26.03.1930
Efri deild: 61. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1300 í B-deild Alþingistíðinda. (1258)

19. mál, fræðslumálastjórn

Jón Þorláksson:

Ég er á móti þeim kafla frv., sem tveir síðustu hv. ræðumenn hafa gert að umtalsefni, sakir þess, að þetta verður æðikostnaðarsamt fyrir ríkissjóð, en gagnið af því mjög vafasamt. Ég veit, að þetta verður ósköp viðkunnanlegt fyrir kennarana, sem valdir verða til þess að ríða eða aka í bifreið milli skólanna í héraði sínu, og eitthvað kann e. t. v. að vinnast fyrir skólana, sem þeir heimsækja. En á móti þessum kostum vegur það fyllilega, að meira los hlýtur að komast á kennsluna í þeirra eigin skólum, meðan þeir eru í burtu. Vil ég í þessu sambandi geta þess, að ég og fleiri í menntmn. höfum skilið frv. svo, sem eftirlitskennarinn eigi áfram að hafa kennslu í skóla sínum eða að sjá sjálfur fyrir manni í sinn stað, meðan hann er í eftirlitsferðunum. Annað en þetta verður ekki lesið út úr orðum frv., hver sem tilætlunin kann að vera hjá hæstv. stjórn.

Yfirleitt finnst mér skriffinnskan og eftirlitsbáknin vera farin að keyra mjög úr hófi hjá hæstv. núv. landsstj., og þó einkum hjá hæstv. dómsmrh. Mér hefir talizt, að nú myndu vera orðin eitthvað 6 eða 7 stig frá barnakennaranum til ráðherrans í kennslumálum, ef frv. nær fram að ganga. En sakir þess, hversu mikið fámenni er hér, álít ég, að spara megi a. m. k. suma þá milliliði, sem nauðsynlegir kunna að vera í fjölmennari löndum.

Af þessum ástæðum er það, að ég tel nóg að samþykkja þau atriði frv., sem lúta að lagasetningu um starfssvið fræðslumálastjóra, en um það vantar enn lög.