið vegna þess að félagið hefði skort peninga, heldur vegna virkjunar á Urriðafossi. Hæstv. ráðh. sagði, að með veitingu þessa sérleyfis hefði þjóðin verið stungin í hjartastað. Í þessu er fólgin játning hans á því, að málið hafi ekki strandað á peningaleysi. En þá á hann ekki að bera því við, heldur segja eins og var, að hann hafi alls ekki viljað veita sérleyfið.

Það er geysimikill munur á skoðunum hæstv. atvmrh. og fyrrv. atvmrh. Dana, sem ég talaði við 1926. Hann sagði mér, að Norður-Sjáland hefði þá fyrst komizt úr kútnum, þegar það fékk rafmagn frá Svíþjóð til smáiðnaðar og heimilisnota. Þó að þeir yrðu að sækja rafmagn til annars lands, og það væri auk þess ýmsum annmörkum bundið, þá hefir það lyft landbúnaðinum á Norður-Sjálandi betur en nokkuð annað. Ég álít, að rafmagnið mundi verða hin mesta lyftistöng fyrir íslenzkan landbúnað; en hæstv. atvmrh. álítur, að með þeim framkvæmdum verði þjóðin stungin í hjartastað. En ef svo er, þá er það ekki ég einn, sem með þessu máli hefi stungið hana í hjartastað. Hæstv. ráðh. má bæta við 2/3 allra alþm. 1927, sem þá hafa verið með í því að reka rýtinginn í hina íslenzku þjóð, þar á meðal fjölda af hans eigin flokksbræðrum. Það er talsvert einkennilegt að veita því athygli, hvað Danir eru að gera við járnbrautir sínar í umhverfi Kaupmannahafnar. Þeir eru ekki að leggja þær niður, heldur ætla þeir að verja 17 millj. króna til þess að þeir geti rekið þær með rafmagni. Ætli það væri ekki nær fyrir okkur að nota aflið í Urriðafossi til þess að knýja járnbraut á milli Reykjavíkur og Suðurláglendisins en láta fossinn belja áfram ónotaðan? Það eru ekki réttnefndir framsóknarmenn, sem leyfa sér að standa á móti þessu merkilega máli, og það eru ekki heldur réttnefndir íhaldsmenn, sem gera það — heldur eru þeir hinir svörtustu afturhaldsmenn.

Ég tók eftir því, að hv. 2. þm. Árn. var að gefa bendingu um það, að þetta síðara álit frá Sv. Möller um járnbrautarmálið hefði verið pantað. Þetta mál snertir hans kjördæmi meira en nokkurt annað hérað á landinu. Ég vil því beina til hans þeirri fyrirspurn, hver hafi pantað þetta álit. Ég vil fá þeirri spurningu svarað og býst við, að hv. þm. hljóti að vera eitthvað kunnugt um það, fyrst hann var að gefa þetta í skyn.

Ég er mjög hissa á þeim ótta, sem hæstv. forsrh. elur í brjósti gagnvart útlendingum, sem leggja fé í framkvæmdir hér. Reynslan hefir sýnt, að af þessu er engin hætta, þegar vel er um búið, eins og er í sérleyfislögum okkar. Öll fyrirtæki, sem útlendingar hafa lagt fé í hér á landi, hafa eftir nokkurn tíma orðið alíslenzk, og svo mundi einnig hafa farið um þetta. Ég hefi svo mikið traust á hinni íslenzku þjóð, að hún láti aldrei kúga af sér þjóðerni og tungu. En hæstv. ráðh. vantreystir henni í þessu. Það skilur okkur.