20.03.1930
Neðri deild: 58. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 301 í B-deild Alþingistíðinda. (116)

1. mál, fjárlög 1931

Jón Sigurðsson:

Við þm. Skagf. höfum borið fram viðaukatill. við till. hv. 2. þm. Eyf. um að ríkið ábyrgist allt að 620 þús. kr. lán fyrir Siglufjarðarkaupstað til raforkuveitu, þess efnis, að aftan við till. bætist: enda fái Fljótamenn rafmagn hjá orkuverinu með kostnaðarverði, svo mikið, sem raforkuráðunautur landsstjórnarinnar telur hæfilegt eftir mannfjölda.

Ástæðurnar til þess, að við höfum borið fram þessa brtt., eru þær, að orkuverið, sem Siglfirðingar ætla að byggja, á að fá vatnsafl úr Skeiðsfossi í Fljótum, en til þess að slíkt megi takast, verður að hækka fossinn, en við það myndast lón, 119 ha. að flatarmáli, fyrir ofan Stífluhóla, og verður það til þess, að beztu engi sveitarinnar eyðileggjast. Þannig missir önnur bezta jörðin í sveitinni, Tunga, 52 ha. af engjum sínum, og verður þessi bezta engjajörð sveitarinnar þannig svo að segja engjalaus, og því um lítið bú að ræða á henni, samanborið við það sem verið hefir. Eigandinn mun sjálfur fá metinn skaða sinn, en þó að hann fái sitt tjón þannig bætt, kemur það sveitinni ekki að notum í heild sinni. Sveitin missir einhvern sinn bezta gjaldanda, og er því ekki ósanngjarnt, að henni í staðinn gefist kostur á að fá hæfilegt rafmagn með kostnaðarverði. Vænti ég þess, að hv. þd. sé okkur flm. þessarar brtt. sammála um, að hér er ekki farið fram á neitt ósanngjarnt, ekki sízt, ef litið er til þess, hversu tilfinnanlegt það er fyrir fátæka sveit að missa einn af sínum beztu gjaldendum.

Ég þykist ekki þurfa að mæla fleiri orð með þessari sanngjörnu till., en úr því að ég stóð upp á annað borð, vil ég ekki láta hjá líða að svara hv. frsm. nokkrum orðum út af því, sem hann sagði í sambandi við þá till., sem við þm. Skagf. höfum leyft okkur að bera fram um styrkveitingu til raforkuveitu um Skagafjörð.

Ég get að vísu þakkað honum fyrir þá yfirlýsingu, sem hann gaf, að Skagafjörður ætti að sjálfsögðu að vera það hérað, sem fyrst nyti styrks. Annars sagðist hv. þm. undrast það kapp, sem við þm. kjördæmisins legðum á að fá þennan styrk. Ég ætla ekki að færa fram ástæður fyrir þessu. Það var gert við 2. umr. Aðalmótbára hv. frsm. var, að þetta væri meiningarlaust, meðan n., sem stj. hefði skipað fyrir stuttu síðan, hefði ekki tekið ákvarðanir sínar enn, né fullnaðarrannsókn farið fram um heildarskipulagið. Á meðan væri ekkert vit að fara að veita fé í þessu skyni. En það vill nú svo til, að þessi hv. n. hefir gefið umsögn sína og gert þá bráðabirgðatill. um þetta mál, að ríkissjóður verji allmiklu fé í svokallaðan raforkusjóð. Ég veit ekki betur en að hún telji mjög æskilegt, að byrjað sé á því nú þegar. Og n. viðurkennir fyllilega, að Skagafjörður sé eitt af þeim héruðum, sem standi langnæst að hjálpa til að koma upp raforkuveitum. Hér er því ekki farin önnur gata en n. hefir hugsað sér og í fullu samræmi við till. hennar. Þar með eru ástæður hv. frsm. alveg dottnar úr sögunni, nema hann vilji kannske hengja sig í það, að nafn Skagafjarðar er tengt við þetta. En ef honum væri það hugþekkara, mætti nema það burt, enda mætti líka treysta hv. Ed. til þess.

Hann fór líka að tala um, að afla þyrfti fjár til slíkra hluta. Og hann sagði, að þessar framkvæmdir ætti að gera fyrir tekjuafgang í einstökum góðærum. Þessar framkvæmdir mundu að sjálfsögðu, ekki síður en vegagerðir og brúabyggingar, njóta góðs af þeim. En þetta, að ég ætlaðist til, að eingöngu yrði notað afgangsfé ríkisjóðs til raftaugalagninga, er útúrsnúningur. Hv. þm. hefir tekið hann eftir hæstv. forsrh., sem var að japla á honum hér í deildinni fyrir skömmu. Hv. þm. hefir ekki þótt jórtrið fulltuggið. Mig undrar ekki, þó að honum þyki vandkvæði á að veita 50 þús. kr., þegar hann hugsar til þeirrar fórnar, sem hann hefir fært með því að taka aftur till. sína um styrkinn til farfuglafræðingsins, kr. 1.500, og lét svo um mælt, að hann gerði það til þess að bjarga fjárhag ríkissjóðs. Hann er auðvitað svo hundgenginn stj., að hann ætti að vita manna bezt, hvað líður fjárhag ríkissjóðs og hversu núverandi stj. hefir komið honum á kné. En satt að segja hélt ég ekki, að hann væri svo aumur, að það væru bjargráðin við hann að taka aftur 1.500 kr. hækkunartill.

Ég vænti þess, að þessari till. okkar verði mætt með, enn meiri skilningi en við 2. umr.: till. var þá felld með jöfnum atkv., en nú vænti ég þess, að einhver góður liðsmaður bætist í hópinn til stuðnings þessu merkilega nauðsynjamáli.