21.03.1930
Neðri deild: 59. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 315 í B-deild Alþingistíðinda. (121)

1. mál, fjárlög 1931

Magnús Jónsson:

Háttv. frsm. síðari kaflans sagði fátt um flestar af mínum brtt., enda eru þær fremur, smáar og tvær þeirra endurteknar frá 2. umr. með lægri upphæðum en þá voru tilgreindar.

Þessar till. eru um utanfararstyrk til Þórðar Kristleifssonar, 1200 kr., og til upplýsingaskrifstofu stúdentaráðsins, sömuleiðis 1.200 kr. Ég tók ekki eftir því, að háttv. frsm. segði neitt um þær; og þó að þessir styrkir féllu við 2. umr. með jöfnum atkv., þá hefi ég aftur borið þá fram með lægri upphæð, sem hv. þdm. mun þykja meira við hæfi, og vona ég, að ég þurfi ekki að mæla frekar fyrir þeim nú, enda býst ég við, að þeir nái fram að ganga.

Hv. frsm. segir, að nefndin sæi ekkert athugavert við brtt. mína um utanfararstyrk til Unnar Jónsdóttur leikfimikennara; og um aðra samskonar brtt., um utanfararstyrk til Jóns Þorsteinssonar íþróttakennara, flutti hann meðmæli n. Ég er ekki á móti því, að Jóni Þorsteinssyni verði veittur slíkur styrkur; ég get verið hv. frsm. þakklátur fyrir það, að hann hefir með þessu viðurkennt rök mín fyrir því, að það er nauðsynlegt fyrir leikfimikennara að fara utan af og til og kynnast nýjungum í þeirri grein, enda þótt þeir hafi upphaflega verið vel að sér í þeim efnum og tekið góð próf. Á sviði uppeldismálanna koma sífellt fram ýmiskonar breytingar og nýjungar, ekki sízt í leikfimi og íþróttamálum. Í tíð feðra okkar og afa voru líkamsæfingar og leikfimi fólgin í því, t. d. í latínuskólanum, að æfa piltana eins og hermenn. Þeim var kennt að skilmast (hugning) og axla trébyssur, og voru margar skemmtilegar skrítlur hafðar eftir dönskum skilmingakennurum, t. d.: „Op med hauserne“! og annað því um líkt. Þetta sýnir, að hér var aðeins um lítilsháttar heræfingar að ræða, en annað ekki; leikfimi gat það ekki talizt.

Nú er þetta mjög mikið breytt, sérstaklega á síðustu árum; leikfimikennslan hefir stórum aukizt. Hver leikfimikennari finnur upp sitt sérstaka kerfi og reynir stöðugt að fullkomna það og auka. Nú eru þau ekki sniðin fyrir hermenn, heldur beinlínis til þess að efla þrótt og heilbrigði líkamans, fá fagrar og snöggar hreyfingar, og sérstaklega til þess að fólk, sem venst kyrrsetum og innivist, þjálfist við hollari og fjölbreyttari áreynslu.

Ég skal viðurkenna, að það er stutt síðan Unnur Jónsdóttir kom frá námi sínu í þessari grein, og það er eina ástæðan, sem hv. n. hefir á móti þessum styrk, að Unnur sé búin að starfa svo stutt við kennslu. En ég vil benda á, að það getur einmitt verið ástæða til þess fyrir leikfimikennara að fara fljótt utan, eftir að hann hefir byrjað á kennslu; þá vakna upp ýmsar spurningar og vandamál fyrir kennaranum, sem erfitt er að leysa úr. Þetta hefir Unnur Jónsdóttir fundið, og telur hún sér nauðsynlegt að kynnast nýjum aðferðum, sem fram hafa komið á þessu sviði. Og ég held, að það verði ekki farið eftir öðru en tilfinningu og dómgreind kennaranna sjálfra um þetta; þó að ég viðurkenni, að Alþingi verði að beita valdi sínu í þessum málum og stilla kröfunum í hóf. Mér þótti vænt um, að hv. fjvn. skyldi taka á þessu með skilningi og opnum augum. Þjóðin hefir iðkað ýmsar greinir menningar og lista um margar aldir, en í sumum greinum er hún að stíga fyrstu sporin, t. d. í leikfimi og íþróttum; og er það sameiginlegt með þeim og sönglistinni, að í þessum efnum verðum við að sækja menntun okkar og fyrirmyndir til útlanda. Þess vegna er nauðsynlegt að hafa sem flesta góða kennara í leikfimi og sönglist, og get ég verið hv. n. þakklátur fyrir skilning hennar á því. Og ég vil skjóta því til hv. þdm., hvort ekki sé fullkomin ástæða til að glæða áhuga þessarar stúlku, sem hefir reynzt svo vel í sínu starfi og sem beztu íþróttavinir hér í bænum hafa gefið svo góð meðmæli.

Ég var í fyrstu fremur tregur til að flytja þessa till. Ég er persónulega ókunnugur þessari stúlku og þekki hana varla í sjón, að ég geti sagt. Mér er þetta því ekkert tilfinningamál, hvernig fer um þessa brtt., en eftir að ég hafði átt tal við ýmsa af þeim mönnum, sem standa fremstir í íþróttalífinu hér í bænum, um þessa styrkbeiðni, þá fann ég, að þeir voru þess mjög fýsandi, enda lögðu þeir fast að mér að flytja hana.

Þá vil ég minnast á XXV. brtt. á þskj. 302, sem hv. 1. flm., 1. þm. S.-M., hefir mætt svo röggsamlega fyrir í tveimur ræðum. Till. fer fram á, að veittar verði 1.500 kr. til útgáfu allt að 20 arka af þjóðsagnasafni Sigfúsar Sigfússonar, gegn jafnmiklu framlagi annarsstaðar frá. Eini gallinn, sem mér þykir vera á þessari till., er sá, að upphæðin er of lág; safnið er svo stórt. Og ég er fyrir mitt leyti þyrstur í að fá áframhaldið af því. Ég hefði því óskað, að upphæðin væri 1/3 hærri og miðuð við, að út væri gefin 1/3 hærri arkatala. Nú má vera, að næmir bókmenntafræðingar segi ef til vill sem svo, að þó að finna megi gimsteina í þessu safni, þá sé margt í því fremur ómerkilegt. Ég get ekki sagt, að ég finni neitt slíkt í því, sem ómerkilegt geti talizt. Mestur hluti þess eru afbragðs góðar sögur, sem jafnast við það bezta, sem prentað hefir verið í þjóðsagnasöfnum okkar. Flestar draugasögurnar eru svo hamrammar, að ég efast um, að við eigum aðrar betri til í því efni. Hinsvegar verður mjög erfitt að dæma þetta mikla safn eingöngu eftir því, hvert bókmenntagildi þess er. Ég býst við að það verði ekki talið eins mikið, ef það er borið saman við þjóðsögur Jóns Árnasonar, sem að ýmsu leyti mun verða talin ein hin merkasta bók hér á landi. Með nákvæmri leit og smásálarskap mætti að líkindum tína eitthvað smávægilegt, t. d. 2/3 úr æfintýrasafninu í þjóðsögum Jóns Árnasonar, og velja úr 1/3; æfintýrin eru svo lík hvert öðru.

En ég vil líta á þessi þjóðsagnasöfn frá allt öðru sjónarmiði; ég vil að vissu leyti meta þau sem heimildarrit, eins og máldagana frá fyrri öldum. Bókmenntagildi þeirra er vitanlega smávægilegt. En þeir eru ótæmandi af menningarsögulegum fróðleik, um líf og kjör þjóðarinnar á þeim tímum, sem þeir eru ritaðir. Ef hæstv. forsrh. væri hér viðstaddur í deildinni, mundi ég skjóta þessari umsögn minni til hans, því að hann hefir mikið kynnt sér þessa fornu máldaga. Þjóðsögurnar eru að vissu leyti eins og máldagarnir, að þær geyma ótæmandi safn um sögu og siðvenjur kynslóðanna, og það er ómögulegt að fullyrða neitt um, hvað af því er gott og hvað ómerkilegt. Ein kynslóðin kann að telja það fjársjóði, sem önnur metur hégómamál.

Þetta þjóðsagnasafn Sigfúsar á Eyvindará er ekki skrifað í ígripum, heldur hefir það verið æfistarf höfundarins. Og safnið hefir því meira gildi vegna þess, að höfundurinn hefir algerlega lifað sig inn í hugsunarhátt og lífskjör og málfar þeirra manna, er hann segir frá.

Þó að ýmsir fræðimenn hér á landi hafi safnað þjóðsögum og menningarsögulegum heimildum á víð og dreif, þá er það samanlagt ekki eins mikils virði og þetta eina safn Sigfúsar á Eyvindará. Ég vil því leggja það til, að safnið verði allt gefið út. Og það getur engin afsökun réttlætt það, að dregið sé úr styrk til þess, önnur en sú, að fjárhagurinn leyfi það alls ekki, og hún verður nú að teljast létt á metunum. Einn bókaútgefandi hefir boðizt til að gefa safnið út, að fengnum nokkrum styrk til þess, og ég hygg, að það sé þægilegra að borga ofurlítinn styrk til útgáfunnar heldur en að taka hana upp þegar útgefandinn væri guggnaður við það.

Þegar stundir líða, mun þetta þjóðsagnasafn Sigfúsar verða talið eitt af því merkasta, sem gert hefir verið á þessum árum. Þessir bókmenntafjársjóðir glatast ekki, en lifa lengst og eru það merkilegasta, sem kynslóðirnar láta eftir sig.

Ég vil í þessu sambandi minna á þjóðsögur Jóns Árnasonar. Þegar þær komu út, þótti mörgum í meira lagi einkennilegt að vera að safna slíkum sögum og gefa þær út, og jafnvel þeir, sem sögurnar skrásettu, vissu ekki, að þeir voru að vinna bókmenntaafrek, sem varla á sinn líka í ísl. bókmenntum. Þær eru skrifaðar á alþjóðamáli, og þó einhver merkilegasta bók á íslenzku fyrr og síðar. Þær eru skáldskapur allrar þjóðarinnar, og við vitum sjaldnast hvaða snillingar höfðu fágað perlurnar.

Ég vil að síðustu fylgja till. þessari úr hlaði með því að leggja ríka áherzlu á það, að ekki verði tekin upp sú aðferð, að velja úr safninu af einhverju handahófi, né heldur að breyta fyrirsögnum né orðalagi í neinu. Að vísu hefir Sigfús Sigfússon sagt við mig, að sín vegna mætti breyta skiptingu og fyrirsögnum kaflanna, en ég hefi mótmælt því með öllu, að svo yrði gert. Hann þekkir þessa hluti miklu betur en nokkur annar; hann getur greint sundur margar tegundir af undraverum alveg á sama hátt og fjármaðurinn þekkir hverja kind í hjörð sinni af ættarmóti og svip, þar sem við sjáum ekki annað en hvítar kindur.

Vísindamenn geta síðar meir flokkað efnið og raðað því niður í vísindalegum útgáfum, enda mun þetta vera ein af þeim fáu bókum, sem til verða á þessum tímum, sem vísindamenn geta byggt á um aldaraðir. Það er sómi þingsins að styðja þessa útgáfu, og ég harma það eitt, að eigi skuli vera farið fram á meira fé í brtt., svo að útgáfan geti gengið örara.

Þá kem ég að XLI. brtt., sem ég ber fram ásamt hv. 3. þm. Reykv. Þarf ég að vísu ekki að vera langorður um hana, þar sem ég hefi sagt um hana það, sem máli skiptir, í fyrri ræðu minni. Ég get að sumu leyti verið þakklátur frsm. fjvn. fyrir ummæli hans um þá stofnun, sem till. hljóðar um, þar sem hann taldi, að hér væri að ræða um nytjafyrirtæki, sem hefði verið komið upp af miklum dugnaði. En ég gat ekki annað en undrazt ályktanir þær, sem hann dró af þessum forsendum, Hann lagði á móti fjárveitingunni, einkanlega af þeirri ástæðu, að þetta væri svo mikið sérmál Reykjavíkur, að hið opinbera mætti ekki veita styrk til að koma hælinu upp. Nú þarf ekki að taka það fram, að ekkert er algengara en að veitt sé fé úr ríkissjóði til fyrirtækja, sem eru sérmál einstakra héraða, og slíkt á jafnvel við um meginhlutann af fjárveitingum til verklegra framkvæmda, sem landið í heild hefir aðeins óbeint gagn af. Hv. frsm. sagði, að það væru aðeins gamalmenni úr Rvík, sem góðs nytu af hælinu, og því ætti ríkissjóður ekki að styrkja það. En Rvík leggur þó sannarlega sinn skerf í þann sameiginlega sjóð, og ef Reykjavík er að koma gamalmennaframfærslu sinni í betra horf en annarsstaðar tíðkast, því má ekki styðja þá viðleitni, ef álitið er, að verið sé að vinna þarft og gott verk? Þetta er alveg hliðstætt því, að héruð komi sér saman um að sameina sig um einn myndarlegan skóla, í stað þess að láta kenna á hlaupum, og hví mætti ekki styrkja slíkar umbætur? Þetta eru engar röksemdir hjá hv. frsm. Ef framkvæmdirnar eru þarfar, hví má þá ekki styrkja þær úr hinum sameiginlega sjóði? Ég vil líka benda á það aftur, að ástæðan til þess, að hælið er ekki komið upp, stafar af því, að Alþingi ákvað að skemmtanaskatturinn gengi til þjóðleikhússins, en ekki til elliheimilis, eins og bæjarstjórn Reykjavíkur hafði ákveðið. Hv. frsm. sagði, að sá hugsunarháttur, að héruðin fengju fé úr ríkissjóði eftir því sem þau greiddu í hann, leiddi út í ógöngur. Ég held nú, satt að segja, að Reykvíkingar greiði marga krónuna í ríkissjóð án þess að hugsa um, hvað kemur í staðinn. Ég vil t. d. benda á, að mestur hluti tekjuskattsins kemur úr Reykjavík. (HStef: Er hann ekki greiddur eftir sömu reglum þar og annarsstaðar?). Jú, en því verður þó ekki í móti mælt, að mestur hluti skattsins kemur úr Reykjavík. Reykjavík hafði komið á skemmtanaskatti í því skyni að reisa elliheimili fyrir hann, en þingið skipar svo fyrir, að skattur þessi skuli ganga til þjóðleikhúss. Hv. frsm. sagði, að Reykjavík myndi mest og bezt njóta þjóðleikhússins. Þetta getur verið, en það, sem er hér um að ræða, er það, að Reykjavík hefir aldrei beðið um þjóðleikhús.

Þegar Reykjavík hafði verið svipt þessum tekjustofni til þess að koma upp elliheimili, hófust einstaklingarnir handa í þessu efni, og með útsjón og dugnaði hefir þeim tekizt að koma byggingunni upp. En fyrir beinar aðgerðir Alþingis hafa lánskjörin orðið mun erfiðari en ella, og væri það því ekki nema fallegt af Alþingi að veita þá upphæð, sem hér er farið fram á, til að borga það lán, sem óhagstæðast er. Auk þess má á það líta, að þessi stofnun er alls ekki fyrir Reykvíkinga eina. Fólk drífur að til Reykjavíkur úr öllum áttum, og því munu gamalmenni af öllu landinu njóta þar skjóls og hvíldar í ellinni. Það væri ekki nema fallegt af Alþingi að veita þennan 1/25 hluta byggingarkostnaðarins í viðurkenningarskyni við það óeigingjarna starf, sem hér hefir verið unnið.

Ég vil nota tækifærið til að þakka hv. fjvn. fyrir að taka upp í brtt. sínar ábyrgðarheimild á 40 þús. kr. til húskaupa halda Kvennaskólanum. Hús það, sem skólinn hefir leigt hingað til, verður selt, og það verður til óbætanlegs tjóns fyrir skólann, ef aðrir kaupa það en skólinn sjálfur. Hitt er lakara, að ábyrgðarheimildin skuli ekki vera svo há sem fram á var farið; og hefir formaður skólanefndar tjáð mér, að það muni valda talaverðum örðugleikum, og ábyrgð á 45 þús. hefði verið það minnsta, sem komizt yrði af með. En þó vil ég þakka n. fyrir undirtektir hennar.

Ég vil taka undir ummæli hv. frsm. fyrri kaflans út af viðræðum hæstv. atvmrh. og hv. þm. Dal. um Vesturlandsveginn. Mér finnst sú tilhneiging hæstv. atvmrh. mjög undarleg, að vilja heldur veita fé í heimildarleysi en hafa heimild til þess í fjárlögum. (LH: Þetta er rangfærsla). Hv. þm. upplýsir þá væntanlega síðar, í hverju sú rangfærsla liggur. Hæstv. atvmrh. hefir gefið yfirlýsingu um það, að Vesturlandsvegurinn verði lagður í sumar fyrir þau 30 þús., sem eiga að vera í fjárl. 1932, hvort sem fé er veitt til þess í fjárlögum nú eða ekki, og í krafti þessarar yfirlýsingar tekur hv. þm. Dal. sína brtt. aftur. En ef nú færi svo, að önnur stjórn og annað þing væri orðin ráðandi hér í landi áður en til framkvæmda kemur; þá er alls ekki víst, að sú stj. eða það þing teldi sig bundin við þetta loforð hæstv. atvmrh., og þótt hv. þm. Dal. voni það, þá álít ég ekki rétt að vænta þess, því. að ég vil vona, að næsta stj. telji sig bundna við fjárl. þau, er þingið setur. Núverandi stj. er með þessu eins og mörgu öðru að hrifsa fjárveitingarvaldið úr höndum þingsins. Annars er nægur tími til að ræða það atriði, þar sem eldhúsdagur er nú fyrir dyrum.

Þá ætla ég að drepa lítið eitt á ummæli hv. frsm. síðari kaflans um XLIV. brtt., um styrkinn til Stórstúkunnar. Hann kvaðst fylgja brtt. sjálfur og fór hlýlegum orðum um starfsemi Stórstúkunnar, en hann hnýtti aftan í ummæli sín þeirri óskiljanlegu aths., að ef Stórstúkan ætlaði sér að fá fé hjá Alþingi, þá ætti hún að hafa sig hæga og ekki blanda sér inn í pólitískar deilur. Ég vissi satt að segja ekki, hvað hv. frsm. átti við. Ég býst við, að hann hafi átt við Þórð Bjarnason. (BÁ: Já. — ÓTh: Eða Brynleif Tobíasson). Það hefði verið hreinlegra að nefna nöfn. En þess er að gæta, að Þórður Bjarnason er ekki í Stórstúkunni, heldur í Umdæmisstúkunni og hún hefir falið honum eftirlit með kosningum. Honum er því hreint og beint lagt svo fyrir að athuga, hvort tekið sé rétt tillit til templara við framboð til kosninga. Templarar eru orðnir mjög sterkur félagsskapur, sem hefir mikilla hagsmuna að gæta, og því er ekki furða, þótt þeir láti sig kosningar nokkru skipta. Nú fóru fram í vetur hinar stærstu kosningar á Íslandi, er 15 bæjarfulltrúar voru kosnir í einu. Þessi gæzlumaður leit yfir listana og skrifaði stutta grein í Vísi, þar sem hann segir, að á lista jafnaðarmanna. séu fjórir templarar í vonarsætum, ellefu á lista Sjálfstæðismanna, en enginn á lista Framsóknar. Hann segist því ráða templurum til þess að kjósa annaðhvort A- eða C-lista, en greiða hinsvegar B-listanum alls ekki atkvæði sitt. Út af þessari grein rýkur svo hæstv. forsrh. upp og skrifar bréf eitt af miklu monti og yfirlæti, þar sem hann gortar af því, hve mikið hann hafi gert fyrir templara, og hótaði jafnframt, að þeir skyldu fá fyrir ferðina, ef þeir ætluðu að fara að skipta sér af pólitík. (Forsrh.: Það væri gaman að heyra þær hótanir). Ég held, að kosningablaðið „Ingólfur“ sé ekki hér í lestrarsalnum. En ég ætla að lesa hér kafla upp úr bréfi því, er Þ. B. skrifaði í „Vísi“, svo að menn geti heyrt, hvað um er að ræða. (Forsrh.: Vill ekki hv. þm. lesa hótanirnar líka?)

„Frá sjónarmiði vor templara er C-listinn langsamlega bezt skipaður vorum mönnum, A-listinn sæmilega skipaður, en B-listinn hefir ekkert tillit tekið til vilja vor templara. Listinn er nær eingöngu skipaður andbanningum og því beint í andstöðu við vor málefni. Ég leyfi mér því sem umdæmisgæzlumaður kosninga að skora á templara, sem kosningarrétt hafa, að styðja A- og C-listana við í hönd farandi kosningar, en ljá B-listanum ekkert lið og greiða honum ekki atkvæði“.

Með öðrum orðum: Þ. B. gerir ekki upp á milli tveggja aðalandstöðuflokkanna, en varar hinsvegar við Framsókn.

Skömmu síðar skrifar forsrh. grein sína, er ég drap á áður, og rétt á eftir skrifar Páll Ólafson stórtemplar auðmjúka grein í „Ingólf“, þar sem hann hrósar hæstv. forsrh. á hvert reipi. Þar komst pólitíkin inn í málið. Og það er einmitt þessi auðmýkt hjá stórtemplar, sem bendir á það, að hæstv. forsrh. hafi haft í hótunum við Stórstúkuna. Ég skal nú að vísu ekki draga í efa, að Framsóknarflokkurinn sé hlynntur bindindismálinu, enda þótt hann tæki ekkert tillit til templara við bæjarstjórnarkosningarnar. En þó er víst, að meira hefir verið um fjálgleik en framkvæmdir í því máli af hálfu flokksins.

Áður en þessi flokkur varð svo voldugur, að hann gæti ráðið lögum og lofum hér á landi, ætlaði hann að gera alla skapaða hluti, taldi það hneykslanlegt, hve margar vínbúðir störfuðu hér, og bar fram till. um að skora á stj. að segja upp spánska samningnum. En það kom að því, að þegar þessir góðu menn komust til valda, þá sviku þeir flest sín loforð. Það eina, sem þeir hafa gert, er það, að fræðslumálaráðherrann hefir tekið sig til og viljað kenna mönnum að drekka vinið eins og kaffi. En stórtemplar rís upp og segir, að enginn stjórnmálaflokkur hafi gert eins mikið fyrir templara eins og Framsóknarflokkurinn. En svo vil ég segja það, að það er algerlega ósæmilegt, ef sú stefna á að verða ráðandi hér, að til þess að geta fengið styrk af opinberu fé, þá verði menn sviptir skoðanafrelsi. Það keyrir langt úr hófi, ef þeir, sem eru í stórstúku Íslands, mega ekki hafa sínar skoðanir í stjórnmálum. Það væri t. d. nokkuð hart, ef allt Leikfélagið í Reykjavík ætti að vera fylgjandi Framsóknarflokknum, til þess að hafa nokkra von um að fá styrk af opinberu fé, á meðan Framsóknarflokkurinn fer með stjórnina. Nei, það var stórdrengilegt af gæzlumanni kosninga að rísa upp og bregðast ekki skyldu sinni, og hann, gerði alveg rétt að því leyti sem hann mælti með ákveðnum listum.

Þá vildi ég vekja athygli á einni mjög varhugaverðri brtt. á þskj. 302, LI., frá nokkrum þm., um að veita 85 þús., kr. styrk til Eimskipafélags Íslands, þannig, að í stað þess að veita hann sem rekstrarstyrk, þá skuli kaupa fyrir hann hlutabréf í félaginu. Ég vil vara hv. d. við því að samþykkja þessa brtt., af þeirri ástæðu, að ef þessi brtt. er samþ., þá er það alveg það sama og að svipta félagið þessum styrk. Og hv. þd. verður að gera það upp við sig, hreint og klárt, hvort hún vill veita félaginu þennan styrk eða ekki. Það er sem sé fyrir það fyrsta það, að það er ákvæði í samþykkt Eimskipafélagsins, sem beinlínis tekur það fram, að hlutafjáraukning í félaginu má ekki fara fram öðruvísi en með almennu hlutaútboði. (Nokkrir þm: Innanlands). Það er ekki heimilt að auka hlutaféð með annari aðferð en almennu hlutaútboði, og því getur stjórn félagsins ekki tekið við slíku sem þessu. Það mætti náttúrlega segja, að það væri ekki annað en að breyta samþykktunum, en ég hygg, að þær ástæður, sem upphaflega voru fyrir hendi, séu ennþá í fullu gildi, og það er rangt að vilja neyða félagið til að breyta þeim til þess að geta notið styrks frá þinginu. En það er fyrst og fremst, að þetta er sett sem varúðarráðstöfun gagnvart mönnum, sem kynnu að vilja ná yfirráðum í félaginu, með því að fá stjórnina til þess að selja sér svo mikið af hlutum, að þeir gætu náð meiri hluta í félaginu svo að enginn vissi af. Því er það, að alltaf verður, ef á að auka hlutaféð, að fara fram almennt hlutaútboð innanlands; það er þessvegna nægileg ástæða til að fella þessa brtt., því að samþykkja hana, það er sama og að haga svo til, að stj. félagsins geti alls ekki tekið við fénu. En þar að auki eru ýmsar ástæður til þess að þetta er ekki sanngjarnt eða skynsamlegt á neinn hátt. Fyrst er það, að þessi styrkur, 85 þús. kr., er bundinn því skilyrði, að félagið láti 60 farmiða milli landa, sem skiptast á bæði farrými, og það er þegar 15.000 kr., svo að raunverulegur styrkur er þá ekki nema 60 þús. kr.

En viðvíkjandi því, sem hv. 3. þm. Reykv. dró fram, vil ég benda á það, að þessi styrkur er í raun og veru ekkert annað en það, að Eimskipafélagið verður að starfa hér í samkeppni, og helzt í samkeppni, sem það stendur sig vel í við hina erlendu keppinauta. Við vitum ekki, hvaða völd og hvaða fjármagn kann að standa á bak við þá, og því er alveg rétt, að ríkissjóður standi á bak við Eimskipafélagið, sem er réttnefndur bjargvættur landsmanna, og þar að auki vil ég segja það, að þetta er ekki nema nokkur uppbót á strandferðastyrknum. Ég hefi, því miður, ekki hjá mér skýrslu samskonar þeirri, sem hv. þm. Ísaf. er með, en ég má segja, að strandferðastyrkurinn hefir verið óbreyttur nú í fjögur ár, en á hinn bóginn er það kunnugt, að á síðustu árum hefir Eimskipafélagið aukið strandferðir sínar mjög mikið, en að því er þann styrk snertir, þá hefir hv. þm. Ísaf. viðurkennt það, að hann mætti ekki skoða nema sem borgun fyrir unnið verk. Sérstaklega vil ég benda á það í þessu sambandi, að félagið hefir nú í smíðum nýtt, stórt skip, er mun koma í sumar eða haust í gagnið, og þá munu strandferðir Eimskipafélagsins verða svo miklar, að sambærilegar verði við þær, sem ríkið sjálft lætur halda uppi. Strandferðirnar verða þannig í sambandi við millilandaferðirnar, sem verður til ómetanlegs gagns fyrir landsmenn; en þótt það sé í sambandi, þá tefja slíkar gutlferðir skipin mjög frá millilandaferðum. Ég vil því segja það, að samanborið við þann kostnað, sem ríkið hefir af Esju, þá er það ekki mikið; þótt þessi styrkur væri ekki heldur skoðaður nema sem borgun fyrir unnið verk, og ég er viss um, að það borgar sig ekki betur fyrir félagið að fá þessa styrki, ef slík skilyrði eiga að fylgja, enda mundi félagið ekki óska að fá þá, fyrir utan það, sem félagið getur ekki tekið á móti þeim eftir sínum samþykktum. Svo vil ég benda á það, að eins og styrkurinn er ætlaður nú, er hann beinlínis ætlaður til rekstrar, þ. e. a. s. til árlegs eyðslufjár. Ef þetta er veitt sem hlutafé í staðinn fyrir styrk, þá er um tvo möguleika að ræða: Annahvort að nota hann til eyðslufjár eftir sem áður, en það er hreint „svindel“, því að það er útþynning á hlutafénu, það er einskonar eignarnám frá þeim, sem eiga hluti fyrir í félaginu. Þá er hinn möguleikinn, að féð er tekið sem aukið hlutafé og látið auka þá virkilegu eign félagsins, en þá er ekkert gagn í því fram yfir hverja aðra skuldbindingu, sem félaginu er veitt, t. d. gott lán. Það má ekki nota féð til að láta það hjálpa sér í samkeppninni.

Þessi till. er því ákaflega óheppileg og mér þykir leitt að sjá, að það skuli standa svo margir góðir menn sem flm. að henni. En ég vona, að hv. d. sjái þó, að það dugir á engan hátt að samþykkja þessa till. Það er sama og að svipta félagið þessum styrk. Hitt er það, að ég viðurkenni þá hugsun, sem hér liggur á bak við, að gott er, ef ríkið eignast meira í félaginu.

Ég ætla þá, að ekki séu fleiri till., sem ég hefi, og vil þá láta lokið mínu máli.