26.03.1930
Efri deild: 61. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1297 í B-deild Alþingistíðinda. (1254)

19. mál, fræðslumálastjórn

Frsm. (Páll Hermannsson):

Þetta frv. er komið frá hv. Nd., var borið þar fram og samþ. með litlum breyt. Það má segja, að í því felist þrennskonar efni. Í fyrsta lagi fjallar það um fyrirkomulagið á fræðslumálastjórastarfinu og um laun þess embættismanns. Þetta er einkum að finna í 2. og 3. gr. frv. Það er ekki um mjög miklar breyt. að ræða frá því, sem er, en þó samt nokkrar. Verksvið þessa embættismanns er sett hér nokkuð rýmra heldur en það hefir verið áður, og sömuleiðis ern launin dálítið hækkuð. Ég skal geta þess í sambandi við 3. gr. frv., að þeir embættismenn, sem fræðslumálastjóri á að vera jafn að launum, eru vegamálastjóri, vitamálastjóri og húsameistari ríkisins. Þessir menn hafa nú lögum samkv. að byrjunarlaunum 5.000 kr., sem hækka á níu árum upp í 6.000 kr.

Í öðru lagi fjallar frv. um væntanleg skólaráð fyrir héraðsskóla og gagnfræðaskóla. Þetta er svo ljóst í 4. og 5. gr., að ég sé ekki ástæðu til að tala neitt um það. Það er sem sé ætlazt til, að með fræðslumálastjóra verði tveir menn til ráðleggingar um störf þessara skóla, en aftur á móti er ætlazt til þess, að skólaráð, sem hugsað er til, að verði líka með fræðslumálastjóra í sambandi við barnaskólana, fari eftir lögum frá 1928 um fræðslumálanefndir.

Í þriðja lagi er svo gert ráð fyrir því í þessu frv., að komið verði á fót eftirliti með kennslu í barnaskólum, svo kölluðu kennslueftirliti. Um það atriði er sérstaklega talað í 6. gr. frv.; þar er gengið út frá því, að hæfustu barnakennurum á vissum svæðum á landinu sé falið eftirlit með öðrum kennurum. Það verða sett upp einskonar umdæmi, þar sem einum hæfum kennara er falin aðstoð og leiðbeining með öðrum kennurum.

Í nál. frá menntmn. á þskj. 339 kemur í ljós, hvernig afstaða n. er til frv. Einn nm., hv. 3. landsk., vill samþykkja þau atriði, er snerta fræðslumálastjórastarfið, en fella burt miðkaflann, og er í sjálfu sér vel unnt að hafa þessa aðferð. Við hinir tveir nm. leggjum til, að frv. verði samþ. í heild, þó með einni smábreyt. á 7. gr. Í stjfrv. var 7. gr. eins og gert er ráð fyrir að hún verði, ef samþ. er brtt. á þskj. 339, en þennan hluta gr. felldi hv. Nd. niður. Eins og hv. þdm. geta séð, ef þeir virða fyrir sér frv., gerir 7. gr. þess ráð fyrir að fella niður þá skyldu, sem ríkissjóður hefir samkv. l. um fræðslu barna frá 1926 til að greiða prófdómendum við vorpróf laun fyrir starfa sinn. En í núverandi mynd sinni segir 7. gr. ekkert um það, hver þarna eigi að koma í stað ríkissjóðs. — Hér er ekki um mikinn kostnað að ræða fyrir ríkissjóð. Greiðslan til prófdómenda er aðeins 6 króna dagkaup með dýrtíðaruppbót. Þar sem barnafræðslan er nú kostuð að nokkru leyti af ríkinu og að nokkru leyti af héruðunum, fannst menntmn. eðlilegt að taka upp aftur þá hugmynd hæstv. landsstj., að láta sveitar- og bæjarfélögin bera kostnaðinn og ráða prófdómendum við vorprófin. Raunar er hér um mjög smávægilegt atriði að ræða, en hv. Nd. hefir ekki breytt 7. gr. svo, að hún geti staðizt, svo að óhjákvæmilegt er að senda henni frv. aftur til meðferðar. Sakar þá ekki, þótt reynt sé, hvort hún vill fallast á þessa breytingu.