18.02.1930
Neðri deild: 30. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 675 í C-deild Alþingistíðinda. (1224)

66. mál, verðtollur

Fjmrh. (Einar Árnason):

Ég vil þakka hv. flm. þessa frv. fyrir að hafa orðið við þeim tilmælum mínum að flytja það.

Ég tel það óheppilegt, að þetta mál skyldi ekki hafa komið fram fyrr, vegna þess hve nauðsynlegt er, að það verði afgr. á þessu þingi. Tolltekjur ríkissjóðs svífa að sumu leyti í lausu lofti, svo að segja má, að það sé undir hælinn lagt, hvort ekki verði kippt undan þeim fótunum þá og þegar. Það ástand, sem við búum nú við í þessu efni, að það skuli þurfa að fá á hverju þingi framlengingu á einum eða öðrum tekjustofna ríkissjóðs, er með öllu óþolandi.

Ég vil geta þess, að ég er samþykkur stefnu þessa frv. í öllum aðalatriðum. Geri ég ráð fyrir, að ágreiningur nefndarhlutanna sé aðallega um flokkun hinna ýmsu vörutegunda, enda skilst mér, að hv. þm. Ísaf. beri aðeins fram brtt. við frv.

Ég vildi óska, að hv. fjhn. sæi sér fært að taka þetta mál sem fyrst til athugunar og hraðaði afgr. þess, svo sem unnt er. Þetta frv. er meira aðkallandi en frv. um tekju- og eignarskatt, og vildi ég því fara fram á það við hv. n., að hún afgreiddi það fyrst. En auðvitað væri bezt, ef svo gæti orðið, að bæði þessi frv. yrðu afgr. á þessu þingi.