28.03.1930
Neðri deild: 65. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 646 í C-deild Alþingistíðinda. (1192)

65. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Pétur Ottesen:

Ég á hér ásamt hv. 2. þm. Skagf. eina brtt. við 14. gr. Í þessari gr. er gengið inn á nýja braut, sem sé þá, að láta mismunandi ákvæði gilda, eftir því, hvar menn búa á landinu, þannig, að persónufrádráttur fari eftir því, hvort menn búa í sveitum eða kaupstöðum.

Mér virðist, að hér sé verið að fara inn á varhugaverða braut. Samkv. frv. eiga þeir, sem búa í Reykjavík, að hafa hæstan persónufrádrátt, þeir, sem búa í kaupstöðum, næsthæstan, og þeir minnstan, er búa í sveitum og kauptúnum. Þetta á víst að byggjast á því, að framfærsla sé dýrust í Reykjavík, þá í kaupstöðum og þar næst í sveitum og kauptúnum. En nú held ég, að engir útreikningar yfir dýrtíð séu til nema í Reykjavík. Þessi grundvöllur er því í lausu lofti, og vil ég í því sambandi benda á, hversu óvandlega það er hugað, að önnur ákvæði gildi í kauptúnum en í kaupstöðum. Það er svo langt frá því, að yfirleitt sé ódýrara að lifa í kauptúnum en í kaupstöðum. Grundvöllurinn er óeðlilegur, og auk þess handahóf á, hvernig þessum málum er skipað. Ég vænti því, að þessi ákvæði verði felld úr frv., og sömu ákvæði látin gilda um allt land eins og áður. Mér kemur það spánskt fyrir, að þegar löggjöfin er að reyna að hindra fólksstrauminn úr sveitunum til kaupstaðanna, þá skuli vera sett ákvæði inn í löggjöfina, sem fara í bága við þá stefnu.

Í frv. er svo ákveðið, að persónufrádráttur sé í Reykjavík 900 kr., fyrir kaupstaðina 800 kr., og 700 kr. fyrir sveitir og kauptún. Við leggjum til, að tekið verði meðaltal af þessum tölum, þannig að persónufrádráttur verði um allt land 800 kr. Með því móti er haldið þeirri reglu, sem hingað til hefir gilt, að sömu lög skuli gilda um allt land, og persónufrádrátturinn þó hækkaður frá því, sem er í núgildandi lögum.