07.02.1930
Neðri deild: 17. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 630 í C-deild Alþingistíðinda. (1161)

36. mál, járnbraut frá Reykjavík til Ölfusár

Einar Jónsson:

Ég hefði vel getað fallið frá orðinu, ef ekki hefðu fleiri verið búnir að biðja um það. Ég vildi aðeins óska þess, að þetta mál yrði ekki tafið um skör fram með erjum og þrætum. Þó að hæstv. forsrh. hafi verið álasað fyrir gerðir sínar í þessu máli, þá get ég ekki tekið undir það né verið því samþykkur, eins og honum hafa nú farizt orð. Ég ætla ekki að kýta við hv. 1. þm. Skagf., þó að hann byrjaði ræðu sína með því að álasa mér fyrir að þakka hæstv. forsrh. undirtektir hans í þessu máli, því að batnandi manni er bezt að lifa.

Ég get borið um það, að á pólitískum fundi á Ægissíðu 1927, þegar við síra Jakob í Holti buðum okkur fram til þings, þá voru þeir Jón Þorláksson. og hæstv. núv. forsrh. þar mættir, og Jón Þorláksson gerði fyrirspurn til hæstv. ráðh. um, hvaða afstöðu hann tæki til járnbrautarmálsins. Þá lýsti hann því yfir, að hann mundi verða stoð og stytta bændanna í því máli sem öðrum. En á næsta þingi á eftir kom það í ljós, að hann sagði nei við málinu, þegar fylgismenn þess sögðu já. Áleit ég því, að hann hefði ekki uppfyllt gefin loforð. En ef hann heitir því nú að efna sín góðu loforð, þá vil ég taka það í fullri alvöru og vera honum þakklátur fyrir. (MG: Það er fallegt að vera lítillátur). Já, það þarf ég oft að vera. Samgöngurnar þarf að bæta á einhvern hátt; það er lífsspursmál fyrir Suðurland. Og eins og ég hefi áður tekið fram, þá er um þrjár leiðir að ræða í því efni: bætta bílvegi, flugferðir eða járnbraut. Og ég hygg, að járnbrautin sé tryggasta úrlausnin.

Ég er mjög þakklátur hv. 1. þm. Skagf. fyrir áhuga hans á þessu máli, því að hann hefir alltaf reynzt þar sanngjarn og óbrigðull. Og þó að hann hafi nú varpað svæsnum orðum í garð hæstv. forsrh. og álasað mér fyrir þakklæti mitt til hans, þá vil ég taka vel hlýjum orðum til þessa máls, hvaðan sem þau koma.

Hv. 1. þm. Skagf. minntist á, að við flm. þessa frv. værum heldur lítilþægir, að vilja fresta framkvæmdum þessa máls í tvö ár. Ég skal játa, að ég treysti mér ekki til að ganga lengra en þetta. Og ef þessu máli verður framfylgt á þann hátt, sem við bendum á í frv., þá er ég ánægður. En það þýðir ekkert að halda samgöngunum í því ástandi, sem þær eru nú; það væri sama sem að kveða upp dauðadóm yfir landbúnaðinum í þessum héruðum austanfjalls, og einnig yfir kaupstöðunum Reykjavík og Hafnarfirði.

Ég ætla ekki að fara að ýfa sakir við hæstv. forsrh. vegna afstöðu hans til „Títans“. Sumir segja, að maður eigi aldrei að fyrirgefa, en ég aðhyllist ekki þá kenningu. Hæstv. ráðh. steig þá það spor, sem hann hefði ekki átt að gera, og það varð bændum til hins mesta ógagns. –Títanfélagið sendi menn hingað til Rvíkur á síðasta þingi með sannanir þess, að fé væri fyrir hendi, en hæstv. ráðh. trúði því ekki og neitaði því um sérleyfið.

Hvað á þá að gera út af þessum aðförum? Sumir vilja ekki fyrirgefa hæstv. ráðh., en ég álít, að það eigi að gera vegna stefnubreyt. hans í þessu máli nú, að öðru leyti en því, að á þeim tíma, sem sérleyfið átti að veita, og þar sem þingið sat á rökstólum samtímis, áttu ráð þess að gilda, eigi síður en hans, og þetta atriði er ég tregur til að fyrirgefa honum.

Hæstv. forsrh. segir okkur hér, að hann hafi gert þetta af þjóðernisástæðum, af velvildarhug og umönnun fyrir þjóðinni. Það má segja mér þetta tíu sinnum eða einu sinni — það er sama hvort er —, ég trúi því ekki samt. Það var engin þjóðernishætta á ferðinni, þó að þetta væri reynt. En það tjáir ekki að sakast um orðinn hlut. Nú kemur nýtt til mála; nú á að reyna á drengskap þingmanna, hvort þeir vilja fylgja okkur í því, sem við förum fram á af mestu nauðsyn þeirra héraða, sem þar eiga hlut að máli, eða þeir vilja spyrna fæti við því.

Ekki fullnægir mér að heyra það, sem hæstv. forsrh. var að skýra okkur frá, þar sem hann var að lýsa yfir því, að nú væri kominn snjóbíll, sem gæti haldið leiðinni opinni, hvernig sem viðraði. Þau tæki hafa verið reynd svo oft, að ég trúi ekkert á slíkt, enda þótt þetta verkfæri kunni kannske að vera eitthvað fullkomnara en fyrri samskonar tæki.

Þegar ég fór hingað suður til þings, voru komin snjóþyngsli svo mikil, að ekki varð komizt ríðandi lengra en að Hellisheiði, og var þar tekið á móti okkur með hestum og sleðum. Þegar komið var niður úr snjóþyngslunum, vorum við komnir á stað, er heitir Sandskeið. Þar tóku á móti okkur bifreiðar, og hafði veginum verið haldið opnum þangað upp eftir með stöðugum mokstri, en tveim dögum síðar voru allar geilar, sem grafnar höfðu verið í skaflana á veginum, orðnar fullar, og sjá því allir, hvert lið verður að slíkum vinnubrögðum, enda er það sannast að segja, að heldur vildi ég vita til þess, að þeir menn, sem þurfa að fá peninga fyrir slíka vinnu, væru látnir sitja þurrir og hreinir heima á heimilum sínum og greidd venjuleg daglaun heldur en að þeir væru sendir út til slíkra vinnubragða. En það má búast við, að svona haldi áfram, þangað til búið er að yfirbyggja nær allan veginn, en eins og ég sagði fyrr, þá er það álit allra kunnáttumanna, að þessi aðferð verði miklu dýrari heldur en sú, að leggja járnbraut. Það er mikill skaði, ef austurhéruðin fá engar samgöngubætur, og engu minni skaði er það, að Hafnarfirði og Reykjavík er að engu bætt það tap, sem þau líða við vondar samgöngur við austurhéruðin, en það er hv. þm. að skera úr, hvað gert skuli til að bæta úr því böli.

Ég er einn af þeim austanmönnum, sem líta svo á, að þessu samgöngumáli okkar verði aldrei komið í það horf, sem þarf, nema með járnbraut, en ég vildi óska þess, að þetta mál þyrfti ekki að valda þrætum, hversu þeim samgöngubótum skuli háttað, sem hér þarf að koma á. Heldur vildi ég mega vona, að einhverjar bætur yrðu á ráðnar og einhverjar ákvarðanir teknar þegar á þessu þingi. Höfum við flm. þó ekki séð okkur fært að fara fram á það, að nú þegar yrði hafizt handa.