15.02.1930
Neðri deild: 28. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 677 í C-deild Alþingistíðinda. (1257)

102. mál, hafnargerð á Dalvík

Flm. (Bernharð Stefánsson):

Þó að mér sé auðvitað mjög annt um, að þetta mál fái góðar undirtektir hér á Alþ., sé ég ekki ástæðu til að fara um það mörgum orðum að svo stöddu. Er það meðfram af þeirri ástæðu, að á þinginu 1929 voru samþ. lög, sem voru höfð til fyrirmyndar við samningu þessa frv. Hv. þm. eru því þegar vel kunn öll meginatriði frv. og hafa áður fjallað um þau, því síðasta þing fjallaði töluvert um hafnarmál, og ýms ákvæði eru sameiginleg þeim öllum.

Eins og hv. þm. hafa séð, fer þetta frv. fram á, að ríkið veiti samskonar stuðning til hafnarmannvirkja á Dalvík eins og Alþ. samþ. í fyrra að veita til hafnarmannvirkja á Skagaströnd. Hámark styrksins, sem farið er fram á að ríkið veiti á sínum tíma, er 150 þús. kr.

Á Dalvík hefir verið rekinn mótorbátaútvegur nú um æðimörg undanfarandi án, og fer hann stöðugt vaxandi. Eftir áliti Dalvíkinga og annara kunnugra manna er Dalvík álitlegasta höfnin við Eyjafjörð fyrir þann útveg, og jafnvel þó víðar væri leitað, einkum ef höfnin yrði bætt. En meðan ekkert er gert þar að hafnarbótum, á þessi útvegur við mjög mikla örðugleika að stríða. Þarna er brimasamt, og reynslan er sú, að bátabryggjurnar brotna og eyðileggjast. þegar stórbrim kemur. Kunnugir menn skýra svo frá, að reynslan á síðastl. 20 árum hafi verið sú, að endurnýja hafi þurft bryggjurnar til jafnaðar á 4–5 ára fresti. Þetta er nú reynsla síðustu 20 ára. en enginn getur sagt um nema reynsla næstu 20 ára verði enn lakari. Hlutaðeigendur telja, að kostnaðurinn við að byggja hverja bryggju sé 5–8 þús. kr. Geta menn af þessu séð, hve feikna þungur skattur þetta er á útgerðinni. Auk þess er útgerðinni það auðvitað stór bagi á mörgum öðrum sviðum, hvað höfninni er áfátt.

Hinsvegar hafa rannsóknir sýnt, að á Dalvík eru staðhættir þannig, að auðvelt er að gera örugga höfn. Og það er enginn vafi á því, að ef það væri gert, mundi skipta mjög um til hins betra með aðstöðu til útgerðar þar. Útgerðin mundi efalaust margfaldast á skömmum tíma; byggi ég þetta bæði á eigin kunnugleika og ummælum annara kunnugra manna.

En það er ekki eingöngu vegna útgerðarinnar, að örugg höfn er nauðsynleg á Dalvík. Þessar kröfur eru einnig gerðar með tilliti til verzlunaraðstöðu þar. — Eins og flestum þdm. mun vera kunnugt, þá liggur að Dalvík fögur og búsældarleg sveit, Svarfaðardalur. Það er ekki mjög stór sveit, en það er enginn efi á því, að hún hefir mjög mikla framtíðarmöguleika sem landbúnaðarsveit. En samgönguleysið stendur henni nú mjög fyrir þrifum. Það má heita svo, að Svarfdælingar hafi enn ekki aðrar samgöngur við umheiminn en að fara á sínum eigin mótorbátum inn á Akureyri. Að vísu kemur póstbáturinn, sem gengur um Eyjafjörð, þar við, en stærri skip örsjaldan. Það má því fullyrða, að það er ekki einungis útgerðin, sem hér er um að ræða, heldur líka framtíð sveitarinnar sem landbúnaðarhéraðs. Hina miklu möguleika hennar til aukinnar landbúnaðarframleiðslu er ekki hægt að nota nema að litlu leyti, fyrr en samgöngurnar verða bættar. Það er t. d. enginn efi á því, að Svarfaðardalur er mjög vel fallinn til nautgriparæktar og starfrækslu mjólkursamlags; en skilyrði til þess er, að á Dalvík komi góð höfn.

Í frv. er farið fram á, að ríkissjóður leggi á sínum tíma talsvert fé til þessara hafnarbóta. En það er fyrirsjáanlegt, að ríkissjóður myndi í framtíðinni fá góða vexti af þeirri upphæð í auknum sköttum og tollum, vegna aukinnar framleiðslu. Þá má benda á það, að ríkið á sjálft mikið af því landi, sem liggur að væntanlegri höfn, og mundi það hækka mikið í verði og ríkið þannig fá talsvert upp í þann kostnað, sem það leggur á sig.

Ég vil láta þess getið, að vitamálaskrifstofan hefir rannsakað möguleika fyrir þessari hafnargerð og gert af henni teikningu og kostnaðaráætlun um hana. Því miður gat ég þó ekki látið álitsskjal frá skrifstofunni fylgja grg. frv., en mun síðar leggja fram nægileg gögn í málinu. Skrifstofan hefir áætlað verkið, eins og gert er ráð fyrir því í frv., á ca. 300 þús. kr. Að vísu ber frv. með sér, að gert er ráð fyrir, að kostnaðurinn geti orðið meiri en þetta, en bæði er það, að tölurnar í frv. um ríkisframlagið ber að skoða sem hámarkstölur, og þess vegna, ef kostnaðurinn yrði minni, yrði framlag ríkisins það líka, og í öðru lagi var ekki tekinn með í áætlun vitamálaskrifstofunnar kostnaður við ýmsar framkvæmdir í landi, sem gera þarf í sambandi við hafnargerðina. Af þessum ástæðum þótti ekki annað fært en tiltaka hærri tölu í frv.

Ég vona, að það komi ekki að sök, að á þessu stigi málsins eru ekki lögð fram nánari gögn en þetta. Málinu verður eflaust vísað til n., og skal ég sjá um, að hún fái öll gögn frá vitamálaskrifstofunni; vænti ég að hv. þdm. beri það traust til hv. n., að þeir telji ekki athugavert, þó þau séu ekki lögð fram nú.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta frekar, en vænti þess, að sú hv. n., sem um þetta mál fjallar, athugi það vel, en reyni þó að skila því til hv. d. svo snemma, að líkindi séu til þess, að það komist í gegnum þingið að þessu sinni.

Svarfdælingum er þetta mjög mikið áhugamál; það er ekki af neinni fordild, að þetta frv. er fram komið, heldur er mönnum fyllsta alvara að reyna að koma verkinu í framkvæmd.

Í 1. gr. frv. er ákvæði um, að Svarfdælahreppur leggi fram 1/5 kostnaðar. Það mun vera óvanalegt, þó um nytsamt fyrirtæki sé að ræða, að einn einasti hreppur, og hann ekki fjölmennur, bjóðist til að leggja fram 75 þús. kr. Ég vil taka fram, að þetta er fyllsta alvara. Þeir ætla sér að leggja fram þessa upphæð og þeir hafa tryggingu fyrir að geta það.

Að lokum vil ég geta þess, að Fiskiþingið hafði þetta mál til meðferðar nú fyrir fáum dögum. Ég hefi að vísu ekki skjalfest álit þess, en mér er tjáð, að það mæli hið bezta með þessu frv. Vil ég svo leggja til, að frv. verði, að umr. lokinni, vísað til sjútvn.