01.03.1930
Neðri deild: 41. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1292 í B-deild Alþingistíðinda. (1244)

19. mál, fræðslumálastjórn

Hannes Jónsson:

Það var hv. 2. þm. Eyf., sem talaði um þessa barnaskólakennara, sem væru svo illa launaðir, að þeim mundi ekki veita af að fá einhverja eftirlitsmenn til þess að fræða þá á því, hvernig þeir ættu að haga kennslu sinni. Ég hefði nú haldið, að þeir þyrftu ekki að barma sér lengur um laun barnakennaranna. A. m. k. skildist mér, að hv. þm. V.-Ísf. gæfi nokkurskonar allsherjar loforð fyrir þeirra hönd, að slíkar kvartanir mundu ekki koma fram á næstunni. Þá kemur mér það einkennilega fyrir sjónir, að í sama þingi er farið að kvarta um, að launin séu svo afskaplega lág, að þeim veiti ekki af að fá kennara heim til sin til að kenna þeim sjálfum, svo að þeir séu færir um að halda áfram barnakennslu. Nú er það svo, að þeir eiga ekki að þurfa að nota sumartímann til að vinna aðallega fyrir sér; launin eiga helzt að vera svo há. Það er annars skemmtilegur skollaleikur, sem barnaskólapostularnir leika hér í deildinni. Þeir kunna vel að taka aftur með annari hendinni það, sem gefið var með hinni. Þegar talað var um launahækkun barnakennara, átti að bjarga sveitunum með henni. Nú á að bæta á kostnaðinn hjá þeim aftur með þessu frv. Mér finnst þegar komið nokkurn veginn nóg af slíku, svo að réttast væri að bíða nú með það dálítinn tíma. Ég sé annars ekki, betur en að hv. 2. þm. Eyf. haldi, að þetta séu einhverjir óskaplegir fáráðlingar og fávitar, þessir kennarar í sveitunum, þeir þurfi að fá einhverja fræðslu. Hann sýnist halda, að þessir menn, sem eru nýkomnir frá prófi í Reykjavík og ættu að vera fyllilega færir um að inna þetta starf af hendi, þeir séu svo mikil börn, að þeir viti ekki, hvaða starf þeir eru að taka að sér. Þeir ættu þó að vera búnir að fá sæmilega undirstöðumenntun. En ég býst við, að ekki líði á löngu, áður en nauðsynlegt þykir, að þeir séu 5.–10. hvert ár í Reykjavík til þess að taka við öllum þeim nýjungum, sem forkólfar barnafræðslunnar láta sér í hug detta. Ég er að reyna að bera fram brtt. í þessu máli. En mér virtist allt of langt gengið í því að auka kostnað, sem áreiðanlega er hægt að komast af án. Ég held, að prófdómarastarf presta hafi tekizt vel og sé alls ekkert út á það að setja. Vitanlega má segja, að ástæðulaust sé að hlaða þessu á prestana. En hér kemur það sama til greina og oft áður, að það er réttara að láta starfsmenn ríkisins hafa nóg að gera og taka þá heldur tillit til þess í launum þeirra. Ég skil ekki þá ósamkvæmni, sem ríkjandi er hjá þingmönnum, þegar verið er að tala um launagreiðslur. Þá virðast mér allir vera sammála um það, að sameina í einn stað sem mest af skyldum störfum og launa þá heldur betur. En þess á milli er verið að pota inn nýjum starfsmönnum hjá þjóðinni, vitanlega með lágum launum fyrst. En brátt dregur til hins sama, að þau verða hækkuð, svo að blessaðir mennirnir geti lifað á þeim.