02.04.1930
Neðri deild: 69. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 651 í C-deild Alþingistíðinda. (1198)

65. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. minni hl. (Héðinn Valdimarsson):

Fjhn. tók í sig mikinn dugnað á fundi, þar sem ég gat ekki verið viðstaddur, og afgreiddi þá það frv. um tekjuskatt og eignarskatt, sem lá fyrir n. Ég varð mjög undrandi á þessu, því að það hafði mjög lítið verið rætt um þessi frv. og þau ekki einu sinni verið lesin gaumgæfilega, eins og venja er til, og þótt einn nm. hefði átt sæti í mþn., þá var engin ástæða til að afgreiða frv. svo skyndilega. En það virðist einhver ástæða hafa verið til að hraða afgreiðslu þessa máls á fundi, þar sem ég ekki var nærstaddur.

Ég get ekki fylgt hv. meiri hl. fjhn. Hann tekur upp það frv., sem borið var fram af hv. 1. þm. N.-M. og skattanefndarmanni, og vill láta samþykkja það. Ég er aftur þeirrar skoðunar, að það frv., sem lá fyrir n. frá hv. þm. Ísaf., hefði átt að leggja til grundvallar, og eru til þess margar ástæður. Fyrst og fremst álít ég, að það séu svo litlar breyt. í þessu frv. meiri hl. frá tekjuskattslögunum eins og þau eru nú, að varla taki að gera þær einar að lögum. Sízt hefði átt að þurfa að hafa sérstaka skattamálanefnd starfandi í tvö ár til að koma saman frv. eins og þessu, sem mestmegnis er uppprentun gömlu laganna. En þær breyt., sem gerðar verða á núgildandi lögum, ef þetta frv. verður samþ., álít ég til hins verra; t. d. er ætlazt til, að persónufrádráttur eigi sér ekki stað eftir því, sem fyrir einstaklingana er þó kostnaðarliður, og hv. meiri hl. n. gerir það aðeins til samkomulags að leggja til, að þessi upphæð sé helminguð, þannig að helmingur hennar verði dreginn frá.

Nú heldur skattamálanefnd því fram, að með því að skatta nauðþurftartekjurnar, sem áður hafa verið frádráttarhæfar, muni takast að ná upp skatti, sem verði meiri en þegar persónufrádrátturinn gilti. En ég tel rangláta stefnu að lækka tekjuskattinn í ríkissjóð frá því, sem nú er, en síðan að ná sömu tekjum með því að leggja á nauðþurftartekjurnar og hækka aftur tolla, eins og kemur fram hjá skattamálanefnd og meiri hl. fjhn. Þá tekur hv. meiri hl. n. það fram, að með frv. því, sem hv. þm. Ísaf. hefir borið fram, muni minnka mikið tekjustofn fyrir bæjarfélög, en hann megi ekki skerða. — Það er vitanlegt, að tekjuskattsfrv. er aðeins einn hluti af þeim tekjuaukafrv., sem komið hafa fram frá þeim hv. þm., og að fyrir hækkun á tekjuskatti kemur aftur lækkun á tollum, þannig að tekjur ríkissjóðs aukast ekki neitt, svo að gjaldstofninn fyrir bæjarsjóðina og sveitarfélögin breytist ekki neitt. En það má geta þess, að með því móti verður töluvert auðveldara fyrir bæjarsjóðina að ná inn tekjum sínum, sérstaklega um innheimtu teknanna, vegna þess að eftir frv. hv. þm. Ísaf. mega bæjarsjóðir taka nokkurn hluta tekjuskatts og eignarskatts sem útsvar, en ekkert slíkt liggur fyrir í því frv., sem mælt er með af hv. meiri hl. fjhn.

Það eru líka fleiri hlutir í frv. hv. þm. Ísaf., sem eru betur gerðir, t. d. eru þar fram taldir dráttarvextir, ef ekki er greitt í gjalddaga; en það er kunnugt, að síðan dráttarvextirnir komu á útsvör, eru menn farnir að draga eins lengi og mögulegt er að greiða tekjuskattinn, sem er vaxtalaust lán, er miklu nemur fyrir stærri atvinnurekendur. En ef tekin væri upp dráttarvaxtareglan, sem hv. þm. Ísaf. leggur til í sínu frv., myndu peningarnir greiðast fljótar og betur fyrir ríkissjóð.

Loks vil ég minnast á eitt atriði, sem ekki skiptir litlu máli; það er um skatt á hlutafélögum. Eins og hann er nú, eftir gildandi lögum og frv. því, sem hv. meiri hl. fjhn. fylgir, þá eru það stærstu félögin, sem lengst hafa safnað sér varasjóði, sem bezt sleppa undan tekjuskattinum, en aftur á móti þau félög, sem yngri eru og minni varasjóð hafa safnað, lenda undir miklu þyngri sköttum. Hjá þessu væri hægt að komast með því að láta sömu regluna gilda um hlutafélög eins og einstaklinga, þannig að þau greiddu ákveðinn skatt af ákveðnum tekjum, en mismunur kæmi fram í frádrættinum. Þetta hefir hv. meiri hl. ekki tekið með í sínu frv., og álít ég litla ástæðu til að hlífa þeim, sem sterkastir eru og grónir á móts við þá, sem eru ungir og vaxandi.

Af öllum þessum ástæðum verð ég fyrst og fremst að álíta, að mjög litlar breyt. hafi verið gerðar frá fyrri skattalöggjöf, og í öðru lagi, að miklar breyt. ætti að gera, en sem ekki hafa verið gerðar af n. Legg ég því eindregið á móti þessu frv. og legg til, að það verði fellt.

Ég er satt að segja mjög undrandi yfir því, að báðir stærstu flokkar þingsins hafa gengið saman í fjhn. og skattamálanefnd og vilja halda þessum málum óbreyttum, og sömuleiðis í tollamálum, því að fyrr meir hafði maður heyrt því haldið fram, að stefna þeirra í skatta- og tollamálum væri allólík, en ef flokkarnir ganga svo saman sem í þessum tveimur nefndum, þá er engu slíku til að dreifa, heldur verður úr þeim einn flokkur. En ég er viss um það, að þetta mun ekki síður vekja undrun um allt land, því að margir kjósendur Framsóknarflokksins hafa vonazt til þess, að hann mundi gera skattalöggjöfina réttlátari, en ekki halda öllu í sama horfi eða gera hana ranglátari. Ég efast líka um, að þetta frv. nái fram að ganga á þessu þingi, og þá verður kannske tækifæri til fyrir kjósendur landsins að láta atkv. sitt falla um það. En séu Íhalds- og Framsóknarflokkarnir sammála um fjármálapólitík landsins, ætli fari þá ekki að minnka ástæðan til að nefna þá tveim nöfnum?