24.01.1930
Neðri deild: 4. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1284 í B-deild Alþingistíðinda. (1229)

19. mál, fræðslumálastjórn

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Ég ætla að svara hv. 1. þm. Skagf. fyrst, af því að hann ber fram fyrirspurn til mín. Ég hafði nú haldið, að hann vissi það betur en raun ber vitni, hvernig verkaskipting er háttað í þeirri deild stjórnarráðsins, sem hann veitti forstöðu á undan mér. Fræðslumálastjóri starfar svo að segja eingöngu við barnaskólana og auk þess dálítið við unglingaskólana, og ég hygg, að hann hafi haft meira að gera upp á síðkastið en nokkru sinni áður, vegna þess hve mikið hefir verið byggt af skólahúsum. Þegar því hv. 1. þm. Skagf. spyr, hvort þessi umræddi aðstoðarmaður hafi verið skipaður eftir ósk fræðslumálastjóra, þá er því til að svara, að slíkt kom ekki til greina. Ég hefði heldur ekki lastað né talið illa farið, þó að fyrirrennari minn í embættinu hefði gert þetta.

Og það er ekki hægt að áfella fræðslumálastjóra; eins og starfað var áður, hvílir engin skylda á honum um þetta. Ef heimta á af honum meiri vinnu, þá er það ekki rétt, og það af þeirri einföldu ástæðu, að kunnugt er, að hann vinnur meira starf að öllu samanlögðu, en fær þó minni aðstoð en aðrir sambærilegir starfsmenn ríkisins.

Ég vil aðeins svara fyrirspurn hv. 1. þm. Reykv. með annari spurningu: Hvaða laun hafa aðstoðarmenn hjá vegamálastjóra og vitamálastjóra? Þessi margumræddi aðstoðarmaður í fræðslumálum er ekki ráðinn fastara eða með hærri launum, heldur þvert á móti hefir hann mun lægra kaup en þessir menn, sem ég nefndi.

Ef hv. 1. þm. Reykv. er ekki ánægður með þetta svar, þá hann um það. Og ef hann vill segja, að nauðsynlegt sé fyrir vegi, brýr og vita að hafa slíka aðstoðarmenn, en óþarft að því leyti er viðkemur andlegu málunum, þá segi ég nei og aftur nei við því.