18.03.1930
Neðri deild: 56. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 634 í C-deild Alþingistíðinda. (1170)

47. mál, myntlög

Flm. (Ásgeir Ásgeirsson):

Það hefir dregizt alllengi, að myntlagafrv. væri tekið á dagskrá. Er það sök okkar flm. Ástæðan er sú, að útlitið var slíkt fyrir skemmstu, að vafasamt var, hvort rétt væri að setja myntlög á þessu ári. Þegar það ástand breyttist og hið mikla mál, Íslandsbankamálið, sem legið hefir sem farg á þinginu, var afgr., fannst okkur fyrst tími til kominn að halda áfram þessu frv.

Myntlagafrv. var rætt allmikið á síðasta þingi. Það eina, sem nýtt er í málinu að þessu sinni, er álit próf. Gustav Cassels um það, hvort heppilegt sé að breyta til um mynteiningu og taka upp aftur gömlu Norðurlandakrónuna, eða halda áfram þeirri mynteiningu, sem gilt hefir hér á landi frá 1925. Ég mun ekki við þessa umr. hefja deilur um það atriði, og læt mér nægja að vísa til hins skýra og skorinorða álits hins heimsfræga prófessors. Ég óska, að málinu verði vísað til fjhn. og hún athugi svo, hvort mögulegt muni vera að ná því samkomulagi milli flokka, sem nauðsynlegt er til framgangs málinu. Þegar frv. kemur svo aftur frá nefndinni, er tími til að ræða nánar möguleikana. (Einhver þm.: En ef n. skilar nú ekki af sér?). Það fer eftir því, hve vel gengur að ná samkomulagi, en án samkomulags einhverra tveggja flokka nást engin úrslit á þingi, þar sem enginn flokkur hefir hreinan meiri hluta.