26.03.1930
Efri deild: 61. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1299 í B-deild Alþingistíðinda. (1256)

19. mál, fræðslumálastjórn

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Ég er mjög þakklátur hv. menntmn. í heild fyrir meðferð þessa frv., og vil ég geta þess, að brtt. hennar um kostnað af prófdómendum tel ég vera til bóta. Ég þykist þurfa að skýra lítillega, hvað fyrir stj. vakti, þegar hún setti inn í frv. þau ákvæði, sem hv. 3. landsk. vill nú nema burt. Það er meiningin, að í allstórum héruðum úti um landið, og eins hér í bænum, verði einn kennari, sem færi á milli skólanna í umdæmi sínu og samræmi kennsluna. Eiginlega hefði fræðslumálastjóri þurft að geta ferðazt um milli skólanna, en það hefir þó aldrei getað orðið. Það var vitanlega alveg óhugsandi fyrir jafngamlan mann og Jón heitinn Þórarinsson, meðan hann gegndi þessu embætti, en væri þó sök sér nú, er yngri maður hefir tekið við. En samgöngurnar eru þannig hér innanlands, að enginn maður fengist til að taka að sér fræðslumálastjóraembættið með þessari kvöð, að vera hvern vetur á sífelldu ferðalagi. Því hefir verið tekið upp þetta ráð, sem er í miðkafla frv., til að skapa eftirlit með kennslunni, og á að eyða peningunum, sem farið hafa til að kosta prófdómendurna, til þessa eftirlits. En kostnaðurinn við prófin mundi þá leggjast á hlutaðeigandi bæjar- og sveitarfélög, og þessi kostnaður er ekki svo mikill, að hann yrði þeim verulegur baggi. — Nú er hið mesta ósamræmi innbyrðis milli fræðslunnar á ýmsum stöðum í landinu. Jafnvel er það svo hér í Reykjavík, að kennslan í ýmsum bekkjum með börn á sama aldri er mjög mismunandi. En það stendur til bóta, þegar hinn nýi barnaskóli tekur til starfa. Það, að þetta skuli eiga sér stað hér í Reykjavík, er þó gott dæmi um skipulagsleysið í þessum málum. — Það er sem sagt tilætlunin, að eftirlitsmenn hverrar sýslu heimsæki skólana þar og komi samræmi á kennsluna. En fræðslumálastjórnin yrði aftur að hafa námskeið hér öðru hverju, t. d. einu sinni á 5 árum, til að samræma hjá eftirlitsmönnunum. Þetta er svipað eins og t. d. á sér stað með kjötmatsmennina. Gegnum þessa eftirlitsmenn er ætlazt til, að fáist meira líf og samræmi í kennsluna úti um land. Því álít ég vera eyðilagt hálft frv. og vel það, ef gengið er inn á brtt. hv. 3. landsk.