18.02.1930
Neðri deild: 30. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 642 í C-deild Alþingistíðinda. (1185)

65. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjmrh. (Einar Árnason):

Eins og hv. 1. flm. tók fram, bað ég mþn. í skattamálum, eða réttara sagt meiri hl. þeirrar n., að flytja þetta frv., og þakka ég hér með hv. flm. fyrir að hafa orðið við þeim tilmælum mínum. Þegar mér barst þetta frv. í hendur frá mþn., var orðið svo áliðið, að ég treysti mér ekki til að hafa það tilbúið, með þeim aths. og breyt., sem ég vildi á því gera, áður en þing kæmi saman. Valdi ég því þá leið að biðja hv. meiri hl. n. að flytja þetta frv., enda vissi ég þá, að hv. þm. Ísaf., sem skipaði minni hl. í mþn., ætlaði að flytja sérstakt frv. í þessu efni.

Hv. 1. flm. hefir gert grein fyrir þeim aðalbreyt., sem þetta frv. gerir á núgildanda löggjöf um tekju- og eignarskatt. Ég geri ráð fyrir, að það verði samkomulag í hv. fjhn. um að afgreiða þetta mál, því að til þeirrar hv. n. verður væntanlega bæði þessu frv. og frv. hv. þm. Ísaf. vísað, og sé því ekki ástæðu til að fara út í einstök atriði frv. að svo komnu.