24.01.1930
Neðri deild: 4. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1285 í B-deild Alþingistíðinda. (1231)

19. mál, fræðslumálastjórn

Magnús Jónsson:

Ég bjóst nú ekki við neinu svari hjá hæstv. dómsmrh. Við þm. eigum því ekki að venjast, að þessi ráðh. svari rökstuddum fyrirspurnum um hluti, sem alþjóð varðar. Hitt er einnig kunnugt, að þessi hæstv. ráðh. telur sig því síður skyldan til að fara eftir till. réttra aðila um embættisveitingar. (Dómsmrh.: Um eitt embætti þó). Ráðh. er víst að minna á, að hann reyndi að þverskallast við í lengstu lög að fara eftir till. háskólaráðs um skipun ákveðins manns í prófessorsstöðu. (Dómsmrh.: En ég gerði það þó!). Já, að hálfu leyti mætti kannske segja það, þar sem hann setti í embættið þann mann, sem háskólaráðið lagði til að fengi veitingu fyrir embættinu. En hafi hann álitið mann þennan ófæran til embættisins, átti hann að bægja honum frá embættinu alveg. (Dómsmrh.: Það er hægt enn). Já, það er hægt enn og sjálfsagt fyrir ráðh. að gera það, ef hann álítur það rétt.

Út af þessari fyrirspurn, sem beint var til ráðh., hefir þó fengizt það, sem nú er vitað með vissu, að þessi margumræddi aðstoðarmaður, „yfirfræðslumálastjórinn“, er ekki skipaður eftir beiðni eða till. fræðslumálastjóra, en kaup og ráðningartími er eftir sem áður fullkomið leyndarmál.

Hinsvegar vildi ég skjóta því til hæstv. dómsmrh. út af fyrirspurn, sem hann beindi til mín úr ráðherrastóli um laun aðstoðarmanna hjá vega- og vitamálastjóra, að hann hljóti að geta fengið greið svör hjá embættisbróður sínum hæstv. atvmrh., sem er yfirmaður beggja þessara stofnana. En dómsmrh. man kannske varla eftir, að sá ráðh. er til?