21.03.1930
Neðri deild: 59. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 333 í B-deild Alþingistíðinda. (125)

1. mál, fjárlög 1931

Frsm. síðari kafla (Bjarni Ásgeirsson):

Ég mun ekki verða langorður. Mér finnst umr. vera farnar að líkjast því, þegar börn eru í leiknum „sittu með þann síðasta“. Allir sýnast vera að gera tilraunir til að hafa síðasta orðið, þótt þeir hafi litið eða ekkert að segja.

Hv. 2. þm. Eyf. fór allómjúkum orðum um ummæli, er ég hafði haft út af brtt. frá fjvn., er mér var falið að boða við brtt. frá honum um sjóvarnargarð á Siglufirði. Hv. þm. sagðist ekki skilja, hvað þessi brtt. ætti að þýða. Ef henni væri bætt við brtt. hans, þá væri hún einskis virði. — Þessari klausu, „þegar fé er veitt til þess í fjárlögum“, er alvanalegt að hnýta við ýmsar samþykktir hér í hinu háa Alþingi, og hún þýðir það, að Alþingi bindur sig við fjárframlag í þessu skyni, en ætlar þó ekki að greiða féð af hendi fyrr en annað þing hefir samþ. það í fjárl. Mér virðist, að það ætti að vera reglan í sem flestum tilfellum að greiða ekki úr ríkissjóði fyrr en fjárlagaveiting er fyrir greiðslunni, enda þótt hún hafi verið samþ. í öðrum lögum. Út af því, sem hv. þm. sagði, að eitt þing gæti ekki bundið síðara þing um fjárframlög, vil ég segja, að þetta er e. t. v. ekki hægt lagalega, en siðferðislega getur eitt þing vel bundið annað á þennan hátt. Það er alveg sama eðlis og t. d. þegar samþ. er fyrsta greiðsla til einhvers, þá eru næstu þing siðferðislega bundin við að halda áfram fjárveitingum til þess.

Um rafveituna í Skagafirði held ég, að mér sé óhætt að sleppa öllum svörum. Það mál er orðið svo þrautrætt.

Það er aðallega hv. l. þm. Reykv., sem ég þarf að beina til nokkrum orðum. Skal ég þó ekki verja til þess nema litlu broti af þeim tíma, sem fyrirlestur hans áðan tók. Bæði hann og hv. 1. þm. S.-M. fóru mörgum orðum um það þjóðnytjastarf, sem Sigfús Sigfússon hefði unnið með söfnun þjóðsagna sinna. Um þetta þurftu hv. þm. ekki að sannfæra mig, og sjálfsagt ekki aðra hv. þdm. heldur. Öllum er þetta fullljóst, enda hefir Sigfús fengið nokkra viðurkenningu með því að honum er veittur fastur styrkur í 18. gr. fjárl. Aðalatriðið er hér fengið, að búið er að taka til varðveizlu frá gleymsku stórkostlegt heimildasafn, sem hv. 1. þm. Reykv. sagði réttilega, að yrði þeim mun verðmætara, sem lengra liður. En það rekur enga nauðsyn til að gefa allt safnið út núna. Nú er búið að forða því frá glötun, og handa almenningi tel ég óþarft að svo stöddu að gefa út nema úrval af því.

Hv. þm. talaði mikið um elliheimilið Grund. Út af því get ég endurtekið það, sem ég sagði í gær, að nefndin, sem fyrir þessu hefir staðið, er alls góðs makleg. En frá hinu get ég ekki horfið, að mér virðist Reykjavík eiga ein að standa straum af þessari stofnun, því að það er Reykjavík, sem hennar nýtur, ein eða nærri ein. Hv. þm. kom með samanburð á byggingu skóla og elliheimilis og sagði, að alveg eins ætti að styrkja hið síðarnefnda. En hér stendur mjög ólíkt á. Ríkið heldur uppi svo að segja allri skólastarfsemi í landinu, og þar fær Reykjavík sinn styrk í hlutfalli við aðra. En um fátækraframfærslu — ef hér má nota það orð — hefir verið farin sú leið, að láta hin einstöku héruð sjá alveg fyrir henni sjálf. Það eru því alveg sérmál bæði Reykjavíkur og Ísafjarðar, hvernig þau koma fyrir hjá sér fátækraframfærslu og ellistyrk. Ef þau kjósa að reka elliheimili, þá verða þau að gera það upp á eigin spýtur.

Ég ætla ekki að deila við hv. 1. þm. Reykv. um það, hversu skattabyrðinni er jafnað niður á einstaka landshluta, eða hvort Reykjavík beri hlutfallslega of mikið af henni. Það er alveg rétt hjá hv. þm., að mikið af sköttunum kemur frá Reykjavík. En aðstaða sú, sem allt landið hefir skapað Reykjavík, er þannig, að mikill hluti af auðæfum landsins hefir dregizt þangað. Því er ekki nema eðlilegt, að hlutfallslega mikið gjaldist þaðan aftur í sköttum.

Út af því, sem hv. þm. sagði um skemmtanaskatt og þjóðleikhús, skal ég aðeins segja, að ég veit ekki, hvar á landinu áhugi er fyrir því máli, ef ekki í Reykjavík. Annarsstaðar má heita, að hans verði alls ekki vart. Enda er þetta mjög eðlilegt. Hér er mest saman komið af menntamönnum og öðrum, sem skilyrði hafa til að geta metið leiklist. Aldan um þjóðleikhúsbyggingu er enda héðan komin. Það var þáverandi þm. Reykv., Jakob Möller, sem fyrstur bar þetta mál fram á Alþingi. Það er ein sönnunin enn fyrir því, að þetta er gert eftir óskum Reykvíkinga.

Þá kemur Stórstúkustyrkurinn og ummæli þau, er ég hafði um einn einstakan templara í sambandi við síðustu bæjarstjórnarkosningar í Reykjavík. Hv. 1. þm. Reykv. gerði málstað þessa manns, Þórðar Bjarnasonar, að sínum, og er það ekki nema sanngjarnt, þar sem hr. Þ. B. framdi atferli sitt í þágu flokks hv. þm. Af hinu „opna bréfi“, sem hv. þm. las hér í hv. deild, er það sæmilega ljóst, að það er skrifað í pólitískum tilgangi, til að koma ákveðnum flokki að notum. — Hv. þm. hneykslaðist á því, að ég skyldi tala um Stórstúkuna í þessu sambandi. Ég vissi, að bréfhöfundurinn hafði verið þar áður, þótt það sé eflaust rétt hjá hv. þm., að hann sé þar ekki lengur. Og það voru fleiri en ég, sem höfðu það álit, að ekki væri hægt að sjá annað en að bréfritarinn kæmi fram í stórstúkunnar nafni. (SE: Á Stórstúkan endilega að vera Framsóknarstórstúka) Ég skal koma að því síðar. Þó að hann sé ekki beinlínis í Stórstúkunni, er náið nef augum, þar sem Umdæmisstúkan hefir beinan styrk frá Stórstúkunni af því fé, sem Alþingi veitir.

Hv., þm. varð mjög tíðrætt um það, að með orðum mínum um frumhlaup Þórðar Bjarnasonar hefði ég verið að boða skoðanakúgun, þar sem ég héldi því fram, að menn í opinberum félagsskap mættu ekki hafa ákveðna-pólitíska skoðun. Þetta er ákaflega rangt hjá hv. þm. Ég hefi aldrei haldið slíku fram. Mér hefir aldrei dottið í hug, að t. d. leikendur Leikfélagsins mættu ekki hafa pólitíska skoðun. Hitt fullyrti ég, og það vil ég undirstrika, að þegar Þórður Bjarnason, eða hver annar sem er, kemur fram í nafni félagsskaparins og skorar á starfsmenn að styrkja ákveðinn pólitískan flokk, en vinna á móti öðrum, þá er of langt gengið. Ef t. d. Háskóli Íslands styrkti sérstakan pólitískan flokk, væri það hið mesta hneyksli, þó að hver og einn af prófessorum og nemendum megi að sjálfsögðu hafa þá skoðun, sem honum sjálfum lízt. Og ef Leikfélagið styrkti ákveðinn flokk, væri það of langt gengið. En opna bréfið til templara sýnir ljóslega, að sá, sem að því stendur, kemur fram sem sannleikans. postuli og dregur taum eins stjórnmálaflokks á kostnað annara. Þar segir svo um B-listann:

„B-listinn hefir ekkert tillit tekið til vor templara. Listinn er nær eingöngu skipaður andbanningum og því beint í andstöðu við vor málefni.

Ég leyfi mér því sem umdæmisgæzlumaður kosninga að skora á alla templara, sem kosningarrétt hafa, að styðja C- og A-listann, en ljá B-listanum ekkert lið og greiða honum ekki atkvæði“.

Hér er farið með hreinustu ósannindi. Það er hægt að sanna, að margir menn á. B-listanum eru bannmenn. Það er sérstaklega varhugavert fyrir félagsskap, sem hingað til hefir notið stuðnings frá öllum stjórnmálaflokkum, að spila frá sér því trausti með því að kasta sér út í flokkapólitík. Ég „kritisera“ þetta athæfi, af því að ég álít, að félagsskapurinn sé of góður til þess að láta sig henda slíkt; sá er vinur, sem til vamms segir.

Ég ætla að minnast ofurlítið á brtt. frá nokkrum þm., um að breyta styrk þeim, sem Eimskipafélag Íslands nýtur, í hlutafé. N. hefir óbundnar hendur um till., en ég tel mér skylt að lesa upp bréf, sem mér barst frá formanni og ritara Eimskipafélagsins. Það hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Út af tillögu um það, að aukastyrkur til Eimskipafélags Íslands sé bundinn því skilyrði, að félagið gefi út hlutabréf fyrir styrknum, viljum vér leyfa oss að leiða athygli að því, að þar sem styrkurinn gengur til árlegra rekstursútgjalda félagsins, þá væri útgáfa nýrra hlutabréfa í þessu tilfelli sama sem útþynning á hlutafé félagsins að sama skapi sem styrknum nemur. Í annan stað er þess að geta, að samkvæmt lögum félagsins er ekki mögulegt að selja ný hlutabréf án þess að gefa öllum hluthöfum hlutfallslegan rétt til kaupa á hlutabréfum. Nú á ríkissjóður ekki meira en 16. til 17. hluta af hlutafé félagsins, og yrði því að bjóða út hlutafé, sem væri 16 til 17 sinnum meira en styrkupphæðin, sem mundi algerlega umhverfa fjármálum félagsins.

Að þessu athuguðu, er það raunverulega sama sem að neita félaginu um styrkinn að setja umrætt skilyrði fyrir honum“.

Ég legg þetta bréf fram þeim til sýnis, sem vilja athuga þetta mál.

Þá ætla ég að svara vini mínum, hv. þm. Barð. nokkrum orðum. Honum þótti mér hafa farizt mjög óhöfðinglega, þar sem ég flutti brtt. við varatill. hans um að lækka þær 1.500 kr., sem hann vill veita séra Árna Þórarinssyni, niður í 600 kr. Þetta er ekki mínu óhöfðinglyndi að kenna, heldur því óhöfðinglyndi, sem kann að vera hér í hv. d. Ég mun greiða atkv. með aðaltill. hv. þm. og varatill. hv. þm., en ef hvorug verður samþ., ber ég mína till. fram.

Hv. þm. fór hörðum orðum um fjvn. fyrir það, að hún lagði á móti brtt. hans um styrk til Kristínar Jónsdóttur prestsekkju. Ég held, að hv. þm. hafi verið óþarflega ónotalegur í garð okkar nefndarmanna. Það var ekki vegna þess, að fjvn. vildi níðast á þessari prestsekkju, heldur varð nefndin að vera sjálfri sér samkvæm og fylgja þeirri reglu, sem hún hefir áður fylgt í þessum efnum.

Ég vil geta þess, að í gær láðist mér að minnast á nokkrar brtt. Sú fyrsta þeirra er á þskj. 323, frá tveim þm. Reykv., um lánsábyrgð fyrir Keflavíkurhrepp, til bryggjugerðar í Keflavík. Mér er óhætt að segja það f. h. n., að hún leggur á móti þessari till., eins og öllum öðrum, sem koma fram í sömu átt. Hún vill ekki ganga inn á þá braut að veita ábyrgð frekar einum stað en öðrum, þó að hún viðurkenni hinsvegar, að þessi till. er til bóta frá þeim, sem áður hafa legið fyrir þinginu.

Um till. beggja þm. Skagf., sem er III. till. á þskj. 324, skal ég geta þess, að n. mælir eindregið með henni og telur, að ef sú brtt., sem þessi er brtt. við, verður samþ., þá sé sjálfsagt að samþ. þessa.

Ég læt máli mínu hér með lokið, til þess að gera mitt til að stytta umr., þó að ástæða geti verið til að minnast á fleira.