24.01.1930
Neðri deild: 4. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1282 í B-deild Alþingistíðinda. (1223)

19. mál, fræðslumálastjórn

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Mér þykir leiðinlegt, að hv. 1. þm. Skagf. skyldi ekki gleðjast yfir því, að ég væri að reyna að vekja honum vonir um meiri framgang en meðferð flokks hans á honum gefur tilefni til.

Um það, hvað þessi aðstoðarmaður hafi mikið kaup, get ég upplýst það, að hann hefir minna kaup en þeir aðstoðarmenn, sem eru hjá vegamálastjóra og vitamálastjóra. Ég man ekki, hvað það er mikið í tölum, en vona, að þetta fullnægi hv. 1. þm. Skagf.

Það leiðir af sjálfu sér, að þetta starf fellur niður, ef þetta frv. verður samþ., því að með því er fræðslumálastjóra séð fyrir þeirri aðstoð, sem hann þarf á að halda, en hefir ekki fengið til þessa. Og ég vil benda hv. 1. þm. Skagf. á það, að ef hann vili losna við þennan eftirlitsmann, sem reyndar hefir nú fengið góða „kritik“ í Morgunblaðinu, svo að ekki þarf að efa, að hann sé góðum hæfileikum búinn, gerir hann bezt í því að fylgja þessu frv., því að með því er komið skipulagsbundnu eftirliti á fræðslumálin. Það hefir verið vanrækt til þessa og fræðslumálastjórinn ekki getað afkastað öllum þeim málum, sem hann hefði þurft að sinna. Á þessu er ráðin bót með þessu frv., og mér finnst, að hv. 1. þm. Skagf. ætti að vera þakklátur eftirmanni sínum fyrir það, sem gert hefir verið í þessum málum, sem hann skildist við í megnasta ólagi.