20.03.1930
Neðri deild: 58. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 303 í B-deild Alþingistíðinda. (117)

1. mál, fjárlög 1931

Hákon Kristófersson:

Ég vil beina til hæstv. forseta fyrirspurn um, til hvers menn eiga að vera að tala fyrir till. sínum, þegar hv. þdm. eru hér og þar á stjái. (Rödd af þingbekkjum: Þeir koma í hópum). Annars ætla ég, ekki að tala langt mál fyrir þessum till. mínum, því að ég minntist á þær í gær. Hvorug þeirra hefir fundið náð fyrir augum hv. n. Ég ætla ekki að gera ráð fyrir, að það hafi haft nein áhrif, hver var flm. þeirra; ég vil ekki geta til um jafnágæta menn og í n. sitja, að þeir láti „pólitík“ hafa slík áhrif á sig. (BÁ: Nei, nei). Nei, nei, segir hv. frsm. Það er ánægjulegt að heyra. Hann fór mjög hógværum orðum um till. mínar. (BÁ: Ég þorði ekki annað). Á, já, var þá tilhneiging til annars. Holdið er þá veikt. Hann talaði um styrkinn til Árna Þórarinssonar prófasts og sýndi sinn góða hug til þessa merka heiðursmanns með því að koma með brtt. við varatill. mína. Hvort hann hefir sýnt þar höfðingsskap sinn allan, er erfiðara að dæma um. Ég verð að segja, að honum hefði verið betra að sýna hann ekki. (BÁ: Á ég þá að taka till. aftur?). Ja, af því að okkur er orðið vel til vina, vildi ég mælast til, að hann gerði það sín vegna. Ég kann því illa, þegur maður, sem um marga tugi ára hefir unnið fyrir þjóðina með smánarlaunum, vill svo fara að starfa að mestu áhugamálum sínum, en fær engan styrk. Og það er sagt, að fjárhagur landsins sé svo bágur, að það sé ekki hægt. En einum útvarpsstjóra er hægt að veita 9–10 þús. kr. í laun. Þarna sér maður mjög svo mikið ósamræmi í hlutunum. Það virðist vera þannig í landi hér, að eitthvað annað en það, sem á að vera, haldi í stjórnartaumana. Auðvitað er það lofsverður áhugi, sem kemur fram hjá n., að gæta sem bezt fjárhags ríkisins. Hv. frsm. hefir sýnt hann, eins og hv. 2. þm. Skagf. benti á, með því að taka aftur till. sína vegna þessa farfuglafræðings. En þegar litið er á önnur útgjöld svo sem þær fúlgur, sem ríkissjóður verður að gjalda samkv. einstökum frv., sem hér hafa verið samþ., þá verða 1.500 kr. ekki mikil upphæð.

Hæstv. fjmrh. fór allmörgum hógværum orðum um hina ýmsu hreppa, sem vildu fá eftirgjöf á viðl.sj.lánum sökum erfiðra kringumstæðna. Annars býst ég ekki við, að hægt hefði, verið að fá leiðréttingu á þessum hlutum. Enda er nú orðið of seint að koma með brtt., þar sem nú er 3. umr., og svo er líka þýðingarlaust að vera að því, eins og samkomulag er nú hér í deildinni og samtökin sterk þegar um fjárl. er að ræða. Það er Patreksfjarðarhreppur, sem skuldar langmest. Hæstv. fjmrh. sá sér ekki fært að leggja til, að nein eftirgjöf verði veitt, því að hann byggði á því, að svo mikil útgerð væri á Patreksfirði. En hún heyrir ekki öll til því byggðarlagi, heldur öðrum. Mér er sagt, að þar séu skrásett skip, sem ekki hafi nokkurn tíma átt þar heima, t. d. skip, sem í einhverju millibilsástandi voru eign Einars Jónassonar fyrrv. sýslumanns, en þó að þau væru skrásett, hafa þau að minni vitund aldrei komið þangað.

Hv. þm. V.-Ísf. sagðist hafa tekið till. út úr þessum beiðnatill. og borið hana fram við þessa umr. En það er væntanlega af því, að hann hefir vitað um stj. og vilja hennar. Við því er náttúrlega ekkert að segja. Eftirgjöf Árneshrepps tel ég ekki eftir, því að ég býst við, að hún hafi verið markleg, fyrst hæstv. fjmrh. féllst á hana. Um rafveituna á Patreksfirði var talað í fyrra, og þá lá hér fyrir mjög rækilegt bréf um ástand hennar. Hún er ónóg fyrir byggðarlagið og þarf að byggja í viðbót fyrir 30–35 þús. kr., ef með er tekinn kostnaður af nauðsynlegum lagfæringum. Hreppnum er ofvaxið að standa undir því. Hann er einmitt í kröggum vegna þessara framkvæmda, sem gerðar voru á ófriðarárunum, þegar enginn maður gat séð fyrir, hvaða endi fyrirtækið hefði, þegar það var byrjað. Rafstöðin átti að kosta 35 þús. kr., en komst að lokum upp í 90 þús. kr.

Um eftirgjöf til ostabús Önfirðinga hlýtur að gilda líkt og um brtt. hv. þm. Borgf. við frv. um eftirgjöf vegna Skeiðaáveitunnar. Það mátti ekki samþykkja þær brtt. af því, að málið væri komið undir Búnaðarbankann. Eins er með þessa brtt. hv. þm. V.-Ísf. Annars er ég ekki að mæla á móti henni. En alþjóð krefst þess, að sanngirni sé gætt í hvívetna, og sérstaklega, að landsstj. og Alþingi séu þar fyrirmyndin, og að það fari ekki eftir hagsmunum einstaklinga úr hinum ráðandi flokki, hvað fær að ganga hér fram og hvað ekki.

Að gefnu tilefni vildi ég beina einni fyrirspurn til fjvn. og vona, að hv. frsm. svari mér. Náttúrlega gera fjárl. ráð fyrir, að þeir símar, sem þau ákveða fjárveitingar til, verði ekki lagðir fyrr en á næsta ári. (PO: Já, 1931). Nú spyr ég hv. frsm. að því, að ef einhverjir, hreppar t. d. sæju sér svo brýna nauðsyn að koma þessu í framkvæmd á komandi sumri, að þeir réðust strax í verkið, myndu þeir þá .... (BÁ: Ég er ekki frsm. þessa kafla, það er hv. 1. þm. Árn). Jæja, þá vona ég, að hann sýni mér þann sóma að láta mig fá að heyra sína skoðun. En hv. frsm. síðari kaflans má ekki taka mér það illa upp, þó að mér verði starsýnt á hann. Hann er svo fallegur maður, og líka svo meðmæltur mínum till.

Ég vildi vita, hvort ekki mætti treysta því, að þeir hreppar, sem ég var að tala um, fengju endurgreiddan kostnað sinn í sumar og nýta þeirra kjara, sem gert er ráð fyrir í nál. n.

Þá kem ég að seinni till. minni. Ég gat þess þegar ég minntist á hana áður, að atvika vegna væri mér illa við að fara um hana mörgum orðum. En úr því að hv. n. hefir neytt mig til þess; þá sé ég ekki eftir mér til þess. Þetta á að fara til Kristínar Jónsdóttur, ekkju séra Bjarna Símonarsonar á Brjánslæk, Hv. n. lagðist á móti af sparnaðarástæðum. Hún vill ekki rasa fyrir ráð fram, Hún vill ekki skapa fordæmi. Hvers vegna gerir n. svo mikið úr, að það skapi fordæmi, ef ekkju prests, sem lengi hefir þjónað erfiðu embætti, er veitt svolítil viðbót, einar 300 kr. við smánarlega lág eftirlaun? Látum svo vera, að það skapi fordæmi, segjum, að það kæmu 10–12 prestsekkjur, sem fengju svo sem 50 kr. hækkun hver til jafnaðar. Skyldi ríkissjóður hallast af þessu? Skyldi ekki muna meir um eitthvað annað? Hitt mætti kannske segja, að annar aðili hefði skyldu til að greiða slík eftirlaun; það eru þeir, sem notið hafa um mörg ár ávaxtanna eftir vel unnið starf. En n. hefir ekki dottið í hug að skríða undir það melbarð. Þegar talað er um fordæmið, mætti minnast þess, að laun ljósmæðra ýmissa geta hækkað upp í 500 kr. (SE: Ég held, að það sé ekki of mikið). Ég var heldur ekki að telja það eftir.

Svo er enn ein ástæðan ótalin, sem n. hefir flutt fram, að ég hafi ekki munað eftir að ráðfæra mig við hans hávelborinheit herra biskupinn um þetta. Var það furða, þó ég teldi það enga skyldu mína, að gera mér ferð suður í Tjarnargötu til þess að spyrja herra biskupinn, hvort honum mætti þóknast að leyfa mér að bera fram þessa sjálfsögðu mannúðar- og réttlætiskröfu. Mér har auðvitað engin skylda til slíks, enda kom mér aldrei til hugar að leita fulltingis úr þeirri átt, því það væri að fara úr skaðanum í voðann, að leita á náðir jafnvel enn meiri nánasar en hv. fjvn. (Hlátur). Já, það verður að segja afdráttarlausan sannleikann um þessa menn, sem eru að leggja stein í götu góðra mála, með því að hanga í óverulegum formsatriðum, en brestur hug til þess að ganga fram fyrir skjöldu og skýra afdráttarlaust frá því, hvað þeir vilja í raun og veru. Þeir eru að skjóta sér bak við ímyndaða hluti, til þess að þurfa ekki að koma til dyranna eins og þeir eru klæddir. Slíkar hlekkingar verðskulda enga hlífð. (HG: Vel mælt).

Hvað snertir þessar till. mínar, þá trúi ég því ekki að óreyndu, að öll n. standi óskipt um þessa fádæma lítilmennsku, sem fram kemur í undirtektum hennar. Og ég verð að vona það í lengstu lög, að hv. deild muni líta á þetta með meiri sanngirni en n. og að hún samþykki þessar till. þegar þar að kemur. Ég ætla að biðja hæstv. forseta að hafa nafnakall um þær, til þess að skrásett verði nöfn þeirra þjóðhöfðingja, sem á því herrans ári 1930 sáu þá einu leið til þess að rétta við fjárhag landsins, að fella þessar smávægilegu till. mínar, sem öll mannúð, sanngirni og réttlæti mælir sterklega með. Ég verð að leyfa mér að segja til þeirra, er að þessum sparnaðarráðstöfunum standa: „Skjóttu geiri þínum þangað, sem þörfin meiri fyrir er“. Það virðist nefnilega svo, sem þessum sparnaðarpostulum séu ærið mislagðar hendur, einkum ef þeir menn eiga í hlut, sem hentast þykir að gera vel við af pólitískum ástæðum. Er þar skemmst að minnast, að hinn nýi útvarpsstjóri, sem er byrjunarmaður, hefir samt miklu hærri laun en bæði landssímastjóri og vegamálastjóri, sem þó eru báðir búnir að gegna embættum sínum í mörg ár. Þetta litla dæmi, sem er eitt af mörgum, nægir til þess að sýna, hversu mikil alvara liggur að baki þessu sparnaðarhjali. Og það er að endemum, að hinir sömu menn, sem leggja blessun sína og samþykki yfir allan hinn óhæfilega og óforsvaranlega fjáraustur stj., skuli nú geta fengið af sér að mæla á móti þessum till. mínum, sem fara fram á nokkur hundruð krónur til handa því fólki, sem þjóðfélagið stendur í stórri þakkarskuld við og allir hljóta að viðurkenna, að eigi annað skilið en að líða örbirgð og skort í ellinni.

Já, ber er hver að baki nema sér bróður eigi. Einn virðulegur hv. þm. var að ganga framhjá mér og skaut dálitlu að mér, sem ég ætla að minna hv. fjvn. á. Hvernig litu þeir háu herrar á ummæli hr. biskupsins um Hólmasöluna í fyrra Ég man ekki betur en að þá þættu till. hans að litlu hafandi, og var þó þá um stærra mál að ræða en nú. En þegar um er að ræða lítilfjörlega fjárveiting, þá rísa þessir menn upp í heilagri vandlæting yfir því, að ekki skuli hafa verið leitað umsagnar hans hávelborinheita. Hvenær halda þessir menn að taka megi mark á vorum velæruverðuga biskupi og hvenær ekki?

Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri.

Ég vil svo biðja þann hluta n., sem svo drengilega hefir tekið í þetta mál mitt, að tileinka sér þessa þakklætiskveðju mína. Hinir þurfa þess ekki.