21.03.1930
Neðri deild: 59. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 330 í B-deild Alþingistíðinda. (124)

1. mál, fjárlög 1931

Haraldur Guðmundsson:

Ég var ekki við í gær, þegar hæstv. fjmrh. talaði um brtt. mína um kaup á hlutabréfum í Eimskipafélagi Íslands. En mér var sagt, að hæstv. ráðh. hefði spurt, hvort ég ætlaðist til, að ríkisstj neitaði að inna af hendi þennan styrk til Eimskipafélagsins, nema félagið afhenti hlutabréf fyrir þeirri upphæð. Það er alveg óþarfi að svara þessu, því að það er skýrt í minni till., að hlutabréf skuli koma fyrir þennan styrk.

Þá hafði hæstv. ráðh. spurt, hvort ég ætlaðist til þess, að ríkisstj. hefði óskoraðan atkvæðisrétt í Eimskipafélaginu fyrir þetta hlutafé. Ég hefi þegar drepið á þetta og sagði, að stj. hefði haft óskuraðan atkvæðisrétt fyrir allt hlutafé sitt og að ég ætlaðist til, að atkvæðisréttur fyrir hlutafé ríkasjóðs héldist áfram án takmarkana eins og verið hefir. Þess vegna flutti ég ekki viðbótartill. um það.

Hv. 1. þm. Reykv. drap á þessa till. mína og kom fram með samskonar fyrirspurn og hæstv. ráðh., og hefi ég þá svarað henni hér með. En hv. þm. bætti því við, að það væri óheppilegt að breyta samþykktum félagsins frá því, sem nú er: Mér sýnist það ekkert óheppilegt. Ég álít, að nauðsynlegt sé að breyta samþykktum félagsins til þess að það geti notað sér þann styrk, sem ég ætlast til, að ríkissjóður veiti því með því að kaupa ný hlutabréf. Hlutaféð er ákveðið í lögum félagsins, og vitanlega þarf tíma til að gera breytingar á samþykktum félagsins. En tíminn er líka nægur. Á aðalfundi félagsins í sumar, og eins á aðalfundi félagsins 1931, mun gefast tækifæri til að koma í gegn þeim breytingum, sem nauðsynlegar eru á samþykktum félagsins. Þær breyt. þurfa ekki að vera aðrar en þær að auka hlutaféð sem þessu munar og kveða skýrt á um þau réttindi, er fylgja hlutafé ríkissjóðs.

Ástæðan, sem hv. 1. þm. Reykv. færði fram fyrir því, að óheppilegt væri að breyta samþykktum félagsins þannig, að auka mætti hlutaféð, var sú, að menn, sem stæðu nærri stj. félagsins, gætu náð miklum hluta nýju hlutabréfanna undir sig og gætu á ýmsan hátt notað aðstöðu sína til að „svindla á félaginu“, eins og hv. þm. kallaði það. Ég veit ekki, hvers vegna hv. þm. dettur þetta í hug. Ég veit ekki betur en það sé svo yfirleitt, þegar um almennt útboð hlutabréfa er að ræða, að þá sé almenningur látinn fá vitneskju um það, til þess að allir hafi tækifæri til að taka þátt í hlutabréfakaupunum. (MJ: Hvers vegna?). Þegar um almennt útboð hlutabréfa er að ræða, er þetta sjálfsagt til þess að girða fyrir, að fáeinir menn geti sölsað undir sig bréfin. Í hug almennings hefir Eimskipafélagið verið einskonar þjóðarfyrirtæki, en ekki verið skoðað sem venjulegt gróðafélag. Svo á það og að vera. Með því að auka eign ríkisins í félaginu er aukinn hlutur þjóðarinnar, almennings, í því.

En þó að það, sem hv. þm. hélt fram, að menn, sem standa nærri félagsstjórninni, mundu reyna að sölsa undir sig hlutabréfin, ef hlutafjáraukning yrði ákveðin, hefði við einhver rök að styðjast, sem ég vil vona, að ekki sé, þá er engin ástæða til að mæla á móti minni till. fyrir það, því að hún fer aðeins fram á að heimila að selja ríkisstj. hlutabréf. Þess vegna er engin hætta á því, að óhlutvöndum mönnum gefist færi á að sölsa undir sig hlutabréf félagsins, og ótti hv. þm. er því alveg ástæðulaus.

Þá vildi hv. þm. halda því fram, að þessi aukastyrkur til félagsins bæri ekki að skoðast sem styrkur. Ég skal benda á það, að sjálf félagsstj., sem er þessum málum kunnugust, lítur öðruvísi á þetta en hv. þm. Í skýrslu, sem stj. Eimskipafélagsins gaf út síðastl. ár, er drepið á fjárframlög ríkisins til félagsins. Um strandferðirnar segir stj. svo, með leyfi hæstv. forseta: „Félagið vinnur fyrir honum með auknum viðkomum skipa á ýmsar hafnir út um land, sem féllu niður, ef strandferðastyrkurinn yrði ekki veittur“. Og svo kemur: „En það er allt öðru máli að gegna með aukastyrk ríkis sjóðs til félagsins. Hann er beinlínis nokkurskonar fátækrastyrkur til félagsins, þar sem félagið lætur ekkert á móti, og á honum má ekkert byggja í rekstri félagsins.

Þetta er þá skoðun stj. Eimskipafélagsins um eðli styrksins, og að hv. þm. ólöstuðum, hlýtur hún þó að vera kunnugri hnútum Eimskipafélagsins en hann. Annars er óþarfi að vera með miklar vitnaleiðslur út af þessu atriði, því að þær samþykktir, sem þingið hefir gert, sýna, að það lítur svo á, að strandferðastyrkurinn og aukastyrkurinn sé ólíks eðlis. Strandferðastyrkurinn er ákveðinn með lögum, en fyrir aukastyrknum er aðeins heimild, sem ríkisstj. getur notað, ef ástæða er til eða þörf félagsins krefst, og aðeins ákveðið víst hámark fyrir þeim styrk. Hv. þm. vildi halda því fram, að félagið fengi ekki þennan styrk fyrir ekki neitt, heldur væri lögð sú kvöð á félagið, að það skyldi veita 60 mönnum ókeypis far frá og til útlanda og styrkurinn væri sem greiðsla fyrir það. Þetta er alveg rangt hjá hv. þm. Þetta er algerlega laust við aukastyrkinn og hefir aldrei verið í sambandi við hann. Í skýrslu Eimskipafélagsstj. um framkvæmdir félagsins árið 1928 er talað um skattfrelsi það, sem Eimskipafélaginu var veitt. Það er laust við útsvar til Reykjavíkurbæjar og tekju- og eignarskatt til ríkissjóðs, að öðru leyti en því, að það greiðir 5% af nettótekjum í bæjarsjóð. En þessu skattfrelsi fylgir skilyrði, eins og tekið er fram í skýrslu félagsins, og vil ég lesa þau orð upp, með leyfi hæstv. forseta:

„En þau skilyrði voru sett fyrir skattaívilnuninni, að félagið greiði hluthöfum sínum ekki hærri arð en 4 af hundraði á því tímabili og að því sé skylt að veita samkvæmt úthlutun menntamálaráðs Íslands allt að 60 mönnum (30 á hvoru farrými) ókeypis far til útlanda og heim aftur á skipum félagsins“. — Með öðrum orðum, þetta ókeypis far er til að mæta skattaívilnuninni, en ekki aukastyrknum, eins og hv. þm. hélt fram.

Þá kom hv. þm. með hagfræðilegar hugleiðingar og sagði, að annaðhvort yrði aukastyrknum eytt eða honum yrði ekki eytt. Þetta er alveg laukrétt hjá hv. þm. Ef þessari fjárhæð er ekki eytt til að greiða með arð til hluthafa, þá leggst hún við starfsfé félagsins. Hv. þm. sagði, að ef hlutabréf yrðu látin fyrir féð, þá væri þetta fé félaginu engu betra en lán. En þetta er ekki rétt hjá hv. þm. Það er áreiðanlega betra fyrir félagið að fá þetta fé sem starfsfé, hlutafé, en að verða að taka það að láni og greiða síðan vexti og afborganir af þeirri skuld, hvernig sem árar. Ef þetta fé verður hlutafé félagsins, þá stendur það undir skuldbindingum félagsins út á við. Og því sterkara er félagið, sem það hefir meira hlutafé. Því betur þolir það þau óhöpp, sem fyrir það kunna að koma. Og ég veit ekki, hvaða styrkur ætti að vera félaginu kærkomnari en einmitt slíkur styrkur frú ríkissjóði.

Þá sagði hv. þm., að ef svo færi, að styrknum væri eytt vegna þess að félagið tapaði á árinu, þá væri það aðeins útþynning á hlutafé félagsins, ef hlutabréf væru látin fyrir upphæðinni. Nokkuð er til í þessu. En hvar eiga töpin að koma niður. Hvar lenda þau, ef ríkissjóður leggur ekki fram þennan styrk, sem farið er fram á í minni till.? Tapið hlýtur þá að lenda á hlutafénu. Við þessu er ekki hægt að sporna, meðan félagið á ekki nægan varasjóð til að mæta töpunum. En því meira sem eigið starfsfé félagsins, hlutaféð, er þess betur á rekstur þess að ganga og því betur þolir það töp, sem það kann að verða fyrir.

Vilji félagið hinsvegar ekki þiggja þetta tilboð Alþingis um að leggja því starfsfé, þá hlýtur það að vera af því, að það þykist vera orðið svo öflugt, að það þurfi ekki aukins starfsfjár. Og þá er þarflaust að ætla því styrk úr ríkissjóði.