01.03.1930
Neðri deild: 41. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1286 í B-deild Alþingistíðinda. (1236)

19. mál, fræðslumálastjórn

Magnús Jónsson:

Ég átti ekki von á, að málið kæmi á dagskrá svo snögglega, sem nú er raun á orðin, og er því varla við því búinn að ræða það. Ég hefi ritað undir nál. með fyrirvara og borið fram brtt. á þskj. 189. Er ágreiningur minn við aðra nm. aðallega í því fólginn, ef um ágreining er að tala, að ég sé ekki ástæðu til að láta þetta eftirlit ná til kaupstaðaskólanna. Yfirleitt má gera ráð fyrir, að við þá skóla starfi margir færir menn, sem geti haldið lagi á skólum sínum í samráði við fræðslumálastjórnina án annara milliliða. Enda yrði það mjög óviðfeldið í framkvæmd, ef lögin ættu að taka til kaupstaðaskólanna, því að þá yrði að jafnaði einn af kennurum hvers skóla að vera einskonar eftirlitsmaður hinna, þ. á. m. skólastjórans, sem annars er yfir hann settur. — Ég get ekki sagt, að verulegt ósamkomulag væri um þessa brtt. í menntmn., þótt ekki næðist samkomulag um, að n. bæri hana fram í heild. — Síðari tölul. brtt. minnar er um það, að orðin í 7. gr. frv.: „Kostnaður, sem af prófum leiðir, greiðist hér eftir úr sveitar- og bæjarsjóði, enda skulu skólanefndir skipa prófdómendur“, falli niður. — Þetta eru próf þau, er nú fara fram á hverju vori á kostnað ríkissjóðs, en í frv. er gert ráð fyrir, að kostnaður flytjist yfir á sveitar- og bæjarsjóðina. Er ég hræddur um, að þessi breyt. gæti orðið til þess, að prófin féllu niður með öllu í sumum fræðsluhéruðum, og teldi ég það illa farið. Ég held, að það væri bezt að láta þessa eftirlitsmenn, sem frv. talar um að skipa, sjálfa framkvæma prófin. Þau yrðu þá ekki endilega á vorin, enda er það ekkert aðalatriði.