24.01.1930
Neðri deild: 4. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1276 í B-deild Alþingistíðinda. (1216)

19. mál, fræðslumálastjórn

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Í þessu frv. er farið fram á nokkrar breyt. frá því, sem áður var, og vildi ég í stuttu máli gera grein fyrir þeim.

Þessar breyt. eru tvennskonar. Fyrst og fremst ganga þær í þá átt, að aukið sé valdsvið fræðslumálastjóra og nokkur umbót ger á eftirliti með barnaskólum landsins. Því er svo farið með alþýðufræðslu okkar, að hún hefir þróazt án þess, að nokkur veruleg rækt hafi verið lögð við yfirstjórn slíkra mála, enda hefir aldrei verið að ræða um fast kerfi í uppeldismálum vorum. Fyrirkomulag þeirra hefir allt verið á ringulreið; einstakar hliðar hafa verið teknar til meðferðar, og síðan hefir kennslumálaráðuneytið haft stjórn þeirra með höndum. Það hefir aldrei átt til lengdar manni á að skipa, sem hefir haft sérþekkingu í þessum málum, heldur hafa lögfræðingar annazt störfin, en samkv. námi sínu og lífsstöðu hafa þeir ekki haft nein sérstök skilyrði til þess.

Það verður ekki komizt hjá því, að höfð verði sérstök yfirstjórn skólamála vorra, því að þau eru æðiyfirgripsmikil og vandasöm. Undir yfirráð þessarar stj. kæmu þá fyrst og fremst barnaskólar, unglingaskólar, sem fræðslumálastjóri hefir ekki haft eftirlit með að lögum, og svo æðri skólar, sem njóta styrks af ríkinu.

Því er svo farið með þessa svokölluðu æðri skóla, sem ríkið á að sjálfsögðu að styrkja, að þeir standa beint undir eftirliti stjórnarráðsins og forstöðumenn þeirra snúa sér eingöngu til þess. Þessir forstöðumenn hafa að jafnaði verið valdir þannig, að þeir hafa haft sérþekkingu í þessum málum, enda er það eðlilegt fyrirkomulag. Ef við athugum fræðslumálin nánar, sjáum við, að undanfarið hafa einstakar hliðar þeirra smáþokazt áfram án þess að þau væru tekin í heild, og þá er það auðsætt, að það er ekki rétt að láta þessi mál vera eins forstöðulítil að sérfræði til og verið hefir. Ástandið er nú nokkuð svipað því, ef vegamálastjóri hefði aðeins eftirlit með vegum á Suðurlandi, en vegirnir fyrir norðan og austan stæðu beint undir atvinnumálaráðuneytinu.

Hér í Reykjavík eru nú t. d. 10 skólar ríkisreknir eða styrktir af ríkinu, en þrátt fyrir það hefir aldrei verið haft eftirlit með þeim nema af skrifstofum í stjórnarráðinu og þeim mönnum, sem starfa að skólunum fyrir fræðslumálastjórnina. Þessi hluti frv. miðar að því, að kennslumálin fái sérfróða yfirstjórn, sem nái til allra barnaskóla, unglingaskóla og æðri skóla, að háskólanum einum undanteknum. Það kann vel að vera, að þetta hafi lítið eitt aukin útgjöld í för með sér, en þó vil ég benda á það, að aukning útgjalda til kennslumála er mikil frá ári til árs, og síðar skal ég benda mönnum á, hvað það hefir kostað landið að hafa ekki vakandi húsbóndaaugu með þessum málum.

Viðvíkjandi þeim útgjöldum, sem af þessu kynnu að leiða, er það að segja, að gert er ráð fyrir launahækkun handa fræðslumálastjóra. Það er alkunnugt, að ríkið borgar starfsmönnum sínum svo illa, að t. d. biskup og landlæknir eru ekki hálfdrættingar við venjulega fróða verzlunarmenn. Ég get í þessu sambandi getið þess, að við, sem erum í alþingishátíðarnefndinni, höfum fengið ágætan mann til að hafa umsjón með undirbúningnum fyrir okkur, en það var engin leið að fá hann fyrir minna kaup en tvöföld biskupslaun. Við erum hinsvegar ánægðir með þetta, sökum þess, að við treystum manninum vel. Ef fræðslumálastjóri ætti ekki að fá nema 1/3 af því, sem verzlunarmönnum er venjulega borgað, þá er þess engin von, að þeir kraftar fáist lengur í embættið, sem ríkið hefir æskt eftir. Laun hans eru því hækkuð í samræmi við laun annara embættismanna, sem svipað eru settir, t. d. landlæknis, vegamálastjóra og póstmeistara.

Þá ætla ég að víkja nokkrum orðum að síðara atriðinu, sem miðar að breyt. á eftirliti með barnafræðslu úti um landið. Hingað til hefir það verið síður, síðan fræðslulögin gengu í gildi, að skipaðir hafa verið prófdómendur við barnaskóla á ári hverju. Mjög oft verða sömu mennirnir fyrir valinu, en oft er breytt til og þess vegna lítil festa í því atriði. Nú er hinsvegur meiningin, að prófdómendum verði fækkað, þ. e. a. s. að einn verði hafður í hverri sýslu. Þessir föstu prófdómendur eiga svo að vera hjálparmenn kennaranna, ekki aðeins við próf, heldur einnig um ýmislegt við kennsluna. Barnaprófin hafa allt til þessa ekki gefið fullkomlega góðan árangur, en þessi breyt. verður áreiðanlega til mikilla bóta, og kostnaðurinn, sem leiðir af henni, ekki meiri en hann var áður, meðan gamla fyrirkomulagið var.

Að endingu legg ég til, að frv. verði vísað til menntmn.